Fimmtán fyrirtæki hlutu í dag styrki frá 1,0 til 5,0 milljónum króna í árvissri úthlutun Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka. Heildarupphæð styrkjanna nam 40 milljónum króna.
Sjóðnum berast ávallt margar umsóknir en að þessu sinni voru þær 90. Frá stofnun hefur sjóðurinn nú styrkt margvísleg verkefni um 165 milljónir króna.
Markmið Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka er að hvetja til nýsköpunar og þróunar og styðja við bakið á frumkvöðlaverkefnum sem stuðla að þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki hefur valið að leggja sérstaka áherslu á. Markmiðin eru Menntun fyrir alla, Jafnrétti kynjanna, Nýsköpun og uppbygging og Aðgerðir í loftslagsmálum. Þá er rekstur sjóðsins í samræmi við samfélagsstefnu Íslandsbanka sem sett hefur sér að vera hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu.