Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kortavelta innanlands drifin áfram af ferðamönnum

Kortavelta hér á landi jókst um 3% á milli ára að raunvirði í aprílmánuði. Það er töluvert hægari vöxtur en fyrstu þrjá mánuði ársins. Erlendir ferðamenn halda uppi vextinum en velta innlendra greiðslukorta dregst saman á milli ára. Útlit er fyrir hægari vöxt einkaneyslu á næstu misserum.


Kortavelta nam 104 ma.kr. í apríl síðastliðnum og jókst um tæplega 12% á milli ára samkvæmt gögnum Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV). Svo hægur hefur vöxturinn ekki verið frá því í október síðastliðnum. Hins vegar dróst kortavelta saman um 4,6% í apríl frá marsmánuði.

Þegar tekið er tillit til verðlags var vöxtur kortaveltu talsvert minni eða um 3% á milli ára. Fyrir utan októbermánuð síðastliðinn, þegar kortavelta stóð nánast í stað á milli ára, þarf að leita aftur til byrjunar ársins 2021 fyrir minni vöxt kortaveltunnar. Miðað við þessar nýbirtu tölur Rannsóknarsetursins gæti kortavelta verið að hægja talsvert á sér eftir kipp á fyrsta fjórðungi ársins.

Erlendir ferðamenn halda uppi kortaveltuvextinum

Tölurnar skiptast þannig að velta innlendra greiðslukorta nam tæpum 82 ma.kr. og dróst saman um 4% að raunvirði á milli ára. Velta erlendra greiðslukorta nam 22 ma.kr. og jókst hins vegar um 41% að raunvirði. Velta erlendra greiðslukorta heldur því uppi vextinum í aprílmánuði líkt og fyrri daginn. Þessi mikli vöxtur skýrist fyrst og fremst af færri ferðamönnum í fyrra en í ár, þar sem afleiðingar faraldursins á ferðaþjónustu teygðu sig langt inn í árið 2022. Í aprílmánuði voru 142 þúsund ferðamenn hér á landi en voru rétt rúmlega 102 þúsund í apríl í fyrra.

Eins og við fjölluðum um hér hafa 561 þúsund ferðamenn sótt Ísland heim á fyrstu fjórum mánuðum ársins sem jafngildir 63% fjölgun milli ára. Við í Greiningu Íslandsbanka spáum ríflega 2,1 milljón ferðamönnum hingað til lands á árinu og því má búast við áframhaldandi vexti erlendra korta á næstunni en svo mun hægja  á vextinum hægt og bítandi þegar frá líður.

Hægari einkaneysluvöxtur í kortunum

Eftir hraðan vöxt kortaveltu framan af síðasta ári hægði talsvert á vextinum á síðari hluta ársins samhliða aukinni verðbólgu og hækkandi vöxtum. Kortaveltan tók svo kipp á nýjan leik í byrjun þessa árs þegar kjarasamningar tóku gildi fyrir stóran hluta almenna vinnumarkaðarins sem fólu í sér talverðar launahækkanir auk afturvirkra hækkana. Starfsfólk á almenna vinnumarkaðinum fékk allt að þriggja mánaða launahækkun á einu bretti sem hleypti heldur betur lífi í kortaveltutölur á fyrsta fjórðungi ársins. Kortavelta aprílmánaðar bendir til þess að nú gæti hafa dregið úr þessum áhrifum. Nýlega voru undirritaðir kjarasamningar fyrir opinbert starfsfólk sem fólu einnig í sér svipaðar launahækkanir en þó ekki afturvirkar.

Kortaveltan gefur góða vísbendingu um þróun einkaneyslunnar á næstunni. Miðað við kortaveltuna það sem af er ári er líklegt að einkaneyslan hafi tekið talsverðan kipp á fyrsta fjórðungi ársins eftir að dregið hafði úr vextinum á síðari hluta ársins 2022. Hægari vöxtur kortaveltunnar í aprílmánuði bendir til þess að hægja muni á einkaneysluvextinum á öðrum ársfjórðungi. Næstu mánuðir munu þó auðvitað gefa skýrari mynd af fjórðungnum. Aðrir hagvísar benda einnig til þess að hægja muni talsvert á einkaneysluvextinum. T.d. hefur væntingavísitalan lækkað talsvert og mældist nú í aprílmánuði í sínum lægstu gildum frá því í nóvember 2020. Eftir hraðasta vöxt einkaneyslunnar í fyrra síðan árið 2005 er útlit fyrir talsvert hægari vöxt á þessu ári. Í þjóðhagsspá okkar frá því í febrúar spáðum við 2,5% vexti einkaneyslu á árinu þar sem útlit er fyrir að áhrif vaxtahækkana, lítillar kaupmáttaraukningar og tvísýnni efnahagshorfa komi í vaxandi mæli fram í neyslu- og sparnaðarhegðun fólks.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband