Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kortavelta skreppur áfram saman utan landsteina

Þróun kortaveltu bendir til þess að einkaneysla hafi skroppið talsvert saman á síðari hluta sumars. Það er þó huggun harmi gegn að neysla innanlands hefur líklega ekki gefið eftir á þessu tímabili. Sá takmarkaði ferðamannastraumur sem hingað kom meðan slakað var á landamæraaðgerðum dugði til þess að vega upp kortaveltu landsmanna erlendis á sama tíma.


Heildarvelta innlendra greiðslukorta nam 88 ma.kr. í ágúst síðastliðnum samkvæmt nýlegum tölum frá Seðlabankanum. Það jafngildir nærri 11% samdrætti í krónum talið á milli mánaða en ríflega 4% samdrætti frá sama mánuði í fyrra. Að teknu tilliti til þróunar verðlags og gengis nam samdráttur í kortaveltu 9,6%.

Neysla innanlands hélt sjó í sumar

Mikill munur var á þróun innlendrar og erlendrar kortaveltu milli ára eins og nærri má geta í ljósi mikillar fækkunar utanlandsferða landsmanna á tímabilinu. Var innlenda veltan nánast óbreytt á milli ára að raunvirði á meðan erlenda veltan skrapp saman um ríflega helming. Velta utan landsteinanna endurspeglar þó fleira en eingöngu neyslu á ferðalögum og sér í lagi hefur verslun í alþjóðlegum vefverslunum jafnt og þétt vegið þyngra í neyslumynstri landans undanfarin ár.

Kortavelta gefur alla jafna nokkuð sterka vísbendingu um þróun einkaneyslu. Tölur síðustu mánaða segja okkur í stórum dráttum tvennt um líklega þróun einkaneyslu á 3. ársfjórðungi:

-          Útlit er fyrir að samdráttur einkaneyslu reynist talsverður á fjórðungnum. Í júlí og ágúst skrapp kortavelta í heild saman um tæplega 7% að raungildi frá sömu mánuðum 2019.

-          Samdrátturinn er alfarið í veltu erlendis. Raunvöxtur kortaveltu innanlands í júlí og ágúst var 3,6% á milli ára en velta utan landsteinanna skrapp hins vegar saman um 53% á sama tíma.

Áhrif atvinnuleysis eiga eftir að koma fram að fullu

Þá má álykta að almennt tekjutap sé enn sem komið er ekki umtalsverður þáttur í þeim neyslusamdrætti sem orðið hefur. Kaupmáttur launa hefur þannig haldið áfram að aukast það sem af er ári þrátt fyrir bakslag í hagkerfinu, sem raunar er óvenjulegt fyrir íslenska niðursveiflu. Hins vegar hefur atvinnuleysi vitaskuld aukist hröðum skrefum og störfum í raun fækkað. Þótt áhrif þess á ráðstöfunartekjur séu enn sem komið er dempuð af launum á uppsagnarfresti, hlutabótaleið stjórnvalda og tekjutenginu atvinnuleysisbóta á fyrstu mánuðum þeirra fer ekki hjá því að aukið atvinnuleysi muni með sterkari hætti endurspeglast í neysluþróuninni á komandi mánuðum.

Við fjölluðum einnig um í nýlegu Korni að væntingar íslenskra neytenda hefðu lækkað mikið það sem af er ári og væri það til marks um líklegan samdrátt einkaneyslu á seinni hluta ársins. Það er þó til marks um hversu seigt er í neysluvilja landsmanna að innlenda kortaveltan hefur tekið töluvert við sér á nýjan leik eftir að innanlandshömlur vegna COVID-19 voru minnkaðar á vordögum. Það mun svo velta að miklu leyti á framgangi faraldursins og í kjölfarið hversu hraður batinn á vinnumarkaði verður hversu fljótt einkaneyslan sækir í sig veðrið að nýju.

Sveiflur í kortaveltujöfnuði

Fróðlegt er að bera saman kortaveltu landsmanna erlendis annars vegar og kortaveltu erlendra aðila hérlendis hins vegar. Mismunurinn þarna á milli, sem við höfum kosið að kalla kortaveltujöfnuð með vísan í samsvörun hans við hluta þjónustujafnaðar, hefur endurspeglað umtalsvert innflæði gjaldeyris samfara miklum vexti ferðaþjónustunnar á Íslandi undanfarinn áratug.

Frá því COVID-19 faraldurinn fór að setja mark sitt á ferðaþjónustuna hefur hins vegar syrt nokkuð í álinn hvað þennan jöfnuð varðar enda var velta erlendra korta hér á landi nánast engin í apríl og maí á þessu ári og sáralítil í júní. Eins og sjá má af myndinni hefur hins vegar ferðamannastraumurinn hingað til lands í júlí og ágúst dugað til þess að vega upp kortaveltu landsmanna erlendis á sama tíma, þótt aðeins kæmi brot af þeim ferðamannafjölda sem sótti landið heim á sama tíma í fyrra.

Þótt líklega hafi aftur sigið á ógæfuhliðina hvað þennan jöfnuð varðar eftir að landamæraaðgerðir voru hertar eftir miðjan ágústmánuð hlýtur að teljast jákvætt að sjá hversu fljótt hann getur tekið við sér á ný þegar bein og óbein áhrif COVID-19 taka að fjara út.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband