Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Jafnvægisvog FKA hreyfiaflsverkefni sem stuðlar að jafnara hlutfalli kynja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja.


Íslandsbanki hefur hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) fjórða árið í röð. Viðurkenningin undirstrikar virkni og áhrif jafnréttisstefnu Íslandsbanka sem nær til allra þátta starfseminnar, en að auki hefur bankinn með markvissum hætti stutt við umfjöllun um jafnréttismál.

Athöfn Jafnvægisvogar FKA, þar sem 59 fyrirtæki, sex sveitarfélög og ellefu opinberir aðilar hlutu viðurkenningu, fór fram í tengslum við stafræna ráðstefnu sem fram fór í beinu streymi á RÚV í gær, 12. október. Eliza Reid forsetafrú hélt tölu og afhenti viðurkenningar.

Ráðstefnan var haldin undir yfirskriftinni „Jafnrétti er ákvörðun,“ en Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni sem FKA vinnur í samstarfi við forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Ríkisútvarpið og Pipar\TBWA.

Verkefninu var komið á 2017 og hefur fest sig í sessi sem mikilvægur þáttur í að vekja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum

Tilgangurinn er meðal annars að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi að minnsta kosti 40/60.