Frammistaða Íslandsbanka á sviði sjálfbærni heldur áfram að batna í nýju mati Reitunar. Einkunn bankans fyrir umhverfisþætti hækkar um 12,9% milli ára.
Þrátt fyrir að kröfur hafi aukist milli ára heldur Íslandsbanki hæstu einkunn sem Reitun gefur fyrirtækjum á Íslandi fyrir frammistöðu á sviði sjálfbærni. Bankinn fær alls 90 UFS stig í matinu og einkunnina A3.
Í UFS mati Reitunar er horft til þriggja meginþátta, umhverfis- og félagsþátta, auk stjórnunarhátta. Í matinu fær Íslandsbanki hæstu einkunnina fyrir umhverfisþætti, eða 96 stig af 100 mögulegum, sem er hækkun á milli ára. Í umsögn Reitunar kemur fram að hækkunina megi helst rekja til þess að umhverfisbókhald bankans hafi verið tekið út af löggiltum endurskoðanda, auk þess sem bankinn hafi náð árangri í flokkun úrgangs og losun frá rekstri. Í félagsþáttum stendur bankinn áfram vel að málaflokknum í heild og fær 94 af 100 stigum.