Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki kaupir vottaðar kolefniseiningar frá YGG

Á Arnaldsstöðum í Fljótsdal voru gróðursettar um 68 þúsund plöntur síðastliðið sumar


Íslandsbanki hefur fest kaup á vottuðum kolefniseiningum í bið frá Yggdrasil Carbon (YGG) á Egilsstöðum, fyrsta íslenska skógræktarverkefninu til að hljóta vottun um bindingu kolefnis. Kolefniseiningarnar verða þó ekki virkar í fyrr en kolefnisforðunin hefur raungerst en þar til geta liðið nokkur ár.

Þær vottuðu einingar sem Íslandsbanki kaupir af YGG Carbon nýtast því síðar til kolefnisjöfnunar, en bankinn hefur áður kolefnisjafnað rekstur bankans að fullu með kaupum á vottuðum kolefnisjöfnunareiningum (e. Certified Emission Reduction units) í gegnum verkefni Sameinuðu þjóðanna, UN Carbon offset platform.

Kolefniseiningar YGG Carbon eru frá nýskógræktarverkefni fyrirtækisins á Arnaldsstöðum í Fljótsdal, en þar voru gróðursettar um 68 þúsund plöntur síðastliðið sumar, greni, fura og ösp. Gróðurfar á Arnaldsstöðum er að langstærstum hluta graslendi, þ.e. tún í órækt. Vottað er eftir kröfum staðalsins Skógarkolefni.

„Við erum afar stolt af því að taka þátt í vegferð YGG Carbon og styðja við fyrsta vottaða kolefnisverkefnið hér á landi. Þátttaka bankans er til marks um vilja hans til að vera hreyfiafl til góðra verka á Íslandi, en bankinn leggur ríka áherslu á sjálfbærni og leggur sig fram um að styðja viðskiptavini sína til hins sama,“ segir Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Íslandsbanka.

„Okkur er ánægju efni að fá Íslandsbanka til liðs við okkur í þeirri vegferð að búa til vottuð kolefnisverkefni á sviði skógræktar og föngum því trausti sem bankinn sýnir okkur og nýjum markaði með vottaðar kolefniseiningar á Íslandi. YGG Carbon heldur áfram þróun hágæða vottaðra kolefnisverkefna, bæði út frá skógrækt og annarri landnýtingu á borð við endurheimt votlendis og uppgræðslu lands,“ segir Björgvin Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri YGG Carbon.

Vottaðar kolefniseiningar í bið frá YGG eru gefnar út fyrir áætlað magn af kolefnisbindingu á líftíma verkefnisins að hluta eða öllu leyti. Vottaðar kolefniseiningar í bið verða svo að virkum vottuðum kolefniseiningum þegar mælingar og staðfesting hefur átt sér stað og er þá hægt að nota þær gegn losun.

Auk kaupa á vottuðum kolefniseiningum YGG og UN Carbon offset platform hefur Íslandsbanki líka keypt kolefniseiningar íslenska sprotafyrirtækisins SoGreen sem vinnur að framleiðslu nýrrar tegundar kolefniseininga sem tryggja mun fulla fimm ára gagnfræðaskólamenntun stúlkna í Sambíu.