Hins vegar lítur út fyrir að áhrif faraldursins á heildarneyslu Íslendinga hafi nú þegar fjarað út og er kortavelta nú orðin meiri en hún var fyrir faraldur á alla mælikvarða. Ef fyrsti fjórðungur þessa árs er borinn saman við sama tíma árið 2019, þ.e. fyrir faraldurinn, jókst innlenda kortaveltan um ríflega 11% að raunvirði og erlenda kortaveltan um 1%.
Úr verslun í þjónustu
Athyglisvert er að skoða frekara niðurbrot á gögnum kortaveltunnar sem Rannsóknarsetur verslunarinnar birtir (RSV). Samkvæmt RSV jókst kortavelta í nær öllum flokkum á milli mánaða sem rímar við fyrrnefnd gögn Seðlabankans. Augljós breyting hefur þó orðið á neyslumynstrinu á milli ára. Ef marsmánuður er borinn saman við sama mánuð í fyrra dróst velta í innlendri verslun saman um tæplega 4% á meðan kortavelta í þjónustutengdum greinum jókst um 30%.
Þetta kemur þó lítið á óvart þar sem takmarkanir vegna faraldursins voru með mesta móti á þessum tíma í fyrra og sérstaklega lagðist starfsemi í tilteknum þjónustutengdum greinum tímabundið af. Það er þó bæði áhugavert að heildarneyslan í faraldrinum hélt velli í stórum dráttum og neysluhegðunin breyttist umtalsvert á sama tíma. Þetta sést nokkuð vel á sundurliðuðu gögnunum um kortaveltuna í mars þar sem velta dróst saman á milli ára í flokkum eins og byggingarvöruverslunum (-19%), áfengisverslunum (-29%) og heimilistækjaverslunum (-5%). Eins og flestir muna var fólk mikið heimavið á þessum tíma og margir sem réðust í einhverskonar framkvæmdir á húsakynnum sínum eða nýttu ráðstöfunarfé sem ella hefði farið í utanlandsferðir eða þjónustukaup til þess að endurnýja tækjakost og húsbúnað heimilisins.