Gengi krónu hefur verið í fremur jöfnum og þéttum styrkingarfasa frá því í nóvember síðastliðnum. Það sem af er ári hefur krónan styrkst um ríflega 5% sé miðað við viðskiptavegna gengisvísitölu en um rúm 6% gagnvart evru. Gengi krónu er þegar þetta er ritað u.þ.b. 5% veikara gagnvart evru og 7% gagnvart bresku pundi en það var að jafnaði í janúarmánuði árið 2020, síðasta mánuðinum áður en áhrifa COVID-19 tók að gæta á gjaldeyrismarkaði. Veiking krónu gagnvart Bandaríkjadollar í kjölfar faraldursins er hins vegar alfarið gengin til baka og er krónan nú nærri 3% sterkari gagnvart dollaranum en hún var í janúarmánuði 2020.
Krónan sækir í sig veðrið eftir faraldurinn
Gengi krónu hefur styrkst um ríflega 5% það sem af er ári. Seðlabankinn hefur hætt gjaldeyrissölu á markaði og verða frekari afskipti hans af gjaldeyrismarkaði líklega fremur sem kaupandi á næstunni. Ekki er víst að frekari styrking krónu fylgi auknum ferðamannastraumi allra næstu mánuði en horfur eru þó á sterkari krónu þegar fram í sækir.
Þótt almennt hafi verið búist við að gengi krónu myndi braggast þegar faraldurinn færi að láta undan síga hafa líklega færri átt von á því að það myndi gerast í jafnmiklum mæli og orðið er áður en ferðamannatekjur færu að aukast að ráði. Veiking krónu var raunar líka hóflegri en margir óttuðust í ljósi þess þunga höggs sem útflutningnum var greitt þegar ferðaþjónustan lagðist að stærstum hluta í dvala á vormánuðum í fyrra.
Seðlabankinn átti töluverðan þátt í að stemma stigu við veikingu krónu á síðasta ári og hefur að mati okkar líka stuðlað að vissu marki að styrkingu hennar í ár. Hrein gjaldeyrissala bankans nam samtals um 830 m. evra, jafnvirði 133 ma.kr., á síðasta ári. Langmest var salan á haustdögum á sama tíma og einn stærsti erlendi eigandi íslenskra ríkisbréfa seldi öll ríkisbréf í sinni eigu og skipti andvirðinu í gjaldeyri.
Seðlabankinn hélt svo uppteknum hætti á fyrstu mánuðum ársins og seldi samtals nærri 260 m. evra á fyrsta þriðjungi ársins. Í maí sneri hann hins vegar blaðinu við, hætti alfarið reglulegri gjaldeyrissölu á markaði og keypti raunar 15 m. evra á gjaldeyrismarkaði í maímánuði. Var maí fyrsti mánuðurinn frá júlí í fyrra þar sem bankinn var á kauphliðinni á gjaldeyrismarkaði.
Þessi umskipti bankans eru skiljanleg í ljósi þess að allgott jafnvægi virðist vera á gjaldeyrismarkaði þessa dagana auk þess sem heppilegra er fyrir komandi endurreisn ferðaþjónustunnar að Ísland sé ekki fram úr hófi dýrt í alþjóðlegum samanburði. Þar er raungengi reyndar heppilegri mælikvarði en nafngengið. Ef horft er á raungengi krónu miðað við verðlag má sjá að á þann kvarða er Ísland tæplega 3% ódýrara en það var í ársbyrjun 2020. Munurinn er þó meiri ef horft er til hátinds ferðamannauppsveiflunnar um mitt ár 2017 en frá þeim tíma hefur raungengi krónu lækkað um ríflega 17%. Það væri hins vegar ekki ákjósanlegt að fá raungengið aftur á þær slóðir að okkar mati, enda kom upp úr kafinu að arðsemi ferðaþjónustunnar var lök á þessum tíma þrátt fyrir öran vöxt.
Er frekari styrking krónu á næsta leyti?
Nú þegar erlendir ferðamenn eru aftur farnir að stinga hér upp kollinum í vaxandi mæli vaknar spurningin: Er frekari styrking krónu í kortunum á næstunni og mun hún sækja aftur í svipað gengisfar og árin 2017-2018 þegar fjöldi ferðamanna hér á landi náði hámarki?
Í nýlegri þjóðhagsspá okkar er meðal annars birt spá um gengi krónu. Sú spá hljóðar upp á ríflega 3% styrkingu krónunnar að jafnaði á þessu ári miðað við meðalgengi síðasta árs, tæplega 5% styrkingu á því næsta og rúmlega 1% styrkingu árið 2023 ef horft er á ársmeðaltöl. Þetta jafngildir því að gengisvísitala krónu verði að jafnaði tæplega 195 stig í ár, rúmlega 185 á næsta ári og 183 á árinu 2023. Á fyrstu fimm mánuðum ársins var meðalgildi gengisvísitölunnar 198,2 og því rúm fyrir nokkru sterkari krónu á tímabilinu júní-desember, eigi spá okkar að ganga eftir. Í gær, þann 9. júní, var gildi gengisvísitölunnar 190,9. Til samanburðar ætti meðaltal gengisvístölunnar frá júníbyrjun til ársloka að vera 192 svo spá okkar gangi eftir upp á punkt og prik.
Óþarfi ætti að vera að klappa enn og aftur þann stein hversu mikil óvissa fylgir spágerð um gengi gjaldmiðla. Við teljum hins vegar spá okkar frá maí enn góða og gilda, en samkvæmt henni ætti gengi krónu að jafnaði að vera svipað út árið og það er nú.
Vissulega eru horfur á auknum útflutningstekjum eftir því sem líður á árið og ferðamönnum fjölgar væntanlega jafnt og þétt. Þá gæti hreint innflæði gjaldeyris vegna erlendra fjárfestinga orðið nokkurt í ljósi þess að íslenski markaðurinn var nýverið tekinn inn í Frontier markets hlutabréfavísitölur MSCI og verðbréfaeign erlendra aðila hér á landi var í algeru lágmarki á vordögum.
Á móti vegur hins vegar að íslenskir lífeyrissjóðir eru líklegir til að bæta í erlend verðbréfakaup sín á komandi mánuðum, sér í lagi ef einhver frekari styrking verður á gengi krónu næsta kastið. Þá eru horfur á töluverðri aukningu á innflutningi eftir því sem neysla og fjárfesting braggast innanlands á sama tíma og innflutningsverð ýmissa hrávara og eldsneytis hefur hækkað allnokkuð frá ársbyrjun. Í þjóðhagsspá okkar er til að mynda aðeins gert ráð fyrir tæplega 1% viðskiptaafgangi í hlutfalli við VLF þrátt fyrir talsverðan vöxt þjónustuútflutnings.
Síðast en ekki síst er ekki ósennilegt að Seðlabankinn birtist í meiri mæli á kauphliðinni á gjaldeyrismarkaði ef tímabundið innflæði verður umtalsvert á gjaldeyrismarkaði. Bankinn getur fært gild rök fyrir því að kaupa aftur inn í gjaldeyrisforðann a.m.k. drjúgan hluta þess rúma milljarðs evra sem hann seldi úr forðanum á tímabilinu mars 2020 – apríl 2021, sér í lagi til þess að mynda mótvægi við mögulega stækkun á kvikum stöðum erlendra aðila í innlendum verðbréfum ef verðbréfakaup þeirra reynast umtalsverð á næstu mánuðum.
Í þjóðhagsspánni er það tekið fram að þótt við spáum u.þ.b. 10% sterkari krónu að jafnaði árið 2023 en hún var að meðaltali í fyrra sé ógjörningur að tímasetja þá styrkingu. Við teljum þó að það sé tæplega innstæða fyrir mikið meiri styrkingu á tímabilinu en spáin hljóðar upp á. Komi styrkingin fyrr en við spáum mun hún að sama skapi hægja á vexti útflutningstekna og auka á innflutta neyslu með tilheyrandi áhrifum á viðskiptajöfnuðinn. Sterk króna á allra næstu misserum dregur líka úr áhuga erlendra fjárfesta á innlendum verðbréfakaupum og eykur vilja lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis. Á endanum dregur þess konar þróun því að okkar áliti úr líkum á frekari styrkingu krónu og/eða auka hættu á veikingu krónunnar þegar lengra liður á.