Alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney hefur valið Íslandsbanka besta bankann á Íslandi.
Helsta skýring tímaritsins er farsæll rekstur bankans á því 12 mánaða tímabili sem var til skoðunar.
Tímaritið tekur fram að verðlaunin renni verðskuldað til Íslandsbanka fyrir frammistöðu sína. Tekjur hafi aukist um 13% í 51,1 milljarð króna og 27% hækkun á hagnaði fyrir skatta sé frábær í samanburði við aðra banka. Þá hafi meðalarðsemi eigin fjár hækkað um 6,6 prósentustig í 14,9%, sem er mesta aukning á íslenskum bankamarkaði, en kostnaðarhlutfall bankans lækkaði um 6,2 prósentustig.
Einnig kemur fram að horft var til vel heppnaðrar skráningar bankans vorið 2021 þegar hluthafar bankans urðu um 24.000 talsins. Þá er vísað til þess að stafræn þróun hafi skipt lykilmáli í árangri bankans og að bankinn hafi skipt út öllum grunnkerfum sínum.
Í dag sé stafræn sala 75% en stefnt sé að því að það hlutfall verði 90%.