Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslensk heimili ganga hægt um neyslugleðinnar dyr

Kortavelta dróst saman að raungildi í janúar og má velta fyrir sér hvort íslensk heimili dragi saman seglin í vaxandi mæli í byrjun árs eftir mikla neyslugleði yfir jól og áramót. Horfur eru á að einkaneysla vaxi talsvert hægar í ár en undanfarin ár.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Samkvæmt nýlegum tölum Seðlabankans nam velta innlendra greiðslukorta alls tæplega 79 mö. kr. í janúar síðastliðnum. Það er nánast óbreytt staða í krónum talið frá janúarmánuði 2019. Velta debetkorta skrapp saman um ríflega 5% milli ára en velta kreditkorta óx hins vegar um 4,5% á sama tíma.

Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga skrapp velta greiðslukorta heimila saman um 0,8% í janúarmánuði frá sama mánuði árið 2019. Samdráttur innanlands var 2,0% en hins vegar var vöxtur í veltu utan landsteinanna um 4,8%. Í heildina litið er janúarmánuður þessa árs því nokkuð verri hvað neyslu varðar en janúarmánuður fyrir ári síðan. Sér í lagi á það við um innlendar kortafærslur en íslenskir neytendur straujuðu kortin sín hins vegar í meira mæli á erlendri grundu en fyrir ári síðan.

Í janúar 2019 dróst kortavelta einnig saman að raungildi milli ára. Það má velta því upp hvort sjá megi ákveðið mynstur í neyslu íslenskra heimila í janúar – þau dragi saman seglin í vaxandi mæli í byrjun árs eftir mikla neyslugleði yfir jól og áramót. Talsverðar sveiflur geta raunar verið á kortaveltunni á milli einstakra mánaða og er því gagnlegra að skoða ársfjórðungslega þróun. Raunvöxtur kortaveltu á síðasta ársfjórðungi 2019 mældist 2,0% og hafði ekki verið hraðari frá 4. ársfjórðungi 2018. Það verður því áhugavert að skoða kortaveltutölur í febrúar og mars til að vita með vissu hvort sveiflan í janúarmánuði gefur vísbendingu um það sem koma skal á næstunni.

Íslensk heimili velja innlendar vörur og þjónustu í auknum mæli

Umtalsverð breyting hefur orðið á samsetningu neyslu íslenskra heimila innanlands og erlendis. Allt frá árinu 2012 og fram á 3. ársfjórðung 2018 jókst kortavelta landsmanna erlendis töluvert og var raunvöxtur oft í tugum prósenta, en eftir fall krónu haustið 2018 hefur þessi þróun snúist við. Vöxtur í erlendri kortaveltu hefur oft á tíðum verið mjög hægur upp á síðkastið og stundum skroppið saman að raungildi milli ára á meðan kortavelta innanlands hefur oftast vaxið hóflega en stöðugt.

Það sem skýrir þennan mikla vöxt á erlendu kortaveltunni á árum áður var mikil ferðagleði landsmanna ásamt örum vexti í viðskiptum við erlendar netverslanir. Nú hefur ferðalögum landsmanna utan landsteinanna fækkað töluvert. Landsmenn drógu úr slíkum ferðum um 8,5% árið 2019 frá fyrra ári og er útlit fyrir að íslensk heimili beini neyslu sinni í auknum mæli að innlendri þjónustu og vörum.

Stigið á neyslubremsuna á nýju ári

Þróun kortaveltu er einn gagnlegasti hagvísirinn fyrir mat á þróun einkaneyslu. Samdráttur kortaveltunnar var 0,8% í janúar frá sama tíma í fyrra, samanborið við 2,0% vöxt á síðasta ársfjórðungi 2019. Síðustu mánuðir virðast ríma við aðra hagvísa sem gefa tóninn fyrir þróun einkaneyslu. Væntingavísitala Gallup hefur verið undir meðaltali og á svipuðu bili undanfarið ár, hægt hefur á vexti kaupmáttar launa og atvinnuleysi mun verða nokkuð meira á næstu misserum en við höfum vanist síðustu ár. Á heildina litið má segja að þróunin beri þessi merki að íslensk heimili vilji ekki eyða um efni fram án þess þó að stíga neyslubremsuna alveg í botn.

Þróun á einkaneyslu skiptir miklu máli fyrir hagvöxt hérlendis. Síðustu ár hefur einkaneysla vegið þungt til hagvaxtar og skýrt um helming af landsframleiðslunni. Í nýútgefinni þjóðhagsspá okkar spáum við að hægari neysla einkaneyslu sé framundan en jákvæð staða heimila muni koma til með að hjálpa talsvert í þeim efnum. Nýjustu tölur frá Seðlabankanum ýta undir þessa skoðun okkar.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband