Kortavelta nam 104 ma.kr. í apríl síðastliðnum og jókst um tæplega 12% á milli ára samkvæmt gögnum Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV). Svo hægur hefur vöxturinn ekki verið frá því í október síðastliðnum. Hins vegar dróst kortavelta saman um 4,6% í apríl frá marsmánuði.
Þegar tekið er tillit til verðlags var vöxtur kortaveltu talsvert minni eða um 3% á milli ára. Fyrir utan októbermánuð síðastliðinn, þegar kortavelta stóð nánast í stað á milli ára, þarf að leita aftur til byrjunar ársins 2021 fyrir minni vöxt kortaveltunnar. Miðað við þessar nýbirtu tölur Rannsóknarsetursins gæti kortavelta verið að hægja talsvert á sér eftir kipp á fyrsta fjórðungi ársins.