Helstu atriði í afkomu Íslandsbanka á árinu 2019
- Hagnaður eftir skatta nam 8,5 ma. kr. (2018: 10,6 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár var 4,8% á ársgrundvelli. (2018: 6,1%).
Hagnaður af reglulegri starfsemi var 10,5 ma. kr. (2018: 12,0 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 6,6% á ársgrundvelli (2018: 8,0%). Það er undir markmiði bankans um langtíma arðsemi en ásættanlegt í ljósi aðstæðna í efnahagslífinu. Arðsemismarkmið bankans fyrir reglulega starfsemi er eftir sem áður áhættulausir vextir að viðbættum 4-6%. Miðað við meðaltal áhættulausra vaxta á árinu 2019 var viðmiðið 7,7–9,7%. - Hreinar vaxtatekjur voru 33,7 ma. kr. (2018: 31,9 ma. kr.) sem er 5,4% hækkun milli ára og var vaxtamunur 2,8% (2018: 2,9%).
- Hreinar þóknanatekjur voru 13,4 ma. kr. (2018: 12,2 ma. kr.) sem er 9,3% hækkun frá 2018.
- Virðisbreyting útlána var neikvæð um 3.663 m.kr. á tímabilinu samanborið við jákvæða virðisbreytingu um 1.584 m.kr. á 2018.
- Stjórnunarkostnaður jókst um 1,7% milli ára og nam 28,1 ma. kr. (2018: 27,7 ma. kr.). Hækkunin stafar af launakostnaði vegna starfsloka sem áttu sér stað á árinu 2019 og aukinna afskrifta vegna grunnkerfa.
- Kostnaðarhlutfall samstæðu á tímabilinu var 62,4% samanborið við 66,3% á sama tímabili 2018, en kostnaðarhlutfall móðurfélags var 57,1% samanborið við 60,4% á árinu 2018. Helstu kostnaðarliðir sem voru umfram áætlanir var tap á fjárfestingareignum og kostnaður vegna starfsloka.
- Útlán til viðskiptavina jukust um 6,3% á tímabilinu og voru 900 ma. kr. í lok árs 2019. Ný útlán voru 226 ma. kr. á árinu samanborið við 239 ma. kr. á árinu 2018.
- Innlán frá viðskiptavinum námu 618,3 ma. kr. í lok árs 2019 sem er 6,8% aukning frá 2018.
- Lausafjárstaða bankans er sterk, bæði í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum, og umfram kröfur eftirlitsaðila sem og innri viðmið. Eiginfjárhlutföll eru sterk en ívið hærri en langtímamarkmið bankans.
- Vogunarhlutfall var 14,2% við árslok samanborið við 14,6% við lok árs 2018, sem telst hóflegt bæði í innlendum og erlendum samanburði.
- Stjórn bankans leggur til að 4,2 ma. kr. af hagnaði ársins 2019 verði greiddir í arð til hluthafa. Greiðslan samsvarar um 50% af hagnaði ársins 2019 og er í samræmi við markmið bankans um 40-50% arðgreiðsluhlutfall.
- Bankinn birtir árs- og sjálfbærniskýrslu og áhættuskýrslu á sama tíma og ársreikning fyrir árið 2019. Hægt er að nálgast gögnin hér: https://www.islandsbanki.is/is/flokkur/bankinn/fjarfestatengsl
Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs
- Hagnaður eftir skatta var 1,7 ma. kr. (4F18: 1,4 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár 3,7% á ársgrundvelli (4F18: 3,2%).
- Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 1,8 ma. kr. (4F18: 2,1 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) 4,6% (4F18: 5,3%).
- Hreinar vaxtatekjur voru 8,5 ma. kr. (4F18: 8,3 ma. kr.) og var vaxtamunur 2,8% (4F18: 3%).
- Hreinar þóknanatekjur voru 3,6 ma. kr. (4F18: 3,5 ma. kr.).
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka
"Á árinu 2019 endurmátum við stefnu Íslandsbanka og skilgreindum nýtt hlutverk fyrir bankann sem „hreyfiafl til góðra verka“. Við höfum samþykkt framsýna sjálfbærnistefnu sem felur í sér að samþætta þau sjónarmið arðsemismarkmiði bankans.
Afkoma Íslandsbanka á árinu 2019 var ásættanleg og sér í lagi þegar horft er til þess að mikið hægði á hagvexti á árinu 2019. Bankinn skilaði hagnaði upp á 8,5 ma. kr. sem samsvarar 4,8% arðsemi eiginfjár sem er undir langtímaarðsemismarkmiði. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 6,6%. Tekjur bankans jukust um 7,8% á árinu og kostnaðarhlutfall bankans lækkaði í 62,4% og 57,1% fyrir móðurfélagið. Líkt og á árinu 2018 hafði rekstur eins dótturfélags neikvæð áhrif á afkomu samstæðunnar. Ný stefna Íslandsbanka og skilvirkari rekstur munu hjálpa okkur að ná þeim arðsemismarkmiðum sem við höfum sett okkur.
Vöxtur inn- og útlána á árinu var kröftugur eða 6,8% og 6,3%. Aðstæður á fjármagnsmörkuðum, hér heima sem erlendis, voru bankanum hagfelldar á árinu og var fjármögnun bankans áfram farsæl og fjölbreytt. Lausa- og eiginfjárhlutföll bankans héldust áfram sterk og voru vel yfir innri viðmiðum og kröfum eftirlitsaðila. Af þessu leiðir að Íslandsbanki mun, eftir sem áður, vera vel í stakk búinn til að veita efnahagslífinu það súrefni sem þarf til viðgangs og vaxtar.
Við vorum stærst á markaðnum í miðlun verðbréfa, eignir í stýringu jukust verulega á árinu sem og eignir í vörslu. Auk þess áttu Íslandssjóðir mjög gott ár og voru sjóðir félagsins í fyrsta sæti í ávöxtun á landsvísu í þremur flokkum af fjórum.
Við héldum áfram að fjárfesta í stafrænum lausnum á árinu 2019 og breyttum skipulagi á upplýsingatækni úr því að vera verkefnadrifið í vörumiðað skipulag. Með þessu tengjum við viðskiptasviðin betur við stafrænu vöruþróunina okkar sem verður sífellt mikilvægari fyrir reksturinn. Við kynntum til leiks fjölmargar lausnir þar á meðal nýtt app Íslandsbanka, sjálfvirkt greiðslumat og húsnæðislánaumsókn þar sem sótt er um á nokkrum mínútum.
Sem hluti af stefnumótuninni ákvað samstilltur hópur starfsmanna að styðja sérstaklega við fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, nýsköpun og aðgerðir í loftslagsmálum. Einnig var samþykkt á árinu að innleiða alþjóðleg viðmið um umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti inn í rekstur bankans. Með þessum stuðningi viljum við vera hreyfiafl til góðra verka.
Framundan eru spennandi en krefjandi tímar og við hlökkum til að vinna áfram í átt að nýju stefnunni í samvinnu við viðskiptavini og samstarfsaðila okkar."
Helstu atriði úr rekstri Íslandsbanka á árinu 2019
- Ný lausn „Velkomin í hópinn“ fór í loftið í janúar. Þar geta einstaklingar stofnað til viðskipta í gegnum vefsíðu og app við Íslandsbanka á nokkrum mínútum. Einnig fór lausnin „Lán í appi“ í loftið á fyrrihluta árs. Þar geta einstaklingar fengið lán undir tveimur milljónum afgreitt á örfáum mínútum í gegnum app Íslandsbanka.
- Aðalfundur bankans í mars 2019 samþykkti að greiða 5,3 milljarða í arð til hluthafa. Breytingar urðu í stjórn bankans þegar Tómas Már Sigurðsson var kjörinn nýr í stjórn í stað Helgu Valfells, sem óskaði ekki eftir endurkjöri.
- Í mars hlaut bankinn viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.
- Í júní gaf bankinn út víkjandi skuldabréf að fjárhæð 500 m. sænskra króna til 10 ára með innköllunarheimild af hálfu útgefanda eftir 5 ár (10NC5). Þetta var þriðja víkjandi skuldabréfaútgáfa Íslandsbanka. Með þessari útgáfu náði bankinn markmiði sínu um útgáfu á Tier 2 skuldabréfum og var þetta mikilvægur áfangi í uppbyggingu á langtíma eiginfjár samsetningu bankans.
- Riaan Dreyer var ráðinn nýr framkvæmdastjóri Upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka í júlí og hóf störf í september.
- Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings staðfesti lánshæfismat Íslandsbanka BBB+/A2 í júlí en breytti jafnframt horfum úr stöðugum í neikvæðar.
- Í ágúst funduðu Samtök norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð í Reykjavík með forsætisráðherrum Norðurlanda þar sem rætt var um sameiginlegar áskoranir ríkjanna um sjálfbærni. Íslandsbanki er stoltur aðili að samtökunum.
- Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fór fram 24. ágúst. 15 þúsund hlauparar söfnuðu 167 m.kr. til góðra málefna í þessum stærsta góðgerðaviðburði Íslands.
- Ný sjálfvirk húsnæðislánalausn Íslandsbanka var kynnt í ágúst. Nú er hægt er að sækja um greiðslumat á vef Íslandsbanka, fá svar um greiðslugetu samstundis og sækja um húsnæðislán.
- Í október lækkaði Fjármálaeftirlitið (hér eftir Seðlabankinn) lágmarkskröfu um heildar eigið fé Íslandsbanka úr 19,3% í 18,8%. Lækkunin er rakin til lægri áhættu í rekstri bankans.
Nýtt app Íslandsbanka fór í loftið í nóvember. Appið er hannað í samvinnu við viðskiptavini og hefur fengið mjög góðar viðtökur. - Í nóvember gaf Íslandsbanki út almennt skuldabréf að nafnvirði 3,6 milljarða íslenskra króna. Skuldabréfið ber 1 mánaða REIBOR vexti að viðbættu 90 punkta álagi.
- Skýrslur um íslenska ferðaþjónustu, íbúðamarkaðinn, frumkvöðla og nýsköpun og íslenskan sjávarútveg litu dagsins ljós á árinu.
- Í desember keypti bankinn til baka eigin skuldabréf, 142,7m evra af 200m evru skuldabréfi með gjalddaga í september 2020 og skuldabréf að fjárhæð 250m sænskra króna með gjalddaga í febrúar 2020.
- Íslandsbanki var með hæstu hlutdeild heildarviðskipta í Kauphöll Íslands með yfir 700 milljarða í markaðsvirði á árinu 2019.
Fjárfestatengsl
Símafundur með markaðsaðilum á ensku kl. 9.30
Símafundur með markaðsaðilum vegna uppgjörs verður haldinn 13. febrúar kl. 9.30. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum og afkomu bankans. Fundurinn verður á ensku.
Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á: ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila fyrir fundinn.
Afkomufundur á íslensku kl. 10.30
Afkomufundur með innlendum markaðsaðilum verður haldinn 13. febrúar, kl. 10.30 í höfuðstöðvum Íslandsbanka að Hagasmára 3, 201 Kópavogi á 9. hæð. Fundurinn verður á íslensku.
Vinsamlegast skráið ykkur á afkomufundinn með pósti á: ir@islandsbanki.is
Öll gögn tengd uppgjöri ásamt upplýsingum um fjárhagsdagatal og þögul tímabil má finna hér.