Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kaupmáttur launa eykst en færri njóta hans

Það er einsdæmi í hagsögunni að þrátt fyrir að atvinnuleysi sé í hæstu hæðum og landsframleiðsla hafi dregist talsvert saman hefur kaupmáttur launa hækkað umtalsvert. Byrði Kórónukreppunnar virðist vera mjög misskipt á milli þeirra sem hafa vinnu og þeirra sem hafa hana ekki. Fyrrnefndi hópurinn mun koma til með að halda einkaneyslunni uppi á árinu og því teljum við að einkaneyslan muni vaxa að nýju í ár.


Hagstofan birti nýverið tölur af vinnumarkaði fyrir fyrsta fjórðung þessa árs. Var þar annars vegar um að ræða mánaðarlega launavísitölu og hins vegar niðurstöður úr vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar sem á að endurspegla ástand vinnumarkaðsins um þessar mundir.

Atvinnuleysi í hæstu hæðum

Samkvæmt vinnumarkaðskönnuninni mældist fjöldi starfandi 70,7% af mannfjölda á fyrsta ársfjórðungi og lækkaði um 2,5% frá sama ársfjórðungi árið 2020. Þetta hlutfall er sögulega lágt og á meðal þriggja lægstu mælinga frá upphafi. Hlutfall starfandi er fjöldi þeirra sem var við vinnu á tímabilinu borinn saman við heildar mannfjölda á vinnualdri (16-74 ára). Eins og sést hefur hlutfallið lækkað þó nokkuð frá þriðja ársfjórðungi 2019 og samhliða þróun atvinnuleysis er staðan farin að minna á fyrstu árin eftir efnahagshrunið.

Atvinnuleysi mældist 7,7% á fyrsta ársfjórðungi 2021 og jókst um 3,3% milli ára samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Almennt atvinnuleysi samkvæmt Vinnumálastofnun (VMS) var þó mun hærra en mælingar Hagstofu gefa til kynna. Á fyrsta ársfjórðungi 2021 var atvinnuleysi 11,3% á kvarða VMS og jókst um rúm 6% milli ára. Sé fólk á hlutabótum tekið með hækkar hlutfallið í 12,5%. Vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar mælir því mun minna atvinnuleysi en Vinnumálastofnun og hefur munurinn á milli þessara tveggja mælinga aukist frá því að Kórónukreppan skall á.

Mælingar Hagstofu byggja á úrtakskönnun en tölur VMS ná yfir skráð atvinnuleysi hjá stofnuninni. Í byrjun árs var aðferðum í vinnumarkaðskönnuninni breytt þar sem margt benti skekkju í mælingum og m.a. hafi atvinnuleysi verið gífurlega vanmetið. Á fyrsta fjórðungi þessa árs er þó enn töluverður munur á þessum tveimur mælingum eins og sést á myndinni hér að ofan.

Vinnuvikan styttist og laun hækka

Kaupmáttur launa jókst um 6,0% milli ára á fyrsta ársfjórðungi 2021 þrátt fyrir að verðbólga hafi verið með mesta móti, eða 4,2% á tímabilinu. Hækkunina má helst rekja til launahækkana um áramót sem voru samkvæmt kjarasamningum og náðu til meirihluta launafólks á vinnumarkaði. Auk þess telst stytting vinnuvikunnar sem ígildi launabreytinga og hefur því talsverð áhrif til hækkunar á launavísitölunni. Samkvæmt vinnumarkaðskönnuninni var vinnuvikan um 1,4 klukkustundum styttri á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við fyrsta ársfjórðung 2020. Þar gæti þó áhrif COVID einnig spilað inn í. Útlit er fyrir að 12 mánaða taktur kaupmáttaraukningarinnar hjaðni nokkuð í apríl þegar áhrif samningsbundinnar hækkunar launa hjá flestum launþegum fyrir ári síðan hverfa úr mælingunni. Allt bendir þó til að áfram mælist aukning á kaupmætti launa næstu fjórðunga.

Það er hins vegar afar óvenjulegt hér á landi að laun hækki umfram verðlag samfara auknu atvinnuleysi og samdrætti í hagkerfinu. Aukinn kaupmáttur er vissulega gleðiefni fyrir þá sem halda vinnu og mun koma til með að styðja við einkaneysluna á komandi misserum. Á sama tíma er atvinnuleysi í sögulegum hæðum um þessar mundir og ráðstöfunartekjur þeirra sem eru án vinnu minnkað umtalsvert. Stjórnvöld hafa brugðist við með úrræðum á borð við hlutabótaleið og lengra tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta sem hafa hjálpað til við að milda höggið. Þrátt fyrir þetta er áhrifum kórónukreppunnar á heimili (sem og reyndar fyrirtæki) misskipt í mun meiri mæli en við höfum áður séð á samdráttarskeiðum hérlendis. Hin hraða hækkun launa getur auk þess orðið til þess að hægja á hjöðnun atvinnuleysis á komandi fjórðungum og ýta jafnvægisatvinnuleysi eitthvað hærra en verið hefur sögulega hér á landi. Atvinnuleysi á Íslandi hefur sögulega verið með því lægsta sem þekkist í hinum vestræna heimi.

Þau heimili þar sem fyrirvinnur hafa ekki misst starf eða orðið fyrir verulegu tekjutapi af rekstri eru mörg hver vel í stakk búin fjárhagslega og neyslugeta þeirra umtalsverð þar sem sparnaður hefur aukist nokkuð undanfarna fjórðung. Við teljum að það verði til þess að einkaneyslan muni vaxa að nýju í ár eftir að hún skrapp saman um 3,3% í fyrra. Aukinn kaupmáttur þeirra sem eru í vinnu hefur mikið um það að segja auk hjaðnandi atvinnuleysis sem útlit er fyrir á komandi fjórðungum.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband