Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði launavísitalan í september um 0,9% frá fyrri mánuði. Launavísitalan hækkar alla jafna nokkuð á haustmánuðum og er helsta skýringin sú að álagsgreiðslur eru hærri á haustin en mánuðina þar á undan sem einkennast af sumarleyfum og störfum afleysingarfólks. Það skýrir jafnframt muninn á launavísitölunni og vísitölu grunnlauna sem hækkaði um 0,4% á sama tíma.
Árshækkun launavísitölunnar mælist nú 10,9% og hefur verið með svipuðu móti undanfarna mánuði. Þessi mikla hækkun skýrist einna helst af því að þorri launafólks skrifuðu undir kjarasamninga á liðnum vetri sem skiluðu umtalsverðri hækkun launa.