Veltan yfir hálfum milljarði
Jólatónleikar eru nokkuð gjöful tekjulind hjá hluta þess tónlistarfólks sem boðið hefur upp á slíkar sýningar síðastliðin ár. Á undanförnum þremur árum hafa tekjur af seldum miðum á helstu jólatónleikastöðum borgarinnar verið norðan við hálfan milljarð króna en þær voru mestar árið 2017 rúmlega 800 m.kr. Gögnin sem stuðst er við komu einungis frá hluta þeirra framleiðenda og tónlistarstaða sem á markaðnum eru og því má gera ráð fyrir að heildarfjárhæðir í tengslum við jólatónleika á landsvísu séu nokkru hærri. Af þeim gögnum af dæma er útlit fyrir að dregið hafi úr vinsældum tónleikanna frá árinu 2017 en á síðasta ári voru tekjurnar ríflega þriðjungi minni. Hins vegar getur verið að tilfærsla á milli tónlistarstaða hafi átt sér stað sem gögnin ná ekki yfir. Vert er að nefna að tekjurnar taka vitaskuld ekki tillit til þess kostnaðar sem fylgir uppsetningu jólatónleika. Ætla má að kostnaðurinn sem því fylgir sé talsverður en í mörgum tilvikum er mikið lagt upp úr sjónarspili sem hluta af sýningunni svo að jólaandinn fylli salinn.