Heildarvelta innlendra greiðslukorta í nóvembermánuði nam 99,7 ma.kr. samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Í krónum talið er hér um að ræða ríflega 22% hækkun á milli ára en eins og flestum er væntanlega í fersku minni litaði Covid-19 faraldurinn talsvert lokafjórðung síðasta árs.
Ef horft er til ársbreytingar kortaveltunnar þegar búið er að taka tillit til verðlagsbreytinga og gengisþróunar krónu er aukningin að raunvirði milli ára 19,9%. Mikill munur er á þróuninni innanlands og erlendis líkt og verið hefur síðustu mánuði þótt aukningin sé almennt veruleg. Þannig jókst kortavelta hjá innlendum verslunum og þjónustuveitendum um 11% milli ára á þennan kvarða en utan landsteinanna varð hins vegar 89% aukning frá nóvembermánuði í fyrra.