Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki átti mestu viðskiptin í Kauphöllinni árið 2020

Íslandsbanki átti mestu viðskiptin árið 2020 með öll skráð verðbréf í kauphöll Nasdaq Iceland eða fyrir um 888,4 milljarða króna í kaupum og sölum samanlagt.


Viðskipti bankans með skráð skuldabréf voru þau mestu í kauphöllinni og námu um 670 milljörðum króna eða 18,95% hlutdeild á markaðinum. Viðskipti bankans með skráð hlutabréf á aðallista voru þau næst mestu í kauphöllinni og námu um 218 milljörðum króna samanlagt sem jafngildir um 18,2% hlutdeild á þeim markaði. 

Af heildarviðskiptum þvert á alla eignarflokka var Íslandsbanki með um 18,7% hlutdeild í kauphöll. Næst mest viðskipti á árinu voru hjá Kviku, 861 ma.kr. í kaupum og sölum og þriðju mest hjá Arion banka þar sem viðskiptin numu 831 ma.kr.

Árið 2020 reyndist sveiflukennt á mörkuðum en heimsfaraldur og vaxtalækkun settu mark sitt á árið sem leið. Velta í kauphöllinni með hlutabréf dróst saman um 1,6% á milli ára, en í skuldabréfum jókst velta um 25% á milli ára.

Velta var mest hjá Íslandsbanka ef litið er eingöngu til skuldabréfa, en næst mest hjá Kviku. Hlutabréfaviðskipti voru næst mest hjá Íslandsbanka, en mest hjá Arion banka. Á heildina litið var Íslandsbanki með mestu veltuna í verðbréfaviðskiptum á Íslandi árið 2020 að því er fram kemur í gögnum frá Nasdaq Iceland.