Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kvikmyndaiðnaður eða kvikmyndalist árið 2050

Við þurfum að standa vörð um íslenska kvikmyndagerð svo hún verði ekki bara olíuborpallur í Atlantshafi


Ég er ekki merkilegur spámaður. Ég spáði því til dæmis að forsetatíð Donalds Trump myndi líklega verða frekar tíðindalítil og að Pepsi Twist væri komið til að vera. Þannig að við skulum stilla öllum væntingum í hóf.   

Hafandi fylgst með uppgangi faglegrar og fjölbreyttrar kvikmyndagerðar á Íslandi síðustu ár get ég vel séð fyrir mér að árið 2050 gæti nýja íslenska kvikmyndavorið hafa sprungið út í sígrænt sumar þar sem íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsþættir verða einn stærsti kyndilberi íslenskrar menningar út í þessa sísmækkandi veröld. Í þessari björtustu tímalínu hefur myndast samfélagslegur sáttmáli um að hafa trú á því að kvikmyndaframleiðsla sé verðmæt grunnstoð menningar okkar sem ber að halda áfram að styrkja og varðveita. Við höfum haldið áfram að fjárfesta í menntun íslensks kvikmyndagerðafólks með öflugri kvikmyndadeild Listaháskóla Íslands og áframhaldandi starfsemi Kvikmyndaskóla Íslands. Kvikmyndamiðstöð hefur áfram fengið fjárhagslegan og faglegan grunn til þess að styrkja fjölbreytt verkefni í krafti framsýnna yfirvalda sem hafa ekki sent kvikmyndalistina strax undir niðurskurðarhnífinn í hvert skipti sem á móti blæs. Það er loks kominn skilningur á því að til þess að varðveita menningu þarf að halda áfram að skapa hana.  

Í þessari veröld hefur myndast jákvætt jafnvægi á milli þess að stór erlend verkefni sæki hingað í hæfileikaríkt listafólk og framúrskarandi starfsumhverfi, og að við höldum áfram að bæta við okkar sameiginlega sagnaarf. 

En þessi framtíðarsýn krefst þess að við tökum ákvörðun um hvað við viljum að íslenski kvikmyndaiðnaðurinn sé. Það má færa rök fyrir því að aldrei hafi verið meiri gróska í íslenskri kvikmyndagerð; fjölbreyttari raddir fá að njóta sín en nokkru sinni fyrr og fagmennska listafólks á öllum stigum framleiðslu er á pari við það besta sem finnst úti í heimi. Það hefur orðið ákveðin hugarfarsbylting hjá yfirvöldum þegar kemur að verðmætamati á kvikmyndagerð. Það er nefnilega runnið upp ljós fyrir hinu opinbera, að kvikmyndagerð sé sannarlega verðmætur, og verðmætaskapandi iðnaður. 

Það er hins vegar krítískt að yfirvöld dragi réttan lærdóm af þessum nýlega veruleika. Þegar að endurgreiðsluhlutfallið var hækkað úr 25% upp í 35% fyrir kvikmyndaverkefni sem unnin eru hér á landi var því skiljanlega fagnað af flestum. Því næringarríkari sem jarðvegurinn er, því meira sprettur upp úr honum; fleiri og stærri verkefni, tengslamyndun, lærdómur og örugg vinna fyrir fjölda fólks. Þetta hefur strax skilað sér í risastórum erlendum verkefnum sem hafa plantað sér niður hér á landi svo mánuðum skiptir. Stór kvikmyndaver eru að rísa í Gufunesi, Hafnarfirði og víðar sem að miklu leyti eru hugsuð til að þjónusta þennan vaxandi innflutta iðnað. Þessi stóru kvikmyndaver eru að einhverju leyti hugsuð sem aðstaða þar sem hægt er að nýta stafræna bakgrunna til að taka upp kvikmyndir og þætti í heild sinni sem tengjast Íslandi ekki neitt. John Wick verður bara að salla niður einhverja Bedúina í stafrænni Marokkó í Hafnarfirðinum og Keanu Reeves svo skotist á KFC í Fjallahrauninu í hádeginu. Þetta opnar á þann möguleika að Ísland geti árið 2050 orðið risastór miðstöð alþjóðlegrar kvikmyndaframleiðslu með okkar fagþjálfaða starfsfólk, frábæra aðstöðu og mjög hagkvæmt fjárhagslegt umhverfi. 

Þetta hljómar að mörgu leyti vel, en í þessari framtíð er samt hætt við að við gleymum okkur sjálfum. Það er áætlað að endurgreiðsla kvikmynda gæti numið 7,6 milljörðum árið 2023. Stór hluti þess fer í erlend verkefni. Á sama tíma hafa framlög til Kvikmyndamiðstöðvar nánast staðið í stað í um 1,1 milljarði. Það er sá pottur sem á að styrkja alla þróun og alla framleiðslu íslenskra kvikmynda og sjónvarpsþátta. Þetta ójafnvægi gæti skapað aðra tímalínu þar sem að árið 2050 verður Ísland ein stærsta stóriðja með kvikmyndir í Evrópu. Hingað komi tugir erlendra verkefna sem skapi vissulega vinnu og fjárhagsleg verðmæti, en afurðin flutt jafnóðum úr landi eins og álklumpar á fraktskipum. Í þessum veruleika er hætt við að innlend verkefni verði undir í samkeppninni um fjármagn, starfsfólk, tíma og athygli því þau geta einfaldlega ekki keppt við þennan risavaxna skala. 

Það er sagt um kvikmyndagerð, líkt og fleiri listform, að erindi manns er bara maður sjálfur. Maður hefur ekkert fram að færa nema sína eigin sýn, sína eigin heimsmynd, sjónarhorn og rödd. Þetta á eins við um okkar kvikmyndamenningu alla í heild. Verðmæti Íslands í kvikmyndaheiminum er ekki bara að vera verksmiðja fyrir erlend kvikmyndaverkefni, heldur okkar rödd sem þjóð, okkar sjónarhorn og menning. Það er ómetanlegt fyrir okkar eigin menningu og sjálfsmynd, og það er ómetanleg viðbót við kvikmyndatungumálið allt. Viljum við ekki gera allt til að láta okkar rödd heyrast frekar en að verða bara einhver norskur olíuborpallur í Atlantshafi?
En hvað veit ég? Það er allt eins líklegt að árið 2050 verði gervigreindin búin að taka svo fullkomlega yfir allt að hefðbundin kvikmyndaframleiðsla verði bara fjarlæg minning og við getum bara öll setið heima hjá okkur og látið stafrænar útgáfur af Ingvari E. og Ólafi Darra leika út þúsundir þáttaraða af Ófærð fyrir okkur á degi hverjum þangað til tölvurnar slökkva loksins á sólinni.

Höfundur


Hrafn Jónsson

Kvikmyndagerðarmaður