Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kortaveltutölur vísbending um talsvert hægari takt í innlendri eftirspurn

Nýjustu kortaveltutölur benda til þess að hagkerfið sé áfram að kólna allhratt. Samdráttur á milli ára í kortaveltu októbermánaðar er sá mesti frá ársbyrjun 2021. Tíðar vaxtahækkanir og mikil verðbólga virðist vera farin að hafa veruleg áhrif á neyslu landsmanna og líklegt að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé á lokametrunum.


Kortavelta innlendra greiðslukorta nam ríflega 110 ma.kr. í október síðastliðnum og stóð nánast í stað á milli ára samkvæmt gögnum Seðlabankans. Þegar leiðrétt er fyrir þróun verðlags og gengis krónu skrapp kortavelta heimila saman um 6,9% á milli ára í október. Það er mesti samdráttur sem mælst hefur á milli ára síðan í ársbyrjun 2021 þegar áhrif faraldursins á neyslu heimila voru sem sterkust.

Bæði kortavelta hér innanlands sem og erlendis skrapp saman í októbermánuði að raunvirði frá sama tíma í fyrra. Samdráttur í kortaveltu innanlands mældist 4,8% á milli ára en kortavelta Íslendinga erlendis dróst saman um 14% á sama tímabili. Kortavelta heimila innanlands hefur nú skroppið saman sjö mánuði í röð á meðan samdráttur hefur mælst í kortaveltu erlendis undanfarna fimm mánuði.

Færri utanlandsferðir Íslendinga

Samdráttur í kortaveltu heimilanna á erlendri grundu helst í hendur við umskipti í ferðagleði Íslendinga að undanförnu. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu hafa ferðalög Íslendinga um Keflavíkurflugvöll dregist saman milli ára síðan í apríl (að undanskildum júlímánuði). Í október voru brottfarir Íslendinga til að mynda 22% færri en þær mældust í sama mánuði í fyrra.

Á sama tíma heldur kortavelta erlendra korta hérlendis áfram að vaxa og helst nokkurn veginn í hendur við fjölgun ferðafólks hér á landi á milli ára. Í október voru erlend kort straujuð fyrir rúma 26 ma.kr. sem er aukning um 26% á milli ára. Fjöldi ferðamanna sem heimsótti landið heim í október í gegnum Keflavíkurflugvöll var ríflega 200 þúsund í október samkvæmt Ferðamálastofu sem er 29% fleiri ferðamenn en komu hingað til lands í október í fyrra.

Eins og fyrr segir var kortavelta erlenda korta hérlendis ríflega 26 ma.kr. í október á sama tíma og kortavelta Íslendinga erlendis var ríflega 23 ma.kr. Það að velta erlendra korta sé meiri en velta íslenskra korta utan landsteinanna þýðir að kortaveltujöfnuður er jákvæður og hefur nú verið það samfleytt frá maí síðastliðnum.

Landsmenn farnir að finna vel fyrir mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi

Þessi þróun kortaveltunnar er að mati okkar nokkuð góð vísbending um áframhaldandi breytingar á neyslutakti landsmanna. Heimilin virðast halda áfram að stíga þétt á bremsuna um þessar mundir eftir mikla neyslugleði síðastliðin tvö ár. Í fyrra jókst einkaneysla um 8,5% að raunvirði en samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar var vöxturinn talsvert hægari á fyrri hluta þessa árs eða um 2,5% og þar af einungis 0,5% á öðrum ársfjórðungi. Ljóst er að tíðar vaxtahækkanir Seðlabankans eru farnar að skila árangri og landsmenn farnir að finna vel fyrir háu vaxtastigi og mikilli verðbólgu.

Flestir aðrir hagvísar sem alla jafna gefa góða vísbendingu um um einkaneysluna benda einnig til hægari vaxtar næsta kastið. Helst má þar nefna að íslensk heimili virðast vera orðin ansi svartsýn um stöðu efnahagsmála samkvæmt Væntingavísitölu Gallup en í október mældist hún í sínum lægstu gildum frá árslokum 2020.

Útlit er fyrir að vöxtur einkaneyslu verði enn hægari á seinni hluta ársins en hann var á þeim fyrri. Við spáðum því í Þjóðhagsspá Greiningar í haust að vöxturinn yrði tæplega 2% í ár og miðað við framangreindar tölur teljum við að sú spá sé enn nærri lagi. Hafa verður í huga að einkaneysla á mann mun því dragast saman en vegna mikillar fólksfjölgunar undanfarið er útlit fyrir áframhaldandi vöxt heildarneyslunnar. Einkaneysla hefur verið einn helsti drifkraftur hagvaxtar síðustu misseri og hægari vöxtur hennar skýrir bróðurpart minni hagvaxtar sem útlit er fyrir í ár. Peningastefnunefnd Seðlabankans hlýtur að horfa til þessa og líklegt er að vaxtahækkunarferlinu sé senn að ljúka, ef það er þá ekki nú þegar á enda runnið. Næsta vaxtaákvörðun nefndarinnar er á miðvikudaginn næstkomandi og gerum við ráð fyrir óbreyttum vöxtum.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband