Ísland og efnahagsáhrif af tollastríði

Ísland virðist ætla að sleppa heldur léttar frá nýtilkynntum tollum bandarískra stjórnvalda en ýmis nágrannalönd. Almenn áhrif tollastríðs á heimsvísu verða trúlega bæði hægari hagvöxtur og meiri verðbólga en ella. Hvað Ísland varðar gætu skammtímaáhrif orðið til þrálátari verðbólgu og hægara vaxtalækkunarferlis en þau áhrif myndu trúlega jafnt og þétt ganga til baka þegar fram í sækir.


Af hverju er tollastríð slæm hugmynd?

Áhrif tolla á efnahagslíf þjóða heims eru margvísleg og mun umsvifameiri en eingöngu þau beinu áhrif á verð til framleiðenda og neytenda sem oft fá mestu athyglina. Tollar, sem eru í senn skattar og viðskiptahindranir, valda í raun jafnan því allratapi sem báðar þessar tegundir opinberra afskipta af efnahagslífinu hafa í för með sér.

Þar má meðal annars nefna:

  • Hærra verð til neytenda. Innfluttar neysluvörur hækka í verði í landinu sem leggur á tolla, sem og innflutt aðföng.
  • Óhagstæð ráðstöfun framleiðsluþátta. Fjármunir og vinnuafl fara til óskilvirkar innlendrar starfsemi.
  • Skapa vík milli vina. Viðskiptaþjóðir svara fyrir sig, draga úr samskiptum og samvinnu við ríkið sem á frumkvæðið af tollamúrunum.
  • Auka misskiptingu. Tollaðar vörur eru gjarnan stærri hluti af neyslukörfu láglaunafólks og dregur því meira úr lífskjörum þeirra en annarra sem meira hafa milli handanna.
  • Kosta tíma og fyrirhöfn. Miklum tíma er sóað í skriffinnsku og eftirlit tengt tollunum. Hærra flækjustig tollanna leiðir til meiri sóunar af þessum sökum en ella.
  • Draga úr framþróun og framförum. „Verndaðir“ geirar hafa minni hvata til að auka skilvirkni og þróast í skjóli tollamúranna.
  • Skapa óheilbrigða hvata. Miklum tíma og fjármunum er varið í að fara kring um gildandi reglur, reka hagsmunagæslu fyrir afmörkuðum tollafríðindum tiltekinna geira og finna leiðir til að lágmarka það óhagræði sem tollunum fylgir í flóknum framleiðsluferlum.
  • Draga úr velmegun. Hægari framþróun í framleiðslu, óskilvirk nýting framleiðsluþátta og sóun vegna margra af framangreindum þáttum leiða á endanum til minni hagvaxtar og efnahagslegrar velmegunar almennings.

Þrátt fyrir framangreinda ókosti er hægt að færa rök fyrir afmörkuðum tollum og viðskiptahindrunum í einstökum geirum með hliðsjón af öðrum sjónarmiðum á borð við fæðuöryggi, orkuöryggi, rökum tengdum landvörnum og slíku eða byggðastefnu. Reynslan hefur þó sýnt að slíkum rökum er gjarnan beitt í talsvert ríkari mæli en efni standa til.

Óvissan gerir illt verra

Ekki er ofmælt að erfitt hafi reynst að festa fingur á bæði tilgangi og endanlegu umfangi þeirra tolla sem stjórnvöld vestra hafa ýmist tilkynnt um eða eru yfirvofandi. Þar hafa þrenns konar sjónarmið verið uppi á misjöfnum tímum af mismunandi aðilum þar á bæ:

  • Tekjuöflun fyrir ríkissjóð: Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa fullyrt að tekjur af tollum geti vegið gegn tekjumissi ríkissjóðs vegna skattalækkana.
  • Efling innlendrar iðnaðarframleiðslu: Iðnaðarframleiðsla hefur í mörgum tilfellum flust frá Bandaríkjunum undanfarna áratugi með iðnvæðingu stórra þróunarríkja og vaxandi alþjóðavæðingu framleiðslu og viðskipta. Þessu vilja bandarísk stjórnvöld snúa við.
  • Viðbrögð við ósanngjörnum viðskiptaháttum annarra ríkja: Bandaríkin eru með umtalsverðan vöruskiptahalla gagnvart umheiminum. Stjórnvöld vestra kenna viðskiptahindrunum, niðurgreiðslum á framleiðslu annarra ríkja og handstýringu á gengi gjaldmiðla gagnvart Bandaríkjadollar um þessa þróun. Vilja þau beita tollunum sem samningatækni til þess að jafna leikinn að þessu leyti.

Of langt mál væri að fara yfir alla annmarka þessarar röksemdafærslu, enda efni í sérstakan pistil. Þar að auki rekast þessi markmið sumpart á enda verða til að mynda tekjur af tollum minni eftir því sem innlend iðnaðarframleiðsla eflist á kostnað innflutnings. Hins vegar hefur beiting ólíkra raka sitt á hvað varðandi tilgang tollanna ásamt örum breytingum á væntanlegum tollum og stuttum fyrirvara á tollabreytingum aukið mikið við óvissu varðandi efnahagshorfur og valdið miklum sveiflum á alþjóðamörkuðum. Þessi óvissa er langt í frá að baki þrátt fyrir nýjustu vendingar í tollamálum vestan hafs og eykur hún enn á skaðleg áhrif af tollastefnu Bandaríkjanna.

Á meðan óvissa ríkir um endanlegt landslag í viðskiptahindrunum á heimsvísu er hætt við að fyrirtæki fresti ákvörðunum um fjárfestingar, sem á endanum gæti reynst talsverður dragbítur á hagvöxt bæði í Bandaríkjunum og almennt á heimsvísu. Svipaða sögu má segja um neyslu almennings sem vill trúlega fara varlegar í sakirnar í stórum neysluákvörðunum á borð við kaup á bifreiðum, heimilistækjum og utanlandsferðum meðan óvissan er jafn mikil og raun ber vitni.

Hver verða áhrifin á heimsbúskapinn?

Meðan slík óvissa ríkir um framgang mögulegs tollastríðs er ógerningur að festa fingur á líklegum efnahagsáhrifum, hvort sem er almennt á ríki heims eða á íslenskan efnahag. OECD birti þó áhugaverða sviðsmyndagreiningu í nýlega birtri hagspá sinni. Þar er sú forsenda gefin að 10% flatur tollur leggist á innfluttar vörur til Bandaríkjanna, að hrávörum undanskildum, og að umheimurinn bregðist við með samsvarandi tollum á útflutningsvörur Bandaríkjanna. Grunnspá stofnunarinnar felur raunar í sér nokkur áhrif af þeim tollum sem þegar höfðu verið tilkynntir í marsmánuði og gerði ráð fyrir heldur hægari hagvexti og þrálátari verðbólgu en fyrri spá OECD. Þá ber einnig að hafa í huga að þeir tollar sem búið er að tilkynna um af hálfu Bandaríkjanna eru að jafnaði nokkuð umfram 10% forsendu OECD.

Eins og sjá má eru metin neikvæð hagvaxtaráhrif á iðnríkin, sem eru uppistaða OECD-ríkja, talsverð. Áhrifin eru raunar metin töluvert meiri á Bandaríkin sjálf en á heimsbúskapinn í heild Þá verða nágrannaríkin Kanada og Mexíkó fyrir töluverðum búsifjum af tollastríðinu en áhrifin á Evrusvæðið og stærstu Asíuríki eru metin talsvert hóflegri. Áhrifin á Bandaríkin sjálf eru svo metin talsvert meiri en gengur og gerist hjá öðrum iðnríkjum, sem rímar ekki beinlínis vel við yfirlýstan tilgang stjórnvalda þar í landi með tollastefnu sinni.

Þá telur OECD hættu á að verðbólga verði töluvert þrálátari á heimsvísu í tollastríði, sér í lagi í löndum Norður-Ameríku. Það myndi á endanum einnig smitast hingað til lands enda er leiðni erlends verðlags yfir í verðbólguþróun hér á landi talsvert sterk og hlutur innfluttra vara í neyslukörfu landsmanna nokkuð stór. Verði verðbólguþróunin í takti við það sem sem teiknað er upp í framangreindri sviðsmynd verður því seðlabönkum nokkur vandi á höndum og gætu vextir tímabundið orðið hærri fyrir vikið bæði hér á landi og erlendis.

Vægari tollar gagnvart Íslandi en ýmsum nágrannaþjóðum

Svo virðist sem hlutfall vöruskiptahalla af heildarútflutningi vöru hvers lands fyrir sig hafi ráðið þeirri tollaprósentu sem viðkomandi ríki stendur frammi fyrir gagnvart Bandaríkjunum eftir tollatilkynninguna 2. apríl. Tollar gagnvart Íslandi falla því í lágmarksflokkinn 10% enda hefur verið lítilsháttar halli á vöruskiptum Íslands við Bandaríkin. Til samanburðar standa ríki Evrópusambandsins frammi fyrir 20% tollum á vöruútflutning til Bandaríkjanna og vörur frá Noregi munu bera 16% toll við innflutning til Bandaríkjanna. Af helstu nágrannaríkjum okkar er aðeins Bretland með 10% lágmarksprósentuna auk okkar.

Þar njótum við Íslendingar þess að sjónarhorn Bandaríkjanna á utanríkisviðskipti hvað þetta varðar einskorðast við vöruskipti. Öfugt við vöruviðskiptin, þar sem lítilsháttar halli hefur verið reglan undanfarið, hefur nefnilega verið myndarlegur afgangur af þjónustuviðskiptum okkar við Bandaríkin undanfarin ár. Sá afgangur skýrist að mestu af ferðagleði Bandaríkjamanna hingað til lands. Á seinasta ári var ríflega fjórði hver erlendur ferðamaður sem hingað kom frá Bandaríkjunum og komst ekkert annað land í hálfkvisti við Bandaríkin að þessu leyti.

Í fyrra voru fluttar inn vörur fyrir ríflega 6 ma.kr. frá Bandaríkjunum umfram vöruútflutning frá Íslandi vestur um haf. Hins vegar voru þjónustutekjur frá Bandaríkjunum á sama tíma 219 ma.kr. umfram samsvarandi þjónustutekjur Bandaríkjamanna frá Íslandi.

Fiskur, lyf og lækningavörur uppistaðan í útflutningi til USA

Þótt Bandaríkin séu mikilvæg viðskiptaþjóð fyrir okkur Íslendinga er þó hlutfall vöruútflutnings til landsins fremur hóflegt. Á síðasta ári nam slíkur útflutningur til að mynda 110 ma.kr. sem jafngildir 12% af heildar vöruútflutningi það ár. Langstærstur hluti þessa útflutnings er fiskmeti og vörur tengdar heilbrigðisþjónustu. Þannig nam heildarútflutningur á fiski 46 ma.kr. í fyrra. Þar af var tæpur helmingur þorskur en ýsa og eldislax vógu einnig þungt í fiskútflutningi. Ríflega 39 ma.kr. af útfluttum vörum flokkuðust sem tæki og vörur til lækninga í flokkun Hagstofu. Undir þá skilgreiningu falla bæði lyf framleidd m.a. af Alvotech og Oculis, vörur á borð við sáraumbúðirnar sem Kerecis framleiðir sem og stoðtæki Össurar og svefnrannsóknatæki Nox Medical, svo nokkuð sé nefnt. Vert er að halda því til haga að ál, sem vegur talsvert þungt í heildar vöruútflutningi Íslands, er nær eingöngu flutt út til Evrópu og hafa tollarnir nýju því ekki bein áhrif á slíkan útflutning. Þá eru lyf undanþegin tollum Trumpstjórnarinnar, að minnsta kosti í bili, sem ætti að vera íslenskum lyfjaframleiðendum sem selja lyf til Bandaríkjanna nokkur léttir.

Áhrif tollastríðs á Ísland mikilli óvissu háð

Afar erfitt er að teikna upp með nokkurri vissu hvernig áhrif þeirra tolla Bandaríkjanna sem þegar hafa verið tilkynnt munu á endanum verða fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Þó má draga fram nokkur atriði sem munu skipta miklu um hvernig spilast úr stöðunni.

Í fyrsta lagi er lykilatriði fyrir stjórnvöld að beita sér af fremsta megni fyrir því að viðskipti við aðrar helstu viðskiptaþjóðir okkar verði áfram laus við tolla og aðrar viðskiptahindranir eftir því sem kostur er. Þegar hafa ýmsir leiðtogar helstu ríkja brugðist við hinum nýtilkynntu tollum Bandaríkjanna með hótunum um að leggja tolla á innfluttar vörur framleiddar þar í landi. Þau viðbrögð hafa þó fram að þessu einskorðast við aðgerðir gagnvart Bandaríkjunum fremur en einhvers konar almenna tolla á innflutning frá viðskiptaríkjum.

Einskorðist tollar á íslenskan útflutning að mestu við Bandaríkin verða áhrif á verðbólgu hér á landi að sama skapi minni. Eins verður þá hægara um vik að beina útflutningi vöru, til að mynda sjávarafurða, á aðra stóra markaði en Bandaríkin án þess að útflytjendur beri verulega minna úr býtum. Það veit einnig á gott að íslenskir ráðamenn virðast ætla að taka þetta viðfangsefni föstum tökum og fátt bendir enn til þess að Ísland klemmist milli hárra tollamúra á báða bóga þótt ekki sé hægt að útiloka slíkt.

Áhrif tollanna á eftirspurn og hagvöxt hér á landi verða nær ótvírætt neikvæð þótt ekki sé útilokað að einstaka geirar eða fyrirtæki muni njóta góðs af hlutfallslega lágum tollum í alþjóðlegu samhengi. Við teljum þó allgóðar líkur á því að höggið á íslenskan efnahag verði ekki mjög íþyngjandi svo lengi sem alls herjar tollastríð gerbreytir ekki viðskiptaumhverfinu á heimsvísu.

Einn stór óvissuþáttur snýr að því hver áhrifin muni verða á ferðagleði Bandaríkjamanna hingað til lands. Nýlegar kannanir þar í landi gefa raunar til kynna að ferðahugur þarlendra sé enn töluverður. Það gæti hins vegar breyst ef neikvæð efnahagsáhrif af tollunum fara að setja mark sitt á ráðstöfunartekjur Bandaríkjamanna á komandi misserum. Umtalsverður samdráttur í komum Bandaríkjanna hingað til lands myndi fljótt segja til sín í afkomu ferðaþjónustunnar sem þegar horfir fram á tvísýnni tíma á næstunni en útlit var fyrir í ársbyrjun.

Þegar kemur að áhrifum á verðbólgu og stýrivexti hér á landi er myndin óljósari. Hvað verðbólgu varðar munu trúlega togast á tvenns konar áhrif:

  • Sem fyrr segir eru allsterk tengsl milli verðlagsþróunar á heimsvísu og þess hluta verðbólgunnar hér á landi sem kalla má innflutta verðbólgu. Því þykir okkur líklegra að skammtímaáhrif af tollastríði helstu viðskiptablokka yrðu til þess að ýta undir verðbólgu hér á landi.
  • Þegar fram í sækir er hins vegar líklegt að minni efnahagsumsvif en ella dragi úr verðbólguþrýstingi á heimsvísu og áhrif þess, ásamt þeim mögulegu neikvæðu áhrifum sem orðið gætu á eftirspurn og útflutning hér á landi, munu þá væntanlega jafnt og þétt vega upp fyrrnefnd kostnaðaráhrif og gætu á endanum vegið þyngra ef tollastríðið verður langvinnt og íþyngjandi.

Verðbólga á allra næstu fjórðungum gæti þar með orðið heldur meiri en ella og vaxtalækkunarferli Seðlabankans að sama skapi hægara. Þegar frá liður ættu þau áhrif hins vegar að ganga til baka og hjaðnandi verðbólga ásamt meiri slaka í hagkerfinu að auðvelda Seðlabankanum að halda sínu striki í lækkun stýrivaxta.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Senda tölvupóst