Hátt verðlag skerðir samkeppnishæfni Íslands sem áfangastað fyrir ferðamenn
Í skýrslu World Economic Forum sem gefin var út árið 2017 um samkeppnishæfni landa í ferðaþjónustu er Ísland í 25. sæti af 136 löndum. Þeir þættir sem Ísland skorar hátt í er öryggi, vinnumarkaður og mannauður auk forgangsröðunar stjórnvalda á ferðaþjónustu. Hins vegar skorar Ísland lágt á sviði verðlags, samgangna á landi, menningarverðmæta og ráðstefnutengdri ferðamennsku. Ísland mælist langlægst í samkeppnishæfni í verðlagi og er á meðal ósamkeppnishæfustu þjóða, í 132. sæti í þeim flokki.
Hátt verðlag lands og góð lífsskilyrði íbúa þess hanga saman
Ósamkeppnishæft verðlag hér á landi ætti ekki að koma á óvart í ljósi þess að Ísland er nú dýrasti áfangastaður Evrópu og að öllum líkindum einn sá dýrasti á heimsvísu. Þær þjóðir sem teljast með samkeppnishæfasta verðlagið eru í flestum tilfellum með lága verga landsframleiðslu (VLF) á hvern íbúa. VLF á hvern íbúa er oft notað sem mælikvarði á lífsgæði milli landa. Einu löndin sem skora hærra í VLF á hvern íbúa og einnig í samkeppnishæfu verðlagi í ferðaþjónustu eru Noregur, Írland og Lúxemborg. Hátt verðlag og aukin lífsgæði hanga því að talsverðu leyti saman. Í því ljósi er það ekki alslæmt að Ísland sé ósamkeppnishæft í verðlagi á vörum og þjónustu í ferðaþjónustu. Það felur í sér ríkara svigrúm til að bjóða íbúum landsins aukin lífsgæði, m.a. í formi hærri launa, en þekkist víðast hvar annars staðar.
Gengisáhrifin lita upplifun ferðamanna
Ferðamannapúls Gallup hefur mælt heildarupplifun ferðamanna af Íslandsferðinni frá árinu 2016 og byggir mælingin á fimm vísitölum sem allar vega jafnt. Meðalgildi allra vísitalnanna lækkaði á árinu 2017 en hækkaði svo aftur á árinu 2018. Mesta hreyfingin átti sér stað á vísitölunni sem mælir hvort ferðamenn telji ferðina peninganna virði og hafði sú vísitala því mest áhrif á heildarupplifun ferðamanna af dvöl sinni hérlendis. Þegar gengisvísitalan er skoðuð samhliða hreyfist hún í takt við upplifun ferðamanna af verðlaginu, styrkist þegar ferðamaðurinn telur verðlag fara versnandi og veikist þegar ferðamaðurinn telur verðlag fara batnandi hér á landi. Þannig lita gengisáhrifin upplifun ferðamanna af dvöl sinni hér á landi að einhverju leyti. Gengisvísitalan styrktist þó meira en sem nemur verri upplifun ferðamanna af verðlagi landsins en hún var að jafnaði um 7% sterkari á árinu 2018 miðað við árið 2016. Virðist því sterkari króna ekki endurspeglast að fullu í verri upplifun ferðamanna af verðlagi hér á landi. Er það jákvætt fyrir greinina enda felur það í sér minni skerðingu á samkeppnishæfni greinarinnar en ella.