Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,59% í október samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 4,5% en var 4,4% í september. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,47% í október og m.v. þá vísitölu mælist 3,0% verðbólga undanfarna 12 mánuði. Það er því talsverður munur á verðbólgu með eða án húsnæðis, en á hinn bóginn sýnir síðarnefnda mælingin að verðbólguþrýstingur er fremur almennur um þessar mundir.
Mæling októbermánaðar er í efri kantinum miðað við opinberar spár. Við spáðum 0,5% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,5% – 0,6% hækkun milli mánaða. Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur meðal annars í húsnæðislið VNV, bæði reiknaðri húsaleigu og viðhaldskostnaði, ásamt húsgagna- og heimilisbúnaðarliðnum en þessir liðir hækkuðu nokkuð umfram okkar spá. Á móti lækkuðu flugfargjöld talsvert á milli mánaða ólíkt því sem við væntum.