Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Jólatónleikar

Óvíst er hvað verður um jólatónleikana þetta árið, en þeir hafa á undanförnum árum orðið að hefð hjá fjölmörgum Íslendingum um hátíðirnar. Tónlistarfólk hefur átt erfitt uppdráttar á árinu og líkur eru á að jólabónusinn verði lítill þessi jólin.


Veltan yfir hálfum milljarði

Jólatónleikar eru nokkuð gjöful tekjulind hjá hluta þess tónlistarfólks sem boðið hefur upp á slíkar sýningar síðastliðin ár. Á undanförnum þremur árum hafa tekjur af seldum miðum á helstu jólatónleikastöðum borgarinnar verið norðan við hálfan milljarð króna en þær voru mestar árið 2017 rúmlega 800 m.kr. Gögnin sem stuðst er við komu einungis frá hluta þeirra framleiðenda og tónlistarstaða sem á markaðnum eru og því má gera ráð fyrir að heildarfjárhæðir í tengslum við jólatónleika á landsvísu séu nokkru hærri. Af þeim gögnum af dæma er útlit fyrir að dregið hafi úr vinsældum tónleikanna frá árinu 2017 en á síðasta ári voru tekjurnar ríflega þriðjungi minni. Hins vegar getur verið að tilfærsla á milli tónlistarstaða hafi átt sér stað sem gögnin ná ekki yfir. Vert er að nefna að tekjurnar taka vitaskuld ekki tillit til þess kostnaðar sem fylgir uppsetningu jólatónleika. Ætla má að kostnaðurinn sem því fylgir sé talsverður en í mörgum tilvikum er mikið lagt upp úr sjónarspili sem hluta af sýningunni svo að jólaandinn fylli salinn.

Miðasalan var mest árið 2017 sem endurspeglast í tekjunum það árið en að jafnaði kostaði hver seldur miði á árunum 2016-2019 rétt yfir 7.000 krónum. Á því tímabili voru seldir í kringum 75 þúsund miðar á ári hverju að undanskildu 2017 þegar yfir 100 þúsund miðar seldust. Fari svo að jólatónleikum verður aflýst þetta árið virðist því sem ríflega fjórðungur landsmanna missi þennan skemmtilega hluta jólahefða sinna þetta árið.

Jólatónleikar hafa numið allt að 1% af kortaveltu desember

Velta innlendra greiðslukorta á Íslandi í desember hefur á síðastliðnum 4 árum verið að meðaltali um 81 ma.kr og er mánuðurinn sá stærsti á árinu í þeim efnum. Hlutfall jólatónleika af veltunni var um 0,6% á síðasta ári en eru þar ekki taldar með leiksýningar, uppistand eða leikrit. Kortavelta Íslendinga í innlendum verslunum í desember hefur aukist um 14% frá árinu 2016 á sama tíma og fjöldi brottfara jókst um tæplega 5,2%. Kortaveltan hefur aukist jafnt og þétt á meðan brottfarir Íslendinga drógust saman um rúmlega 12% á milli 2018 og 2019.

Jólatónleikar með öðru sniði?

Tónlistarfólk deyr þó ekki ráðalaust heldur reynir að aðlagast breyttum aðstæðum. Til að mynda verður Jólagestum Björgvins Halldórssonar streymt gegn gjaldi, sem er áhugaverð nýbreytni í jólatónleikaflórunni. Miðaverð á þá tónleika hefur verið á bilinu 10 til 15 þúsund krónur undanfarin ár en streymið mun nú kosta um 4.836 kr. samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Senu. Þorláksmessutónleikum Bubba hefur verið frestað til 21. janúar vegna aðstæðna en einnig er útlit fyrir að boðið verði upp á streymi gegn gjaldi.

Um 110.000 heimili eru með myndlykil frá Sýn eða Símanum en einnig verður hægt að kaupa aðgang á netinu og er því stór markaður sem hægt er að ná til. Á síðasta ári hélt Björgvin 4 jólatónleika í Eldborg Hörpu, sem rúmar 1.800 manns í sæti þegar fullt er. Ef allir miðar seldust upp í fyrra sáu um 7.200 einstaklingar sýninguna. Ef helmingur þeirra kaupir aðgang að streyminu nær veltan tæplega 14,5 m.kr. Reynist þessi áhugaverða tilraun vel og gefi vel í aðra hönd verður áhugavert að sjá hvort fleira tónlistarfólk slái til og bjóði upp á tónleika með sambærilegum hætti. Það hefur sýnt sig á árinu að talsverður áhugi er fyrir heimatónleikum í ljósi vinsælda þáttanna „Í kvöld er gigg“ með Ingó Veðurguði, „Heima með Helga“ og „Það er komin Helgi“ með Helga Björns.

Það koma vonandi jól(atónleikar)

Að sjálfsögðu vonum við að aðstæður verði slíkar á aðventunni að óhætt verði að berja okkar fína tónlistarfólk augum í eigin persónu. Miðasala stendur enn yfir á fjölda tónleika sem ekki hefur verið aflýst og fari allt á besta veg kemur það eflaust til með að muna miklu fyrir fjárhag þess fjölda fólks sem að slíkum tónleikum koma. Eins og fram hefur komið hefur kórónukreppan leikið listafólk einkar illa en eins og Guðmundur Pálsson í Baggalúti söng á sínum tíma þá koma vonandi jól með hækkandi sól og notaleg íslensk jólatónlist er akkúrat það sem þjóðin þarf á að halda.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Skráðu þig á póstlistann okkar