Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kortavelta bendir til viðsnúnings í einkaneyslu

Íslendingar eru farnir að finna vel fyrir mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi. Það sést helst á viðsnúningi í kortaveltutölum síðustu mánuði. Kortaveltan gefur góða vísbendingu um þróun einkaneyslunnar og útlit er fyrir að vöxturinn haldi áfram að hægja á sér, en einkaneyslan hefur verið einn helsti drifkraftur hagvaxtar síðustu misseri.


Kortavelta innlendra greiðslukorta nam 117 ma.kr. í ágúst síðastliðnum og jókst um 5% á milli ára samkvæmt gögnum sem Seðlabankinn birti í morgun. Annað kemur á daginn þegar veltan er raunvirt miðað við þróun verðlags og gengis krónu. Á þann mælikvarða skrapp kortaveltan saman að raunvirði um tæplega 5%. Seðlabankinn uppfærði einnig tölur fyrir júlímánuð þar sem kemur í ljós að kortavelta dróst saman um ríflega 2% en samkvæmt fyrri gögnum átti hún að hafa staðið í stað á milli ára. Miðað við nýjustu gögn er ágústmánuður því fimmti mánuðurinn í röð þar sem kortavelta dregst saman að raunvirði á milli ára.

Talsverð breyting á ferðahegðun Íslendinga

Bæði kortavelta hér innanlands sem og erlendis skrapp saman í ágústmánuði að raunvirði, sem er sama þróun og hefur verið uppi á teningnum undanfarna mánuði. Kortavelta innanlands dróst saman um ríflega 3% á milli ára en kortavelta Íslendinga erlendis dróst saman um tæplega 10% á sama tímabili. Það er mesti samdráttur í erlendu kortaveltunni síðan í byrjun árs 2021. Það kemur þó ekki á óvart ef skoðaðar eru brottfarartölur Íslendinga erlendis en talsverð breyting hefur orðið þar á að undanförnu. Eftir mikla ferðagleði í fyrra og í byrjun þessa árs hafa brottfarir Íslendinga dregist saman að undanförnum mánuðum (að undanskildum júlímánuði). Í ágúst voru brottfarir Íslendinga 8,5% færri en þær mældust í sama mánuði í fyrra.

Mögulega hefur flestum Íslendingum tekist að svala ferðaþorsta sínum í fyrra þegar þorstinn var hvað mestur eftir faraldurinn og ferðalögin í takti við það. Líklega er þó helsta skýringin á því að ferðalögum hefur fækkað jafn mikið á undanförnum mánuðum og raun ber vitni að Íslendingar eru farnir að finna vel fyrir hækkandi verðlagi og háu vaxtastigi.

Vöxtur einkaneyslu hægir hratt á sér

Þróun kortaveltunnar er að okkar mati nokkuð góð vísbending um breytingar á neyslutakti landsmanna. Heimili landsins virðast vera að stíga nokkuð þétt á bremsuna um þessar mundir eftir mikla neyslugleði undanfarin misseri. Aðrar vísbendingar á borð við Væntingavísitölu Gallup, sem mælist enn undir jafnvægisgildinu, styðja þessa skoðun okkar.

Einkaneyslan jókst um 0,5% að raungildi á öðrum ársfjórðungi þessa árs miðað við sama fjórðung árinu áður. Það er talsvert breytt staða miðað við undangengna fjórðunga og hægasti vöxtur síðan á lokafjórðungi ársins 2020. Á fyrri helmingi ársins mælist einkaneysluvöxturinn nú 2,5% og miðað við nýjustu kortaveltutölur mun vöxtur einkaneyslu að öllum líkindum verða enn hægari á seinni helmingi ársins. Í þjóðhagsspá okkar frá því í vor spáðum við ríflega 3% vexti á þessu ári. Miðað við framangreindar tölur er sú spá líklega of bjartsýn en ný þjóðhagsspá er væntanleg frá Greiningu á næstu vikum.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband