Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Islandsbanki hf. : 27 milljarða króna arðgreiðsla til íslenska ríkisins

Á aðalfundi Íslandsbanka þann 19. apríl síðastliðinn, fékk stjórn bankans heimild til að kalla til sérstaks hluthafafundar síðar á árinu þar sem tillaga um greiðslu arðs af hagnaði fyrri rekstrarára kynni að vera lögð fram.


Á aðalfundi Íslandsbanka þann 19. apríl síðastliðinn, fékk stjórn bankans heimild til að kalla til sérstaks hluthafafundar síðar á árinu þar sem tillaga um greiðslu arðs af hagnaði fyrri rekstrarára kynni að vera lögð fram.

Sérstök greiðsla arðs
Á hluthafafundi í dag, þriðjudaginn 20. desember, var tekin ákvörðun um sérstaka greiðslu arðs að fjárhæð 27 milljarða króna til hluthafa fyrir árslok 2016. Íslenska ríkið er eini hluthafi Íslandsbanka og fer Bankasýsla Ríkisins með eignarhlutinn. 

Almennt viðmið bankans er að greiða 40-50% af hagnaði í arð, en í apríl voru greiddir 10 milljarðar í arð til hluthafa sem samsvarar 50% af hagnaði ársins 2015. Með arðgreiðslunni nú, hafa samtals verið greiddir 37 milljarðar í arð á árinu 2016 til íslenska ríkisins.

Mikil vinna hefur farið fram síðustu ár við endurskipulagningu á eignahlið efnahagsreiknings bankans. Endurskipulagningu á lánasafni er nú lokið, vanskilahlutfall fer lækkandi og hverfandi hluti endurskipulagðra lána fer aftur í vanskil. Þessi árangur setur bankann í flokk þeirra 25% evrópskra banka sem hafa hvað lægst vanskilahlutföll.

Með arðgreiðslunni í dag er stigið stórt skref í átt að eðlilegri fjármagnsskipan á skuldahlið efnahagsreiknings bankans. Íslandsbanki hefur viðhaldið öflugum eiginfjár- og lausafjárhlutföllum til að takast á við möguleg áhrif vegna afléttingar hafta og áföllum í rekstarumhverfi. Skuldastaða íslenska ríkisins, fyrirtækja og heimila í landinu hefur stórbatnað á undanförnum árum og lög um skref til afléttingu fjármagnshafta hafa verið samþykkt.

Eiginfjárhlutfall bankans eftir arðgreiðsluna verður 24,0%%, en markmið bankans er að hlutfallið sé yfir 23% sem er vel yfir 19,1% eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins. Vogunarhlutfall verður 15,7%, sem sýnir hóflega skuldsetningu og telst afar gott í samanburði við evrópska banka. Lausafjárstaða verður áfram traust og vel umfram innri viðmið og kröfur eftirlitsaðila.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri:
Íslandsbanki hefur viðhaldið öflugum eiginfjár- og lausafjárhlutföllum til að mæta losun fjármagnshafta og mögulegum áföllum í rekstarumhverfi sínu. Jákvæð þróun í íslensku efnahagslífi og skynsöm skref til afléttingu hafta, skapa nú tækifæri fyrir Íslandsbanka að ná fram hagstæðari samsetningu á eiginfjárgrunni sínum.

Þrátt fyrir afar hátt eigið fé, hefur Íslandsbanki haldið áfram að skila viðunandi arðsemi af undirliggjandi rekstri. Aðgengi að erlendum fjármagnsmörkuðum er gott og bankinn nú að fullu fjármagnaður á markaði. Endurskipulagningu á lánasafni er lokið. Ábyrg stefna í útlánum hefur aukið gæði lánasafns og vanskil fara lækkandi. Rekstrarumhverfi á Íslandi er hagfellt og lausafjárstaða bankans afar góð. Íslandsbanki er því vel í stakk búinn til að greiða sérstakan arð til eigenda sinna.'

Á miðvikudaginn 21. desember verður markaðsaðilum boðið upp á símafund kl. 10.30 á ensku. Farið verður yfir helstu atriði er varða arðgreiðsluna og fjármagnsskipan bankans.

Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila 2 tímum fyrir fundinn.

Öll gögn má sem áður nálgast á vef fjárfestatengsla www.islandsbanki.is/fjarfestatengsl.

Upplýsingar um fjárhagsdagatal bankans og þögul tímabil má finna hér: http://www.islandsbanki.is/um-islandsbanka/fjarfestatengsl/fjarhagsdagatal/.