Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kortavelta í örum vexti í árslok

Áfram heldur vöxtur í kortaveltu landans. Líkt og síðustu mánuði var það erlenda kortaveltan sem hélt uppi vextinum í desember sl. en mikill ferðahugur er í landanum um þessar mundir. Þessar tölur ásamt öðrum hagvísum gefa góð fyrirheit um þróun einkaneyslunnar á næstu misserum og útlit er fyrir myndarlegan vöxt hennar á árinu.


Samkvæmt nýbirtum kortaveltugögnum Seðlabankans nam velta innlendra greiðslukorta um 111 ma.kr. í desember síðastliðnum. Það samsvarar nær 17% aukningu frá sama mánuði í fyrra og 7% aukningu frá sama mánuði árið 2019. Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortavelta hins vegar um ríflega 14% í desembermánuði 2021 í samanburði við sama mánuð 2020. Einkaneysla landans hefur sannarlega tekið við sér á milli ára þrátt fyrir að faraldurinn hafi einnig litað allt síðasta ár líkt og árið á undan.

Enn mælist gríðarlegur munur á þróun kortaveltu innanlands og erlendis líkt og hefur verið raunin frá því apríl 2021. Í desember jókst kortavelta innanlands um tæp 7% á meðan kortavelta erlendis jókst um tæplega 84% að raunvirði frá sama mánuði 2020. Um afar óvenjulegar aðstæður er að ræða þar sem lítið var um ferðalög stærstan hluta ársins 2020. Útlit er fyrir álíka vöxt á næstunni en veltur það vitanlega allt á þróun faraldursins um allan heim.

Ferðahugur í landanum

Rannsóknasetur verslunarinnar tekur saman sundurliðuð kortaveltugögn. Samkvæmt þeim gögnum má í desember eðlilega finna mikla aukningu í jólatengdri neyslu. Alls var um 62% allrar kortaveltu í desember varið í verslun á móti 38% sem eytt var í þjónustu. Segja má að verslun í nær öllum flokkum hafi aukist á milli mánaða enda er desembermánuður oftar en ekki stærsti útgjaldamánuður heimila eins og við fjölluðum nýlega um hér. Mest var aukningin á milli mánaða í flokkunum bóka, blaða og hljómplötuverslanir (64,5%), áfengisverslanir (63,2%) og fataverslanir (53,6%).

Einnig er áhugavert að sjá breytingu á kortaveltunni í liðum tengdri þjónustu á milli ára, en segja má að faraldurinn hafi skipað stærri sess í okkar lífi í desember 2020 en í nýliðnum desember. Þetta sjáum við til að mynda í kortaveltu tengdri ferðaskrifstofum og skipulögðum ferðum sem jókst um 285% milli ára. En líkt og sést á myndinni hér að neðan hafa þær fjárhæðir sem varið er í ferðaskrifstofur og skipulagðar ferðir tekið að hækka á ný eftir faraldurinn.

Aðrir liðir sem vekja athygli er aukning í eyðslu á tónleikum, leikhúsi og öðrum viðburðum sem jókst um 123% milli ára ásamt hótelgistingu þar sem vöxturinn var um 113%. Íslendingar hafa því verið duglegir að skella sér í frí og á ýmiskonar viðburði í nýliðnum mánuði samanborið við jólamánuðinn 2020.

Vöxtur einkaneyslu töluvert meiri en útlit var í fyrstu

Þessar tölur gefa góð fyrirheit um stöðu einkaneyslu hér á landi þar sem kortaveltan gefur góða vísbendingu um þróun einkaneyslunnar. Árið 2020 dróst einkaneyslan saman um 3% að raunvirði frá árinu á undan en þróun einkaneysluvaxtar hefur verið vonum framar á árinu 2021. Á fyrstu 9 mánuðum þess árs jókst einkaneyslan um 5,4%. Það verður áhugavert að sjá þróunina á einkaneyslunni á síðasta ársfjórðungi 2021 en miðað við kortaveltutölur undanfarna mánuði eru líkur á að vöxturinn reynist jafnvel enn meiri á árinu öllu.

Aðrir hagvísar benda einnig til þess að frekari einkaneysluvöxtur sé í kortunum. Atvinnuleysi hefur minnkað umtalsvert, Væntingavísitalan mælist há og kaupmáttur launa hefur vaxið töluvert undanfarið ár þrátt fyrir að verðbólga hafi verið með mesta móti. Þróun einkaneyslu skiptir miklu máli fyrir hagvöxt hérlendis. Við teljum að neysluvilji almennings sé töluverður og nýjustu gögn um kortaveltu styðja þá skoðun okkar. Við teljum líklegt að þessi þróun einkaneysluvaxtar muni halda áfram á þessu ári og má vonandi segja að áhrif Kórónukreppunnar á eftirspurn heimila fjari endanlega út nýju ári og að framhald verði á því vaxtarskeiði sem hófst á síðasta ári.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband