Samkvæmt nýlegum tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,1% í desember á milli mánaða. Fjölbýli hækkaði í verði um 0,1% en sérbýli lækkaði hins vegar í verði um 0,2% milli mánaða. Á síðastliðnum þremur mánuðum hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 0,3% og síðastliðna sex um 1,6%.
Hægasta hækkun frá árinu 2011
Einstakar mánaðartölur segja lítið um stöðu fasteignamarkaðarins þar sem miklar sveiflur geta verið á milli mánaða. Þróun síðustu mánaða er þó í ágætu samræmi við leitni til hægari hækkunar verðs síðustu misserin. Samkvæmt Þjóðskrá hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2019 um 2,3%. Þar af hækkaði verð á fjölbýli um 2,6% en sérbýli einungis um 0,9%. Þetta er hægasta 12 mánaða hækkun sem mælst hefur frá árinu 2011 þegar fasteignamarkaðurinn fór að taka við sér aftur eftir hrun. 12 mánaða hækkunartakturinn var hvað hraðastur þegar hann var 21% um mitt ár 2017, en frá ársbyrjun 2018 fór að hægja talsvert á árstaktinum þegar framboð íbúða jókst verulega og hin mikla eftirspurnarspenna sem myndast hafði á markaðnum minnkaði samhliða.