Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kórónukreppan ekki sú dýpsta frá aldamótum

Kórónukreppan mun líklega reynast léttbærari íslensku efnahagslífi en óttast var eftir harðan útflutningsskell. Horfur eru á því að kreppan reynist eins árs kreppa og að vöxtur taki við sér á nýjan leik þetta árið.


Landsframleiðsla á Íslandi skrapp saman um 6,6% á síðasta ári samkvæmt nýlegum tölum Hagstofunnar. Þótt hér sé um krappan samdrátt að ræða er hann ívið minni en samdrátturinn á kreppuárinu 2009. Niðurstaðan er raunar nokkuð skárri en við áætluðum. Reyndar má segja að í ljósi þess hversu harður skellurinn á stærstu útflutningsgrein þjóðarbúsins var endurspegli tölur Hagstofunnar glettilega mikinn viðnámsþrótt íslenska hagkerfisins. Í þjóðhagsspá okkar sem birt var í lok janúarmánaðar áætluðum við að samdrátturinn hefði verið 8,7% á árinu 2020. Munurinn liggur í því að samdráttur útflutnings og fjárfestingar einkaaðila reyndist minni en við höfðum áætlað.

Eins og sjá má af myndinni er samdrátturinn af ólíkum rótum runninn samdrættinum fyrir rúmum áratug síðan. Á síðasta ári var langstærstur hluti samdráttarins upprunninn í kröppum samdrætti útflutnings, sér í lagi þjónustuútflutnings. Á kreppuárinu 2009 var hins vegar innlend eftirspurn alfarið rótin af samdrættinum en framlag utanríkisviðskipta jákvætt. Þjóðarútgjöld skruppu raunar ekki saman nema um tæp 2% á árinu 2020 en framlag utanríkisviðskipta skýrir 4,7% samdráttarins.

Skellur á ferðaþjónustuna skýrir bróðurpart samdráttarins

Þjónustuútflutningur minnkaði í magni talið um rúman helming á milli ára. Eins og nærri má geta hélst það í hendur við 75% fækkun ferðamanna á síðasta ári frá árinu 2019. Vöruútflutningur minnkaði þó einnig milli ára og nam samdrátturinn þar 8,5%. Alls var útflutningur þjóðarbúsins 20,5% minni á árinu 2020 en á árinu þar á undan. Á móti vó hins vegar að innflutningur minnkaði um 22% á milli ára og var krappur samdráttur bæði í þjónustu- og vöruinnflutningi. Endurspeglar það minni aðfanganotkun ferðaþjónustunnar og samdrátt í fjárfestingu, en einnig tilfærslu á einkaneyslu frá erlendri neyslu til neyslu innan landsteinanna.

Samhliða þjóðhagsreikningunum birti Hagstofan uppfærða ferðaþjónustureikninga. Þar kemur fram að hlutfall ferðaþjónustu af VLF var 3,5% á síðasta ári og hefur það hlutfall ekki verið lægra frá árinu 2010.

Íbúðafjárfesting hélt velli að mestu

Samdráttur í fjármunamyndun á síðasta ári reyndist talsvert mildari en við áttum von á. Sem fyrr segir liggur skýring þess hjá einkaaðilum. Fjárfesting atvinnuvega skrapp saman um 8,7% á milli ára en fjárfesting í íbúðarhúsnæði einungis um 1,2% á síðasta ári. Í frétt Hagstofunnar kemur fram að metfjöldi fullgerðra íbúða kom á markað á árinu 2020, eða tæplega fjögur þúsund íbúðir. Hins vegar fækkaði íbúðum á fyrri byggingarstigum á árinu samanborið við fyrri ár og skýrir það samdráttinn. Hlutfall fjármunamyndunar í íbúðarhúsnæði af VLF var, þrátt fyrir samdrátt milli ára, með því hæsta sem verið hefur undanfarna áratugi og nam það 5,7% en hefur að jafnaði verið 4,1% það sem af er öldinni.

Þá vekur athygli að þrátt fyrir áform opinberra aðila um stóraukna fjárfestingu til þess að bregðast við áhrifum Kórónukreppunnar skrapp opinber fjárfesting saman um 9,3% á milli ára. Líkt og kannski mátti búast við hefur orðið dráttur á að fjárfestingarátakið kæmist á fullan skrið. Horfur eru hins vegar á að opinbera fjárfestingin taki myndarlegan kipp á þessu ári og gerum við raunar ráð fyrir því að hún verði helsti drifkraftur aukinnar fjármunamyndunar þetta árið en einkafjárfestingin taki síðan við því kefli á næstu árum.

Hagsveiflujafnandi heimili

Einkaneysla minnkaði að raungildi um 3,3% á árinu 2020 frá árinu á undan. Er það hóflegur samdráttur í ljósi þess hversu áhrif COVID-19 faraldursins og sóttvarna á atvinnustig, væntingar og neysluhegðun voru mikil á árinu. Fram kemur hjá Hagstofunni að þrátt fyrir samdrátt í neyslu Íslendinga utan landsteinanna og einnig í tilteknum útgjaldaflokkum innlendrar neyslu vó aukning í öðrum innlendum neysluflokkum að verulegu leyti upp þann samdrátt. Þannig er til að mynda áætlað að einkaneysluútgjöld vegna kaupa á húsgögnum og öðrum heimilisbúnaði hafi vaxið 7,6% á síðasta ári og útgjöld vegna kaupa á áfengi og tóbaki um 10,8%. Heimili landsins gerðu því flest hver nokkuð vel við sig í ýmsum skilningi þrátt fyrir Kórónukreppuna.

Við höfum áður bent á breytt samband einkaneyslu og hagsveiflunnar undanfarið miðað við fyrri áratugi. Svo virðist sem neyslumynstur landans sé fremur farið að milda hagsveifluna en auka á hana eins og oft var raunin hér áður. Heimili landsins virðast þannig síður spenna bogann of hátt þegar vel árar og hafa fyrir vikið ráðrúm til þess að halda frekar sínu striki í neysluútgjöldum þótt á móti blási. Þetta hlýtur að teljast jákvætt og er að mati okkar eitt af mörgum merkjum þess að stoðir íslenska hagkerfisins séu að styrkjast og hættan á ýktum sveiflum í efnahagslífinu að minnka þrátt fyrir smæð hagkerfisins og næmi þess fyrir áföllum á borð við ferðaþjónustuskellinn sem varð í fyrra.

Horfur á efnahagsbata í ár

Í janúarspá okkar áætluðum við að hagvöxtur í ár myndi nema ríflega 3% og að vöxturinn yrði borinn uppi af auknum þjónustuútflutningi og hóflegum vexti einkaneyslu og fjárfestingar. Hinar nýju tölur Hagstofunnar breyta ekki þeirri sýn okkar í helstu atriðum. Einna helst gæti samdráttur í íbúðafjárfestingu reynst krappari í ár en við hugðum í ljósi þess hversu seigt var í slíkri fjárfestingu á síðasta ári. Á móti vegur þó að opinber fjárfesting gæti vaxið hraðar en við töldum auk þess sem vöruútflutningur gæti einnig reynst drýgri í ár en spáð var í janúar. Horfur eru sem fyrr á því að Kórónukreppan reynist eins árs kreppa og að styrkari stoðir hagkerfisins en áður var raunin tryggi okkur góða viðspyrnu fyrir nýtt vaxtarskeið um leið og faraldurinn rennur sitt skeið að mestu leyti.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband