Nýútkomin kolefnishlutleysisskýrsla Íslandsbanka sýnir að markmið um kolefnishlutleysi lánasafns árið 2040 eru verulega metnaðarfull en þó möguleg í flestum atvinnugreinum, þó ljóst sé að orkuskipti í flugsamgöngum og fraktflutningum á sjó muni að öllum líkindum taka lengri tíma.
Íslandsbanki hafði áður sett sér markmið um að draga úr kolefnisspori af rekstri bankans um 50% frá 2019 til 2024. Þá hefur bankinn kolefnisjafnað reksturinn að fullu með vottuðum einingum frá því árið 2019. Fyrr á árinu birti Íslandsbanki í fyrsta sinn kolefnisspor af lánastarfsemi mælt í samræmi við PCAF aðferðafræðina en þar kom í ljós að útblástur vegna lánasafns á einum degi er álíka mikill og sporið af rekstrinum á heilu ári. Það er því ljóst að tækifærið til þess að vera hreyfiafl í loftlagsmálum hérlendis liggur fyrst og fremst í því að styðja viðskiptavini á sinni vegferð í átt að minni útblæstri.
Íslandsbanki hefur gripið til margvíslegra aðgerða á sviði loftslagsmála og er eini íslenski bankinn sem er stofnfélagi í NZBA, alþjóðlegu samstarfi banka sem stefna að kolefnishlutleysi í starfsemi sinni. Á þeim vettvangi deila bankarnir, sem standa undir 40% af bankastarfsemi í heiminum, reynslu sinni og leiðum til þess að vinna sig í átt að þessu sameiginlega markmiði.
Í þessari nýju skýrslu birtir Íslandsbanki nú markmið um samdrátt fyrir ákveðnaratvinnugreinar og ná þau yfir 61% heildarútlána og 71% heildarlosunar. Þá hefur starfsemi Íslandssjóða, sjóðastýringarfyrirtækis í eigu Íslandsbanka, einnig verið færð inn í mælingu á fjármögnuðum útblæstri í fyrsta sinn.