Af hverju er tollastríð slæm hugmynd?
Áhrif tolla á efnahagslíf þjóða heims eru margvísleg og mun umsvifameiri en eingöngu þau beinu áhrif á verð til framleiðenda og neytenda sem oft fá mestu athyglina. Tollar, sem eru í senn skattar og viðskiptahindranir, valda í raun jafnan því allratapi sem báðar þessar tegundir opinberra afskipta af efnahagslífinu hafa í för með sér.
Þar má meðal annars nefna:
- Hærra verð til neytenda. Innfluttar neysluvörur hækka í verði í landinu sem leggur á tolla, sem og innflutt aðföng.
- Óhagstæð ráðstöfun framleiðsluþátta. Fjármunir og vinnuafl fara til óskilvirkar innlendrar starfsemi.
- Skapa vík milli vina. Viðskiptaþjóðir svara fyrir sig, draga úr samskiptum og samvinnu við ríkið sem á frumkvæðið af tollamúrunum.
- Auka misskiptingu. Tollaðar vörur eru gjarnan stærri hluti af neyslukörfu láglaunafólks og dregur því meira úr lífskjörum þeirra en annarra sem meira hafa milli handanna.
- Kosta tíma og fyrirhöfn. Miklum tíma er sóað í skriffinnsku og eftirlit tengt tollunum. Hærra flækjustig tollanna leiðir til meiri sóunar af þessum sökum en ella.
- Draga úr framþróun og framförum. „Verndaðir“ geirar hafa minni hvata til að auka skilvirkni og þróast í skjóli tollamúranna.
- Skapa óheilbrigða hvata. Miklum tíma og fjármunum er varið í að fara kring um gildandi reglur, reka hagsmunagæslu fyrir afmörkuðum tollafríðindum tiltekinna geira og finna leiðir til að lágmarka það óhagræði sem tollunum fylgir í flóknum framleiðsluferlum.
- Draga úr velmegun. Hægari framþróun í framleiðslu, óskilvirk nýting framleiðsluþátta og sóun vegna margra af framangreindum þáttum leiða á endanum til minni hagvaxtar og efnahagslegrar velmegunar almennings.
Þrátt fyrir framangreinda ókosti er hægt að færa rök fyrir afmörkuðum tollum og viðskiptahindrunum í einstökum geirum með hliðsjón af öðrum sjónarmiðum á borð við fæðuöryggi, orkuöryggi, rökum tengdum landvörnum og slíku eða byggðastefnu. Reynslan hefur þó sýnt að slíkum rökum er gjarnan beitt í talsvert ríkari mæli en efni standa til.
Óvissan gerir illt verra
Ekki er ofmælt að erfitt hafi reynst að festa fingur á bæði tilgangi og endanlegu umfangi þeirra tolla sem stjórnvöld vestra hafa ýmist tilkynnt um eða eru yfirvofandi. Þar hafa þrenns konar sjónarmið verið uppi á misjöfnum tímum af mismunandi aðilum þar á bæ:
- Tekjuöflun fyrir ríkissjóð: Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa fullyrt að tekjur af tollum geti vegið gegn tekjumissi ríkissjóðs vegna skattalækkana.
- Efling innlendrar iðnaðarframleiðslu: Iðnaðarframleiðsla hefur í mörgum tilfellum flust frá Bandaríkjunum undanfarna áratugi með iðnvæðingu stórra þróunarríkja og vaxandi alþjóðavæðingu framleiðslu og viðskipta. Þessu vilja bandarísk stjórnvöld snúa við.
- Viðbrögð við ósanngjörnum viðskiptaháttum annarra ríkja: Bandaríkin eru með umtalsverðan vöruskiptahalla gagnvart umheiminum. Stjórnvöld vestra kenna viðskiptahindrunum, niðurgreiðslum á framleiðslu annarra ríkja og handstýringu á gengi gjaldmiðla gagnvart Bandaríkjadollar um þessa þróun. Vilja þau beita tollunum sem samningatækni til þess að jafna leikinn að þessu leyti.
Of langt mál væri að fara yfir alla annmarka þessarar röksemdafærslu, enda efni í sérstakan pistil. Þar að auki rekast þessi markmið sumpart á enda verða til að mynda tekjur af tollum minni eftir því sem innlend iðnaðarframleiðsla eflist á kostnað innflutnings. Hins vegar hefur beiting ólíkra raka sitt á hvað varðandi tilgang tollanna ásamt örum breytingum á væntanlegum tollum og stuttum fyrirvara á tollabreytingum aukið mikið við óvissu varðandi efnahagshorfur og valdið miklum sveiflum á alþjóðamörkuðum. Þessi óvissa er langt í frá að baki þrátt fyrir nýjustu vendingar í tollamálum vestan hafs og eykur hún enn á skaðleg áhrif af tollastefnu Bandaríkjanna.