Samkvæmt nýbirtum kortaveltugögnum Seðlabankans nam velta innlendra greiðslukorta ríflega 82 ma.kr. í febrúar síðastliðnum. Það samsvarar 13% aukningu frá sama mánuði í fyrra og um 4,5% aukningu frá sama mánuði árið 2020. Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortavelta um 10,5% á milli ára.
Kortavelta landsmanna heldur áfram að aukast
Líkt og síðustu mánuði ber kortavelta Íslendinga í útlöndum uppi vöxtinn. Óvissa ríkir um þróun einkaneyslu á næstu misserum vegna stríðsins í Úkraínu. Líklegt er að einkaneysla vaxi hægar á næstunni en áður var talið þar sem aukin innflutt verðbólga dregur úr kaupmætti heimilanna.
Líkt og síðustu mánuði mælist afar mikill munur á þróun kortaveltu innanlands og erlendis. Kortavelta innanlands jókst einungis um 0,5% að raunvirði frá fyrra ári og hefur vöxturinn ekki mælst svo hægur síðan kortavelta tók að aukast á ný eftir samdrátt í upphafi faraldurs. Hins vegar jókst kortavelta erlendis um 93% að raunvirði frá sama mánuði árið 2021, en það hefur verið þróunin uppi á síðkastið þar sem erlenda kortaveltan lagðist tímabundið nánast af í faraldrinum.
Ef febrúarmánuður er borinn saman við sama mánuð árið 2020, rétt áður en faraldurinn skall á, er raunvöxtur innlendrar kortaveltu 7% og vöxtur erlendrar kortaveltu 4%. Það má því segja að kortaveltan bæði innanlands og erlendis hafi þegar náð fyrri hæðum og mælist nú enn meiri en fyrir faraldurinn.
Mun stríðið í Úkraínu hafa áhrif á einkaneyslu?
Kortavelta gefur góða vísbendinga um þróun einkaneyslu, sem tekið hefur hressilega við sér eftir 3% samdrátt árið 2020. Til að mynda nam vöxtur einkaneyslu 7,6% á árinu 2021 samanborið við árið á undan og ef einkaneyslan er borin saman við árið 2019 nam vöxturinn 4,4%. Það má því segja að neysla landsmanna hafi náð sér að fullu eftir faraldurinn og gott betur.
Í kortaveltugögnum febrúarmánaðar er innrásar Rússa í Úkraínu ekki enn farið að gæta. Innrásin hófst þó ekki fyrr en 24. febrúar og því líklegra að áhrif stríðsins muni lita tölur næstu mánaða.
Við teljum að stríðið gæti með óbeinum hætti haft áhrif á einkaneyslu hér í landi. Í gær birti Greining Íslandsbanka Korn um áhrif stríðsins á íslenskan efnahag þar sem fram kemur að einkaneysla muni að öllum líkindum vaxa eitthvað minna vegna stríðsins. Aukin innflutt verðbólga dregur úr kaupmætti heimilanna og líklegt er að væntingar landsmanna muni dragast saman í næstu mælingum. Heimilin eiga það til að halda að sér höndum á óvissutímum og vitanlega veltur þróun einkaneyslunnar á framgangi stríðsins á næstu vikum og mánuðum.