Íslandsbanki gaf í byrjun vikunnar nokkurn hluta af listaverkasafni bankans til 16 listasafna víðs vegar um landið. Afhent voru 56 verk að þessu sinni, en með því er framfylgt samþykkt hluthafafundar í maí í fyrra um að gefa hluta af listaverkasafni Íslandsbanka.
Saga Íslandsbanka nær allt aftur til ársins 1875 og í gegnum tíðina hefur bankinn eignast mörg söguleg og falleg verk. Vandað er til verka við að velja þeim stað við afhendingu með það að markmiði að færa söfnum landsins verk og reynt var að horfa til tengsla verkanna í listasögunni í þeirra nærsamfélagi. Söfnin sem taka við gjöfinni eru líka vel í stakk búin til að standa vörð um listasögu Íslands með því að varðveita verkin og sýna þau.