Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Krónan líkleg til að styrkjast nokkuð þegar frá líður

Gengi krónu hefur sveiflast talsvert frá áramótum en er nú á nokkurn veginn sama stað og í ársbyrjun. Meðvindur með krónunni næstu misseri verður væntanlega minni en við væntum áður vegna óhagfelldari utanríkisviðskipta. Þó er útlit fyrir nokkra styrkingu þegar frá líður og gæti evran kostað u.þ.b. 142 krónur þegar kemur fram á árið 2025.


Eftir myndarlega styrkingu á fyrstu 5 mánuðum síðasta árs veiktist krónan linnulítið frá sumarbyrjun fram til ársloka. Sér í lagi gaf gengi krónu allhratt eftir á haustmánuðum nýliðins árs þrátt fyrir myndarlegt ferðaþjónustuhaust hér á landi. Að jafnaði var gengi krónu 3% hærra í fyrra en á árinu 2021.

Aukin stöðutaka með krónu í gegnum framvirka samninga átti líklega talsverðan þátt í styrkingunni frá ársbyrjun til maíloka þrátt fyrir talsverðan viðskiptahalla á tímabilinu. Nokkur viðsnúningur varð hins vegar í slíkri stöðutöku á seinni helmingi ársins á sama tíma og utanríkisviðskipti voru áfram óhagstæð og gjaldeyriskaup lífeyrissjóða voru talsverð. Sem fyrr leitaðist Seðlabankinn við að draga úr skammtímasveiflum en á heildina litið námu hrein gjaldeyriskaup bankans rúmlega 13 ma.kr. á síðasta ári.

Frá áramótum hefur gengi krónu sveiflast allnokkuð. Þannig veiktist krónan um tæp 4% gagnvart evru frá ársbyrjun fram til 25. janúar. Síðan hefur hagur krónunnar vænkast talsvert á nýjan leik. Þegar þetta er ritað kosta evran 151 kr. en kostaði tæpar 152 kr. í ársbyrjun. Svipaða sögu má segja af Bandaríkjadollar sem kostaði 142 kr. í ársbyrjun en kostar 141 kr. nú.

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar kemur fram að horfur um utanríkisviðskipti á næstunni hafa dökknað nokkuð frá síðustu spá okkar í september sl. Því er meðvindur með krónunni væntanlega ekki jafn sterkur á komandi fjórðungum og við væntum áður. Þó eru horfur á jafnvægi á viðskiptajöfnuði þegar fram í sækir vegna áframhaldandi útflutningsvaxtar, hægari vaxtar innlendrar eftirspurnar, lítilsháttar bata á viðskiptakjörum og jákvæðara framlags frumþáttatekna svo nokkuð sé nefnt. Vaxtamunur er einnig allnokkur og horfur eru á að hann aukist fremur en hitt. Einnig er erlend staða þjóðarbúsins sterk, hagvaxtarhorfur betri en gengur og gerist víða erlendis næsta kastið og innlend verðbréfaeign erlendra aðila fremur lítil í sögulegu samhengi og alþjóðlegum samanburði.

Á móti vegur meðal annars að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða verða væntanlega áfram talsverðar næstu misserin. Þá munu aðrir innlendir aðilar væntanlega einnig auka nokkuð við erlenda verðbréfaeign eftir því sem horfur batna á alþjóðamörkuðum.

Veruleg óvissa er ávallt um stærð og tímasetningu gengishreyfinga en í þjóðhagsspá okkar er gert ráð fyrir að krónan verði um það bil 8% sterkari í lok spátímans en hún var í árslok 2022 sem jafngildir því að evran kosti u.þ.b. 142 kr. undir árslok 2025.  Raungengið miðað við hlutfallslegt verðlag verður þá svipað og árið 2019 en raungengi felur í sér samanburð á innlendu verðlagi og launakostnaði við sömu stærðir erlendis að teknu tilliti til breytinga á nafngenginu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband