Íslandsbanki afhenti í dag styrki úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka. Alls voru veittar 30 milljónir króna til 13 verkefna. Sjóðnum bárust 230 umsóknir en til hliðsjónar má nefna að í fyrra bárust 140 umsóknir.
Við úthlutun styrkja var horft til verkefna sem stuðla að þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki hefur ákveðið að styðja sérstaklega við auk undirmarkmiða þeirra. Þau eru Menntun fyrir alla #4, Jafnrétti kynjanna #5, Nýsköpun og uppbygging #9 og Aðgerðir í loftslagsmálum #13.
Stjórn Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka er skipuð Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík, Hrund Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð og Unu Steinsdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.
Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka:
„Við ákváðum að flýta útdeilingu styrkja úr Frumkvöðlasjóði í ár fram í júní í stað þess að bíða til haustsins vegna COVID-19 faraldursins. Nýsköpun og frumkvöðlastarf er aldrei mikilvægara en þegar kreppir að og til að styðja betur við frumkvöðla höfum við ekki útilokað aðra úthlutun úr sjóðnum í haust. Að þessu sinni fengum við metfjölda umsókna og það var ekki einfalt að velja á milli þeirra. Verkefnin sem voru valin styðja við heimsmarkmið SÞ með ólíkum hætti og við erum spennt að fylgjast með framvindu þeirra. Hlutverk Íslandsbanka er að vera hreyfiafl til góðra verka og er stuðningur við nýsköpun mikilvægur hluti af nýlega samþykktri sjálfbærnistefnu bankans. Þar er jafnframt áhersla á veitingu sjálfbærra lána og fjárfestinga.“
Eftirfarandi 13 verkefni hlutu styrki úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka:
Hacking Hekla
Hacking Hekla er lausnamót fyrir landsbyggðina sem fer fram í fyrsta sinn í október á Suðurlandi. Hacking Hekla mun svo í framhaldinu ferðast í kringum landið og byggja ofan á hugmyndir sem verða til. Markmið Hacking Hekla er að kortleggja áskoranir svæðisins og nýta kraft fjöldans til að finna starfrænar lausnir og áhugaverðar hugmyndir til að vinna áfram. Þær áskoranir sem Hacking Hekla mun leggja áherslu á með landsbyggðinni eru; Sjálfbærar samgöngur, sjálfbær ferðaþjónusta, vitundarvakning um viðkvæma náttúru Íslands og staðbundin matvælaframleiðsla og minnkun matarúrgangs. Hacking Hekla vonast til að skapa vettvang fyrir samfélög í dreifbýli til að koma saman og finna lausnir á áskorunum og vandamálum samtímans og framtíðarinnar.
Kalksalt
Nýsköpunarfyrirtækið Kalksalt ehf. á Flateyri framleiðir saltbætiefnafötur og steina fyrir kindur, kýr og hesta. Saltið sem fyrirtækið notar kemur frá fiskvinnslum og er yfirleitt hent en auk þess eru kalkþörungar frá Bíldudal í steinunum og vítamín. Í janúar 2020 hóf Kalksalt ehf. sölu á 7,5 kg steinum sem tókst afar vel en um 600 steinar eru nú þegar seldir. Steypumótin sem fyrirtækið hefur eru mjög ófullkomin og einungis er hægt að búa til 8-16 stk af steinum á dag, 24 stk ef einnig var steypt um miðnætti. Kalksalt ehf. sótti þess vegna um styrki í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða og Frumkvöðlasjóð Íslandsbanka til að fjármagna hönnun og gerð á sílikonmótum til að steypa steinana í, svo hægt sé að búa til 96 steina í einu í stað 8.
Carbor Skoots
Markmið Carbor Skoots er að hanna smáforrit fyrir nemendur og starfsfólk HR með það að markmiði að minnka umferð á háannatíma. Smáforritið myndi auðvelda nemendum og starfsfólki að sameina í bíla í ferðir til og frá skólanum. Notendum er skipt upp í tvo hópa, bílstjóra og farþega. Bílstjóranum verður gert kleift að rukka smávægilegt gjald fyrir farið, upp í bensínkostnað og farþegar borga minna en farmiðagjald strætó fyrir meiri þægindi.
Vetnis
Hjá VETNIS trúum við að grænt vetni verði í náinni framtíð nýtt til að drífa áfram flutninga á vörum og fólki án losunar gróðurhúsalofttegunda. Við vinnum að því að byggja upp leiðandi iðnfyrirtæki á sviði sjálfbærrar framleiðslu og dreifingar á vetni á Íslandi í samstarfi við nokkur öflugustu fyrirtæki landsins.
Hringrásarsafn
Hringrásarsafn – Tengjum bókasöfnin, er samstarfsverkefni Reykjavík Tool Library og Borgarbókasafns. Markmiðið er að setja upp lítið verkfærasafn með sjálfsafgreiðslu í einum af bókasöfnum borgarinnar með það að leiðarljósi að styðja við hringrásarhagkerfi borgarbúa. Byrjað verður á að setja upp stöð með verkfærum en síðar verður vöruúrvalið aukið í samræmi við óskir og þarfir notenda. Við trúum því að því meira sem við deilum, því meira eigum við sem samfélag og þetta er fyrsta skrefið af vonandi mörgum í samstarfi við bókasöfn um allt land. Með því að samnýta drögum við úr sóun, kolefnislosun, hráefnisnotkun og styðjum við samfélagskennd.
Aukin skilvirkni á aflameðferð um borð í smábátum með stöðluðu verklagi
Verkefnið gengur út á það að hanna leiðarvísi að stöðluðu verklagi sem farið verður eftir við aflameðferð fisks á smábátum, nánar tiltekið við blóðgun, slægingu, kælingu og hreinlæti fisks. Í rauninni er verkefnið unnið til að staðla aðgerðir um borð í smábátum sem skipta máli þegar kemur að aflameðferð svo að fiskurinn haldi bæði gæðum og verðmæti sínu. Smábátar í íslenskum sjávarútveg stuðla að mikilvægri atvinnusköpun á landsbyggðinni ásamt því að skila aflaverðmæti inn í íslenskt samfélag. Ávinningur verkefnisins er aukin skilvirkni, sjálfbærni í aflameðferð, nýsköpun og bætt þekking. Verkefnið er unnið undir handleiðslu Dr. Ingu Minelgaité í samstarfi við Íslenska sjávarklasann.
Bioplastic Skin
Verkefnið Bioplastic Skin felst í því að hanna umhverfisvænar umbúðir úr dýrahúðum sem nota má til að pakka kjötvörum. Verkefnið snýr að því að nýta eiginleika gelatíns úr dýrahúðum til að búa til lífrænt plastlíki. Efnið er fljótandi þegar því er blandað saman og má því móta það í hvaða form sem er. Verkefnið brýtur blað á heimsvísu því aldrei áður hefur verið framleidd afurð úr dýrahúðum til að pakka inn kjötvörum.
Umhverfisvöktun með Wappinu
Wapp er snjallforrit sem snýr að því að bæta vöktun viðkvæmrar náttúru landsins og að ýta undir ábyrga ferðamennsku og útivist. Notendum Wappsins verður gert kleift að taka þátt í náttúruvöktun og aðstoða þannig við eftirlit viðkvæmra svæða og stuðla að söfnun samanburðargagna, meðal annars með tilliti til loftslagsbreytinga. Þá verður einnig hægt að tilkynna eða senda ábendingar um gróðurskemmdir, hættusvæði og margt annað með mynd, gps hniti og merkingu.
DINO
DINO er frumhönnun á vistvænu biðskýli þar sem fegurð og notagildi eru í fyrirrúmi. Biðskýlin ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum og nýtir nútíma hátækni til að veita þeim, sem nota almenningssamgöngur, sem besta þjónustu á meðan þeir bíða, m.a. aðgang að þráðlausu neti og gagnvirkri upplýsingagjöf. DINO er notendavænt hátæknilegt biðskýli með mjúkar ávalar línur og afar vinalega og fágaða ásýnd. Skýlið gengur fyrir vistvænni orku, veitir skjól fyrir regni og sól, hefur upphituð eða kæld sæti eftir árstíðum eða heimshlutum, les þyngd farangurs og veitir gagnvirkar og valkvæðar upplýsingar á margvíslegum sviðum, veður- og heimsfréttir, er stafrænt auglýsingaskilti, ljósastaur og hefur vakandi auga sem eftirlitsmyndavél.
Sjálfbærnisjóður Rauða krossins á Íslandi
Sjálfbærnisjóði Rauða krossins á Íslandi er ætlað að stuðla að sjálfbærri fjármögnun verkefna í þróunarsamvinnu Rauða krossins á Íslandi, auka fjármögnun einkageirans í þróunarverkefnum á vegum Rauða krossins sem hafa jákvæð áhrif í baráttu við loftlagsvána, stuðla að sjálfbærni og raungera Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Unnin verður ferla- og fýsileikagreining á áhrifum verkefnanna og hvernig stuðningur við verkefni Rauða krossins getur sparað losun gróðurhúsalofttegunda ásamt því að hafa önnur umhverfisleg- og/eða félagsleg áhrif. Styrktaraðilar sjóðsins, þ.e. fyrirtæki og einstaklingar sem styrkja verkefni Rauða krossins á þessum nýju forsendum, eiga geta treyst að styrkveitingin spari t.d. ákveðinn fjölda tonna CO2 í losun gróðurhúsalofttegunda eða hafi önnur félagsleg áhrif. Þá verður skoðaður fýsileiki þess að nýta áhrif þessara verkefna Rauða krossins til kolefnisjöfnunar fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Með stofnun Sjálfbærnisjóðs Rauða krossins á að gjörbylta nálgun á fjáröflun og fjárstuðning til verkefna.
Hringrásarvæn hönnun
Hringrásarvæn hönnun gengur út á að hanna og þróa vörulínu fyrir heimili og vinnustaði úr íslensku endurunnu- og afgangshráefni, svo sem áli, plasti og steini. Verkefnið stuðlar að nýsköpun í vöruhönnun, auknu framboði af íslenskum hönnunarvörum, efldu hringrásarhagkerfi á Íslandi auk þess að styðja við alþjóðlegar skuldbindingar okkar á sviði umhverfis- og loftslagsmála. FÓLK er íslenskt hönnunarmerki sem hannar, þróar og framleiðir vörur sem stuðla að sjálfbærum lífsstíl.
FAR mobility solutions
FAR er hugbúnaðarlausn sem opnar á möguleikann fyrir fjölbreyttari og betri samgöngum. FAR er markaðstorg mismunandi samgöngulausna sem styðja við þá þróun að einstaklingar hafi ávallt greiðan aðgang að þeirri samgöngulausn sem hentar þeirra ferðaþörf á hverjum tíma en ekki síður að það uppfylli kröfur um að vera skilvirkur, vistvænn, hagkvæmur og öruggur kostur. Fyrsta þjónustan sem FAR þróar er markaðstorg fyrir deilibíla. Þar geta eigendur rafbíla skráð inn á markaðstorg FAR sinn rafbíl og stillt þar verð og á hvaða tíma bílinn er í boði ásamt öðrum nánari skilyrðum. Deilibílalausn FAR byggir á jafningjaneti sambærilegt og Airbnb nema bara fyrir rafbíla.
e1
Markmið e1 er að hraða uppbyggingu innviða fyrir rafbíla á Íslandi. Snjallsímalausn e1 gefur rafbílaeigendum tækifæri til að fá upplýsingar um aðgengilegar hleðslustöðvar sem skráðar eru í kerfi e1. Eigendur hleðslustöðva geta boðið aðgang að sínum hleðslustöðvum í gegnum markaðstorg e1 og þannig haft tekjur af fjárfestingunni. Markaðstorg hleðslustöðva tryggir gagnsæi í verðlagningu sem eykur samkeppni á milli eigenda hleðslustöðva með tilheyrandi ábata fyrir neytendur. Einnig veitir e1 ráðgjöf til einstaklinga, fyrirtækja og húsfélaga við val og uppsetningu á hleðslustöðvum. Netverslun e1 býður uppá fjölbreytt úrval af hleðslustöðvum og fylgihlutum frá öllum helstu birgjum landsins.