Samkvæmt nýbirtum kortaveltutölum frá Seðlabankanum skrapp kortavelta landsmanna saman um tæp 5% að raungildi í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra. Mikill munur var hins vegar á þróun innlendrar kortaveltu og kortaveltu utan landsteinanna í mánuðinum. Þannig nam kortavelta innanlands alls 71,5 mö.kr. og óx hún um ríflega 6% að raungildi frá nóvember í fyrra. Kortavelta landsmanna erlendis dróst hins vegar saman um tæpan helming á sama kvarða og nam alls 10,0 mö.kr.
Kortavelta innanlands enn í vexti þrátt fyrir Kórónukreppu
Kortavelta í nóvembermánuði endurspeglar talsverða neyslugleði þrátt fyrir Kórónukreppu og fylgifiska hennar. Þótt kortavelta erlendis hafi skroppið mikið saman frá því faraldurinn skall á hefur aldrei verið meiri halli á kortaveltu milli landa en í síðasta mánuði. Líklegt er að nokkur samdráttur reynist í einkaneyslu á lokafjórðungi ársins en líkt og verið hefur undanfarið verður hann bundinn við neyslu utan landsteinanna.
Efalítið hafa tilboðsdagar kenndir við Dag einhleypra og Svartan föstudag haft sitt að segja um veltuaukningu innanlands á milli ára. Slík tilboðstímabil hafa rutt sér hratt til rúms undanfarin ár hérlendis og í samkomutakmörkunum Kórónukreppunnar hefur hlutur netverslunar í slíkum tilboðstímabilum tekið stökk. Til að mynda var haft eftir framkvæmdastjóra SVÞ á mbl.is að nóvember hefði verið metmánuður í netverslun og vöxturinn mikill.
Kortaveltuhalli aldrei meiri
Hlutfall erlendrar veltu af heildar kortaveltu landsmanna hefur lækkað mikið frá því Kórónukreppan skall á. Það nam ríflega 12% í nóvembermánuði en til samanburðar var hlutfall erlendrar veltu af heildarveltu tæp 18% að jafnaði í fyrra. Líkast til hefði þetta hlutfall lækkað enn meira ef ekki kæmi til aukin verslun landans við erlendar netverslanir. Í því sambandi má benda á að utanferðir landsmanna voru tæplega 2.000 í síðasta mánuði samanborið við ríflega 45.000 ferðir í nóvember 2019 samkvæmt tölum Ferðamálastofu. Þótt lægra gengi krónu eigi væntanlega nokkurn þátt í að samdrátturinn í kortaveltu mælist minni en ella hlýtur meginskýringin á því hversu velta utan landsteina heldur þó sjó að mati okkar að felast í stórauknum pöntunum af Amazon, AliExpress, ASOS og þeirra líkum. Samkvæmt sölu- og markaðsstjóra DHL á Íslandi í viðtali við RÚV hefur fjöldi pakkasendinga til landsins á vegum flutningsþjónustunnar meira en tvöfaldast undanfarnar vikur frá sama tíma í fyrra.
Það er vissulega styrkleikamerki hversu stöðug innlend kortavelta hefur reynst þrátt fyrir efnahagssamdrátt og sóttvarnaraðgerðir vegna COVID-19 faraldursins í ár. Að jafnaði jókst kortavelta innanlands um 2,7%, leiðrétt fyrir verðlagi, á fyrstu 11 mánuðum ársins á meðan kortavelta á erlendri grundu skrapp saman um 45% að raungildi á sama tíma. Það fer þó ekki hjá því, þegar tekjur vegna kortanotkunar erlendra ferðamanna hér á landi hrynja líkt og gerst hefur frá apríl að telja, að gjaldeyrisútflæði vegna kortaveltunnar verði talsvert. Að júlí undanskildum hefur samfellt verið halli á kortaveltujöfnuði við útlönd frá mars síðastliðnum. Hámarki náði þessi halli einmitt í nóvembermánuði þegar útflæði vegna kortaviðskipta nam 8,3 mö.kr. og hefur það ekki verið meira í krónum talið það sem af er öldinni. Landsmenn einskorða því væntanlega ekki jólaverslunina á netinu við innlenda aðila þrátt fyrir myndarlegan vöxt í slíkri verslun.
Faraldurinn stýrir einkaneyslusveiflunni
Fylgni kortaveltu við nýgengi COVID-19 smita er sterk og gefur tóninn um hversu mikið einkaneysla sveiflast í takti við framgang faraldursins og aðgerða gegn honum. Eins og sjá má af myndinni hefur samdráttur kortaveltu milli ára verið mestur þegar nýgengi smita er nærri hámarki. Miðað við þróun nýgengisins síðustu vikur gæti því verið að samdráttur kortaveltu á lokavikum ársins yrði með hóflegra mótinu þrátt fyrir að sóttvarnaraðgerðir setji óhjákvæmilega talsverðan svip á aðventu og jólahald þetta árið.
Útlit fyrir samdrátt einkaneyslu í ár en vöxt 2021
Á fyrstu níu mánuðum ársins skrapp einkaneysla saman um 3,5% að raungildi frá sama tíma í fyrra. Kortavelta er sá hagvísir sem gefur einna gleggstu vísbendinguna um hvert stefnir í einkaneyslu landsmanna. Eins og sjá má af myndinni hefur fylgnin þarna á milli verið allsterk upp á síðkastið og má gera því skóna að einkaneysla á lokafjórðungi ársins þróist með líku lagi og kortatölurnar.
Vaxandi kaupmáttur launa þeirra einstaklinga sem hafa haldið vinnu sinni óskertri á árinu styður við einkaneysluna um þessar mundir. Sama má segja um eignastöðu þorra heimila, sem var að jafnaði sterk við upphaf Kórónukreppunnar og hefur trúlega hjá flestum látið lítið á sjá. Hins vegar er sá fjöldi heimila ört vaxandi sem verður fyrir verulegum búsifjum vegna atvinnu- og/eða tekjumissis í kjölfar kreppunnar. Atvinnuleysi mældist 10,6% í nóvembermánuði og áætlar Vinnumálastofnun að atvinnuleysið aukist enn í desembermánuði.
Væntanlega mun því einkaneysla reynast öllu minni á lokafjórðungi ársins en hún var fyrir ári síðan. Í spá okkar sem birt var í lok september spáðum við því að einkaneysla myndi skreppa saman um 3,3% á árinu í heild og virðist sem sú spá muni reynast nærri lagi. Hins vegar eru eftir sem áður horfur á því að einkaneyslan taki við sér að nýju eftir því sem líður á næsta ár og faraldurinn lætur undan síga.