Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kaupmáttur launa heldur áfram að aukast

Launavísitala hækkaði á milli mánaða í september og mælist árshækkun hennar nú nærri 11%. Kaupmáttur launa hefur aukist frá því í maí síðastliðnum eftir að hafa dregist saman í tæpt ár. Enn mælist spenna á vinnumarkaði og eftirspurn eftir starfsfólki er talsverð. Með vinnumarkaðinn jafn spenntan og raun ber vitni verða kjaraviðræður að öllum líkindum nokkuð snúnar á komandi vetri.


Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði launavísitalan í september um 0,9% frá fyrri mánuði. Launavísitalan hækkar alla jafna nokkuð á haustmánuðum og er helsta skýringin sú að álagsgreiðslur eru hærri á haustin en mánuðina þar á undan sem einkennast af sumarleyfum og störfum afleysingarfólks. Það skýrir jafnframt muninn á launavísitölunni og vísitölu grunnlauna sem hækkaði um 0,4% á sama tíma.

Árshækkun launavísitölunnar mælist nú 10,9% og hefur verið með svipuðu móti undanfarna mánuði. Þessi mikla hækkun skýrist einna helst af því að þorri launafólks skrifuðu undir kjarasamninga á liðnum vetri sem skiluðu umtalsverðri hækkun launa.

Frá því í maí hefur viðsnúningur orðið í 12 mánaða takti kaupmáttar launa. Mikil verðbólga varð til þess að samdráttur mældist í kaupmætti launa milli ára nánast samfellt frá júní í fyrra fram í maí á þessu ári ef undanskilinn er desembermánuður þegar kjarasamningshækkanir á almenna markaðinum komu inn af fullum krafti.

Nú hefur verðbólga hjaðnað nokkuð frá því að hún mældist sem hæst í febrúar. Á sama tíma hefur því kaupmáttur tekið við sér á undanförnum mánuðum. Þannig mælist kaupmáttur launa 2,7% meiri í september síðastliðnum en á sama tíma fyrir ári.

Launhækkanir svipaðar eftir launþegahópum..

Nýjustu gögn um launahækkanir eftir launþegahópum og atvinnugreinum ná til júlímánaðar. Ef vísitalan er skoðuð út frá helstu launþegahópum er árshækkunin mjög svipuð milli hópa. Undanfarið ár hafa starfsmenn á almennum vinnumarkaði hækkað mest í launum eða um 11%. Þar á eftir koma starfsmenn sveitarfélaga sem hafa hækkað í launum um 10,4% og svo ríkisstarfsmenn um 10,2%.

Mikil breyting hefur verið á þróuninni á milli launaþegahópanna eins og sést á myndinni. Almenni markaðurinn hækkaði talsvert hægar í launum en hinir tveir hóparnir frá miðju ári 2020 til ársbyrjunar 2022. Eins og sést hækkuðu starfsmenn sveitarfélaga mest í launum á þessu tímabili. Ástæðan fyrir þessum mun er að lífskjarasamningarnir sem undirritaðir voru 2019 fólu í sér krónutöluhækkanir fyrir allan vinnumarkaðinn. Starfsmenn á lægstu launum hækkuðu því hlutfallslega meira í launum en einnig var stytting vinnuvikunnar meiri hjá opinberu starfsfólki sem skýrir einnig þennan mun.

Auðvitað getur það gefið skakka mynd að skoða einungis árshækkun launa og betra að horfa yfir lengra tímabil. Frá byrjun árs 2019 hafa starfsmenn sveitarfélaga hækkað mest í launum eða um tæp 50%, næst á eftir starfsmenn á almennum vinnumarkaði um 40% og síðast ríkisstarfsmenn um 38%.

..og einnig eftir atvinnugreinum

Launahækkanir á almenna vinnumarkaðinum hafa verið svipaðar milli atvinnugreina undanfarið ár. Laun í flutningum og geymslu hafa hækkað mest undanfarið ár eða um 12,8%. Næst mest hækkuðu laun í veitingarekstri og gististöðum um 12,6% og svo í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð um 11,6%.

Frá ársbyrjun 2019 hafa laun hækkað langmest í veitingarekstri og gististöðum eða um 53% og næst mest í veitustarfsemi eða um 42%. Laun í fjármála- og tryggingastarfsemi hafa hækkað minnst á tímabilinu eða um 30%.

Enn talsverð spenna á vinnumarkaði

Það mælist enn talsverð spenna á vinnumarkaði og eftirspurn eftir starfsfólki er umtalsverð. Eftirspurninni hefur verið mætt af erlendu starfsfólki sem er nú um fjórðungur á vinnumarkaði. Með spenntum vinnumarkaði hefur atvinnuleysi hjaðnað hratt og mælist nú 3,0% að jafnaði í september.

Enn virðist vera talsverð eftirspurn eftir starfsfólki ef marka má könnun 400 stærstu fyrirtækja sem Gallup framkvæmir fyrir Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins. Í september töldu 40% stjórnenda fyrirtækja skort vera á starfsfólki. Það er lægra hlutfall en mældist um mitt ár 2022 þegar hlutfallið fór hæst í 56% en hlutfallið er þó talsvert hátt í sögulegu samhengi. Eftir atvinnugreinum er þörfin mest nú á haustmánuðum í iðnaði- og framleiðslu (58%) og byggingarstarfsemi og veitum (56%). En þörfin eftir starfsfólki getur verið býsna árstíðarbundin og er til að mynda oft mikil í ferðaþjónustu yfir háannatímann.

Með vinnumarkaðinn jafn spenntan og raun ber vitni má segja að það ríki talsverð óvissa um næstu misseri. Kjarasamningar sem undirritaðir voru á fyrri hluta ársins voru stuttir og nú styttist óðum í næstu lotu kjaraviðræðna. Í nýrri þjóðhagsspá okkar spáum við því að laun muni hækka um 9,3% á þessu ári og kaupmáttur því aukast lítillega eða um 0,6%. Það er minni ársbreyting en mælist nú sem skýrist af því að undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði átti sér stað í lok síðasta árs og mun sú mæling tilheyra árinu 2022.

Við spáum einnig frekar myndarlegum launahækkunum næstu tvö ár og gerum ráð fyrir að laun hækki um tæplega 8% næsta ári og 6% árið 2025. Miðað við þá spá mun kaupmáttur launa aukast um 2,3% bæði árin samhliða hjöðnun verðbólgunnar.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband