Svaraði þörf fyrir hentuga afhendingu á ferskum matvörum

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Pikkoló hefur þróað byltingakennda lausn sem gerir matvöruverslunum og smáframleiðendum kleift að afhenda vörur með einföldum, ódýrum og umhverfisvænum hætti í nærumhverfi fólks.


Hugmyndin að Pikkoló kviknaði 2019 segir Ragna Margrét Guðmundsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins. „Við erum því búin að vera að vinna í þessu í svolítinn tíma. Við köllum þetta snjalldreifikerfi og leggjum áherslu á matvöruverslanir á netinu. Okkar sérstaða er dreifing á ferskum matvörum sem þarfnast kælingar.“

En fyrir þá sem ekki vita þá er Pikkoló íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í snjallri og umhverfisvænni dreifingu matvæla. Fyrirtækið hefur þróað kældar afhendingastöðvar þar sem fólk getur sótt ferskar matvörurvörur sem það hefur verslað á netinu allan sólarhringinn. Með þessu er fólki spöruð fyrirhöfn og ferðir í verslanir og þar með er stuðlað að minni umferð og minni losun gróðurhúsalofttegunda.

Þegar hafa verið opnaðar fimm Pikkoló stöðvar á höfuðborgarsvæðinu og fleiri í pípunum. Fyrirtækið vinnur með ýmsum matvöruverslunum og þjónustuaðilum á borð við og Eldum Rétt, Humble, Fincafresh, Matlandi og Heimkaupum.

Sáu ágalla í kerfinu

„Markmið okkar er í rauninni að hjálpa fólk að nálgast fjölbreytta og ferska matvöru í sínu nærumhverfi með einföldum, ódýrum og umhverfisvænum hætti. Þannig kviknaði hugmyndin sem var svo lögð upp sem sjálfbær þróun kaupmannsins á horninu.“

Ragna segir að lögð hafi verið mikil vinna í þróun hugmyndarinnar. „Matur er eitthvað sem allir þurfa að huga að á hverjum degi, grunnþörf og einn af stóru útgjaldaliðum heimilanna.“ Þau hafi viljað sjá hvort ekki væru tækifæri til úrbóta tengd innkaupavenjum fólks.

„Og við skoðuðum þróunina langt aftur í tímann, allt frá kaupmanninum á hornin yfir í stórverslanir sem færðust í útjaðra borgarinnar þar sem vöruverð lækkaði og fólk tók að kaupa meira í einu og hvaða áhrif það hefur á samfélagið í heild sinni.“ Ragna segir áhugavert að sjá að heimilin beri nú ábyrgð á 61 prósenti af allri matarsóun í heiminum í dag. „Og matarsóun og matvælakerfið í heild sinni ber ábyrgð á einum þriðja af losun gróðurhúsalofttegunda.“

Skoðunin hafi því leitt í ljós verulega ágalla á því kerfi sem byggst hafi upp á síðustu árum, hversu mikið er keypt og að 38 prósentum af keyptum mat sé hent. „Sem felur líka í sér gífurlegar fjárhæðir og að maður tali nú ekki um sóun á orku og auðlindum“

Eldum rétt stökk á vagninn

Heildræn skoðun hafi leitt í ljós mikil tækifæri í stafrænni þróun þar sem ná mátti fram margþættum ávinningi tengdri matarsóun, hagræði og ígrundaðri innkaupum. Lausnin færi fólki sömu nálægð við þjónustuna og kaupmaðurinn á horninu gerði áður um leið og lægri verð stærri verslana nái að halda sér.

„Við sáum líka tækifærin í matvöruverslunum á netinu þar sem eru fyrir mörg fyrirtæki, eins og til dæmis Eldum rétt og Humble, sem hafa gagngert unnið að því að einfalda fólki lífið og draga úr matarsóun,“ segir hún og bætir við að eftir að þau hafi byrjað sjálf að nota Eldum rétt í hennar fjölskyldu hendi þau nánast engu.

Hugmyndin hafi hins vegar sprottið svolítið út úr því að hún hafi ekki sjálf verið byrjuð að nota Eldum rétt, því hún hafi jú búið í fjölbýli og ekki séð fyrir sér að geta verið heima til að taka á móti sendingum einhvern tímann á milli tólf og sex á daginn. „Við blasti að einfalda fólki að taka á móti matvælum og vörum sem það kaupir á netinu þegar þeim hentar.“

Við hafi tekið viðræður við ýmsa hagaðila, þar á meðal Eldum rétt sem strax hafi haft mikla trú á verkefninu.

Í grunninn komum við úr skapandi geirum, erum með iðnhönnuð, arkítekt og sjálf lærði ég visual communication þannig að við lögðum mikla áherslu á notendaupplifun og að lausnin sé falleg og falli vel að umhverfi sínu. Þannig að í upphafi nálgumst við þetta ekki sem viðskiptahugmynd en svo fórum við að tala við alls konar hagaðila og eftir það var ekki aftur snúið, því þá kom í ljós hvað það var mikil þörf fyrir þetta á markaðnum.

Ragna M. Guðmundsdóttir
Stofnandi og framkvæmdastjóri Pikkoló

Verkefnið fékk svo styrki til áframhaldandi þróunar, svo sem frá Miðborgarsjóði, sem Ragna segir hafa verið fyrstan til að fá trú á verkefninu. „Svo fengum við styrk frá Hönnunarsjóði og Frumkvöðlaauði og svo fyrir rest alla styrkina hjá Tækniþróunarsjóði, sem eru stærri styrkir og hjálpuðu okkur að koma verkefninu í næsta fasa.“

Byko segir Ragna að hafi líka haft mikla trú á verkefninu frá upphafi og verið því ómetanlegur stuðningu. „Þau vissu að við vildum hafa stöðvarnar umhverfisvottaðar og í þeim málum eru þau mjög framarlega. Byko leyfði okkur því að breyta litlu timburhúsi sem þau voru með á lóðinni sinni í litla prufustöð sem við gátum strax byrjað að gera tilraunir með í samstarfi við Kapp Kælikerfi og Eldum rétt á meðan við vorum að þróa tæknina á bak við dreifikerfið og þess háttar.“

Verkefnið hafi því komist hratt af stað, en byrjað var með fáa viðskiptavini og afhendingar bara einu sinni í viku. „En það gekk rosavel. Næsta skref var svo að byrja að rukka fyrir þjónustuna og þá kom í ljós að fólk setti ekki fyrir sig þó verð fyrir sendingar í Pikkoló stöð væri sambærilegt við verð fyrir heimsendingar, því þetta er jú aukin þjónusta fyrir fólk sem ekki er heima til þess að taka á mótu pöntunum og vilja ekki láta þær standa fyrir utan heimili sitt ef engin er heima.“

Fyrsta fasa uppbyggingar lokið

Þá tók við hönnun afhendingarstöðvanna með stuðningi Byko sem sá þeim fyrir efnivið. Stöðin er öll kæld þannig að henti fyrir matvæli og inni í henni eru hólf þar sem fólk sækir pantanir. „Við vildum að inni væri bjart og aðlaðandi umhverfi með góðum gluggum þannig að öllum liði vel í umgengni við afhendingarstöðvarnar.“

Núna bætast sífellt fleiri verslanir í hóp þeirra sem nýta sér Pikkoló til afhendingar á sendingum. „Eldum rétt var langfyrst inn og þau eru okkar stærsti kúnni. Á hæla þeirra kom svo Beint frá býli, lífrænir ávextir og grænmeti og þjónustur þar sem fólk fær afhentar vörur í áskrift einu sinni í viku. Svo erum við líka með veislubakka og dagvörur sem afhentar eru samdægurs og erum við stöðugt að bæta fleiri verslunum í kerfið. Við viljum vera opin hverjum þeim sem vill nýta þjónustu okkar og erum komin með gott dreifikerfi fyrir vörur sem afhentar eru til okkar.“

Pikkoló hefur nýlokið fyrsta fasa í uppbyggingu með fimm stöðvum á höfuðborgarsvæðinu sem allar eru í rekstri. „Við fengum lán hjá Íslandsbanka og Svanna lánasjóði kvenna til að ljúka uppbyggingunni og erum þakklát fyrir þá trúnna á viðskiptahugmyndinni  sem það sýnir, því það er ekki sjálfgefið að sprotafyrirtæki fái lán til uppbyggingar og þróunar svona snemma í ferlinu.“

Íslensk lausn þróuð frá grunni

Núna segir Ragna strax taka við frekari vöxtur því Pikkoló njóti þegar slíkra vinsælda að á stökum dögum séu stöðvarnar komnar yfir 150 prósent nýtingu. „Við stefnum á að vera komin með 30 Pikkoló stöðvar vítt og breytt um landið fyrir árið 2030. Núna ætlum við að bæta við um það bil 25 stöðvum og erum að hefja viðræður við fjárfesta til að hjálpa okkur í næsta vaxtafasa.“

Af því Pikkoló sé hugmynd sem hér hafi verið þróuð alveg frá grunni og þegar dreifikerfið á Íslandi sé orðið öflugt segir Ragna þau líka sjá tækifæri í sérsöluleyfissamningum við erlenda aðila sem þá gætu opnað Pikkoló dreifikerfi í öðrum löndum. „Auðvitað eru fyrirtæki að afhenda vörur í öðrum löndum, en þau eru ekki að gera þetta nákvæmlega eins og við, sem ég tel vera mjög framarlega á þessu sviði í heiminum í dag.“

Þá segir Ragna áætlanir um að hægt verði að kaupa vörur inni á vef Pikkoló í stað þess að velja Pikkoló sem afhendingarmáta hjá ólíkum söluaðilum. „Það er nokkuð sem gæti nýst mörgum verslunum, sérstaklega kannski þeim minni sem ekki eru komin með eigin vefverslun eins og til dæmis fiskssala, sem þá væri kominn aðgang að vefverslun og Pikkoló stöðvum víða um land á einu bretti í gegnum snjalldreifikerfi Pikkoló.“

Er fjölskyldufyrirtæki í grunninn

„Pikkoló er í grunninn lítið fjölskyldufyrirtæki. Ég og systir mín Kristbjörg M. Guðmundsdóttir erum stofnendur, en upphaflega varð hugmyndin til innan hönnunarstofunnar M/STUDIO sem við rekum einnig. Í lok árs 2020 varð Pikkoló að sér fyrirtæki þegar við fengum stóran styrk frá Tækniþróunarsjóði.“

Dr. Hákon Jónsson, eiginmaður Rögnu er tæknistjóri Pikkoló og hefur leitt hugbúnaðarþróun snjalldreifikerfisins í samstarfi við Jóhann Þorvaldur Bergþórsson en saman búa þeir yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu á sviði hugbúnaðarþróunar og greiningu gagna.

Að auki segir Ragna að bróðir hennar, Hjalti Geir Guðmundsson hafa byggt fyrstu Pikkoló stöðvarnar sem sjá má víða á höfuðborgarsvæðinu. „Með þessu móti höfum við geta byggt upp frá grunni og gaman núna að sjá árangurinn og möguleikana sem fram undan eru til vaxtar. Þetta er auðvitað búið að vera mjög langt og strangt ferli og mikil vinna en ótrúlega gaman að finna hvað viðtökurnar eru góðar, bæði hjá fyrirtækjum og fólki sem nýtir sér þjónustu Pikkoló.“