Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Innstæður í dollurum með mesta móti í haust

Mikill vöxtur hefur verið í gjaldeyrisinnlánum í Bandaríkjadollurum frá miðju ári. Líklega tengjast aukin innlán sölunni á Kerecis sem gerð var upp í ágústlok. Uppgangur og sala Kerecis er til marks um hversu jákvæð áhrif uppbygging á hugvitsmiðuðum útflutningsgreinum getur haft á ytri jöfnuð þjóðarbúsins.


Gjaldeyrisinnlán innlendra aðila hjá íslenskum innlánsstofnunum námu alls jafnvirði 358 ma.kr. í septemberlok samkvæmt nýlegum tölum Seðlabankans. Milli mánaða lækkaði fjárhæðin um 52 ma.kr. þrátt fyrir ríflega 2% veikingu krónu gagnvart helstu gjaldmiðlum í septembermánuði. Í ágústlok var hins vegar sett met í þessum efnum þegar heildar fjárhæð gjaldeyrisinnlána í eigu innlendra aðila hjá íslenskum bönkum sló í jafnvirði 409 ma.kr. og hafði þá hækkað um 96 ma.kr. í ágústmánuði.

Hreyfingar af þessari stærðargráðu eru óvenjulegar í íslenska fjármálakerfinu en eins og sjá má af myndinni höfðu slíkar innstæður aukist hægt og bítandi frá miðju ári 2021 frá á mitt þetta ár. Einnig kemur greinilega fram á myndinni að bróðurparturinn af aukningunni í ágúst, og raunar einnig samdrættinum í september, var í Bandaríkjadollar.

Þessi hreyfing verður enn skýrari ef innstæðurnar eru skoðaðar í þeim gjaldmiðli sem til þeirra er stofnað. Í Bandaríkjadollar voru slíkar innstæður fremur stöðugar á bilinu 0,8 – 1,0 ma. dollara fram undir vetrarlok á þessu ári. Þá hófu þær að vaxa nokkuð og námu tæplega 1,3 ma. dollara í júlílok. Mánuði síðar höfðu þær vaxið í tæpa 1,9 ma. dollara en námu tæplega 1,6 ma. dollara í lok september. Mun minni breytingar urðu á innstæðum í evrum á þessu tímabili en þessar tvær myntir eru uppistaðan í gjaldeyrisinnlánum í eigu innlendra aðila og námu samanlagt rúmlega 90% af heildarstabba slíkra innstæðna í septemberlok.

Hér er nærtækt að líta til þess að uppgjör á kaupum erlendra aðila á íslenska sprotafyrirtækinu Kerecis fyrir 1,3 ma. Bandaríkjadollara sem tilkynnt var um miðsumars fór fram í lok ágústmánaðar. Sú fjárhæð svarar til tæplega 180 ma.kr. og var fyrirtækið fyrir viðskiptin að stærstum hluta í eigu innlendra aðila. Til samanburðar námu hrein uppsöfnuð gjaldeyriskaup íslenskra lífeyrissjóða jafnvirði 68 ma.kr. á fyrstu átta mánuðum ársins samkvæmt riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika. Gjaldeyrisinnflæði vegna þessara einu viðskipta til innlendra aðila hefur því líkast til verið umtalsvert meira en sem nemur öllum erlendum fjárfestingum lífeyrissjóðanna þetta árið, að því gefnu að fjárfestingartaktur þeirra verði svipaður á síðasta þriðjungi ársins.

Í viðtali við viðskiptavefinn Innherja í ágúst vildi Seðlabankastjóri ekki útiloka að bankinn gæti þurft að koma að gjaldeyrisviðskiptum vegna uppgjörs á Kerecis-sölunni til þess að draga úr áhrifum þess á gengi krónu. Uppgjör Kerecis-viðskiptanna hafði hins vegar lítil áhrif á gjaldeyrismarkað í kring um mánaðamótin ágúst-september.

Í riti Seðlabankans er í þessu samhengi bent á að framangreind viðskipti gætu orðið til þess að styðja við gengi krónu á komandi tíð. Með hliðsjón af gögnum Seðlabankans má telja líklegt að enn sitji talsverður hluti söluandvirðis Kerecis á innlendum gjaldeyrisreikningum. Það ætti svo að skýrast í fyllingu tímans hvort hluta af innstæðum á hinum óvenju digru dollarareikningum verður skipt yfir í íslenskar krónur eða hvort þær verða fremur nýttar til fjárfestinga í erlendum fjáreignum.

Í öllu falli draga framangreind viðskipti skýrt fram hversu mikil áhrif árangursrík uppbygging á  hugvitsmiðuðum fyrirtækjum getur haft fyrir ytri stöðu þjóðarbúsins. Þar má einnig nefna að í nýlegri greiningu Samtaka iðnaðarins er áætlað að útflutningstekjur hugverkaiðnaðar muni nema 280 ma.kr. á yfirstandandi ári og aukast þar með um 17% milli ára. Hreinar eignir Íslendinga í útlöndum námu 1.158 ma.kr. um mitt þetta ár. Auðnist okkur að viðhalda sæmilegu jafnvægi á utanríkisviðskiptum, meðal annars með áframhaldandi vexti í hugvitsmiðuðum útflutningsgreinum, er líklegt að þessi mikilvæga stoð undir gengi krónu verði áfram sterk.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband