Samkvæmt nýlegum kortaveltutölum frá Seðlabankanum jókst velta innlendra greiðslukorta um 7% í september á milli ára. Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortavelta landsmanna hins vegar um tæp 6% frá sama mánuði í fyrra. Frá því í mars á þessu ári hefur kortavelta einstaklinga aukist í hverjum mánuði á þennan mælikvarða og mun sú þróun líklega halda áfram á næstu mánuðum.
Mikill munur hefur þó verið á þróun kortaveltunnar innanlands og utanlands síðustu misseri. Í faraldrinum hélt kortavelta innanlands velli að mestu leyti á meðan kortavelta erlendis dróst verulega saman, eðli málsins samkvæmt. Nú hefur erlenda kortaveltan tekið við en síðustu mánuði hefur vöxturinn í kortaveltu verið að mestu kominn vegna aukningar í kortaveltu Íslendinga erlendis. Nú í september dróst kortavelta innanlands til dæmis saman um 3% að raunvirði milli ára á meðan kortavelta erlendis jókst um rúm 80% að raunvirði.