Íslandsbanki hf. hefur undirritað samninga við Arion banka hf., Kviku hf. og Landsbankann um viðskiptavakt á eftirmarkaði með sértryggð skuldabréf útgefin af Íslandsbanka og skráð á Nasdaq Iceland.
Tilgangur samninganna er að efla viðskipti með þau skuldabréf sem samningarnir taka til í því skyni að eðlilegt markaðsverð skapist á skuldabréfunum og verðmyndun verði með skilvirkum og gagnsæjum hætti.
Viðskiptavakar munu daglega setja fram kaup- og sölutilboð í skuldabréfin. Viðskiptavaka ber þó ekki að setja fram kaup- og sölutilboð í nýjan flokk skuldabréfa fyrr en flokkurinn hefur náð 3 ma kr. að stærð og skal lágmarksfjárhæð tilboða þá vera 20 m. kr. þar til flokkurinn hefur náð 5 ma kr. að stærð en þá skal lágmarksfjárhæð tilboða hækka í 60 m. kr. þar til flokkurinn hefur náð 10 ma kr. en þá skal lágmarksfjárhæð tilboða verða 80 m. kr. Einnig gildir að fyrir þá flokka skuldbréfa sem ekki hafa verið boðnir út undanfarna 12 mánuði verður lágmarks tilboðsskylda 60 m.kr. og lágmarksfjárhæð tilboða í ISB CBI 30 miðast við 40 milljón kr. að nafnverði.
Skyldur einstakra viðskiptavaka falla niður á tilteknum viðskiptadegi ef viðskiptavaki hefur átt viðskipti (tilgreind "AUTO") með sértryggð skuldabréf fyrir 500 m. kr. að nafnverði samanlagt í þeim flokkum sem samningurinn nær til.
Verðtryggðir flokkar sem eru ótækir til frekari útgáfu vegna reglna Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, með síðari breytingum, eru undanþegnir ofangreindum kvöðum um hámarksmun kaup- og sölutilboða.
Frá gildistöku samninga um viðskiptavakt geta viðskiptavakar fengið tímabundin bréfalán í flokki þeirra skuldabréfa sem samningurinn tekur til.
Nánari upplýsingar er að finna í Kauphallartilkynningu: Kauphallarhlekkur