Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kolefnishlutlaus Íslandsbanki fyrir árið 2040

Íslandsbanki hefur sett sér markmið um að ná fullu kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040. Eigin rekstur bankans hefur undanfarin tvö ár verið kolefnishlutlaus en með þessari ákvörðun verður sú breyting á að markmið bankans munu hér eftir einnig ná til „fjármagnaðs útblásturs“, og þannig kolefnisspors af öllu lána- og eignasafni bankans. Á sama tíma skuldbindur bankinn sig til að setja sér markmið í loftslagsmálum sem eru byggð á vísindalegum grunni og hefur þegar hafið vinnu við gerð ítarlegrar áætlunar sem felur í sér undirmarkmið í takt við þá umgjörð.


Á  haustmánuðum 2020 tilkynnti bankinn að hann muni taka þátt í PCAF (Partnership for Carbon Accounting Financials), alþjóðlegu verkefni sem miðar að því að búa til samræmdan loftslagsmæli, sérsniðinn að fjármálafyrirtækjum. Er mælinum ætlað að gera fjármálafyrirtækjum kleift að mæla og greina frá kolefnislosun í lána- og eignasafni sínu. Byggir eitt af sjálfbærnimarkmiðum Íslandsbanka fyrir árið 2021 á þessu verkefni, þar sem bankinn hyggst á þessu ári ljúka við fyrsta mat á „fjármögnuðum útblæstri“ byggt á fyrirliggjandi gögnum í samræmi við PCAF staðalinn.

Bankinn hefur einsett sér að vera hreyfiafl til góðra verka í íslensku atvinnulífi og hafa þannig áhrif umfram sinn eigin rekstur og kolefnisspor. Þetta endurspeglast í aukinni áherslu á sjálfbærar vörur og þjónustu.  Bankinn vill styðja við metnaðarfulla áætlun Íslands í loftlagsmálum en yfirlýst markmið stjórnvalda er að Ísland verði orðið kolefnishlutlaust árið 2040. Svo það markmið náist er mikilvægt að íslenskt atvinnulíf taki virkan þátt í aðgerðum sem margar hverjar munu krefjast mikilla fjárfestinga.

Birna Einarsdóttir
bankastjóri Íslandsbanka