Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki hlýtur Íslensku þekkingarverðlaunin 2020

Íslandsbanki hlaut í september Íslensku þekkingarverðlaunin 2020. Verðlaunin voru afhent af Hr. Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum.


Félag viðskipta- og hagfræðinga (FVH) veitir verðlaunin árlega en þau eru veitt því fyrirtæki sem að mati dómnefndar hefur skarað fram úr á sviði sjálfbærrar þróunar.

Íslandsbanki hefur á liðnum árum lagt áherslu á sjálfbærnisstefnu bankans sem miðar að því að rekstur hans verði til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi út frá alþjóðlegum viðurkenndum viðmiðum um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti.

Við mat sitt á verðlaunahöfum ársins leit dómnefnd til þeirrar framtíðarsýnar sem Íslandsbanki hefur sett sér varðandi sjálfbæra þróun, hvaða áhrif áhersla á sjálfbæra þróun hefur haft á reksturinn, hvaða aðgerða bankinn hefur gripið til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna ásamt því að horfa til þess hvernig stjórnendur fyrirtækisins líta á umhverfis- og félagslega þætti hvað varðar hringrásarhagkerfið, jafnrétti og virðiskeðjuna.

Í dómnefnd sátu Hrefna Sigríður Briem frá Festu- miðstöð um samfélagslega ábyrgð, Telma Eir Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri FVH og Þórarinn Hjálmarsson stjórnarmaður FVH.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka;

„Við erum stolt af því að taka við Íslensku þekkingarverðlaununum árið 2020. Þau eru viðurkenning á sjálfbærnisstefnu bankans og því mikilvæga hlutverki sem fyrirtækið gegnir í því að vera hreyfiafl til góðra verka í íslensku samfélagi. Við höfum í góðu samstarfi starfsmanna og viðskiptavina unnið markvisst í því að hafa jákvæð áhrif á umhverfismál og önnur samfélagsmál. Við erum þakklát fyrir þau viðbrögð sem við höfum fengið og ekki síst fyrir þá miklu velvild sem viðskiptavinir okkar hafa sýnt þessari stefnu bankans. Það hvetur okkur áfram til að gera enn betur.“