Eins og flestir vita hefur verið mikið fjör á íbúðamarkaði undanfarin misseri. Íbúðaverð byrjaði að hækka nánast við upphaf faraldursins og ári síðar bætti í hækkunartaktinn sem hefur hækkað hratt nær sleitulaust síðan. Nú er viðsnúningur á íbúðamarkaði hafinn, íbúðaverð er loksins að hægja á sér og það frekar hratt.
Fyrstu merki þess að íbúðamarkaður væri að hægja á sér litu dagsins ljós í sumar en í júlí hækkaði vísitala íbúðaverðs einungis um prósentu milli mánaða. Í venjulegu árferði væri prósentuhækkun á milli mánaða talin mikil en í þessu tilfelli var hún virkilega kærkomin eftir 2-3% hækkunartakt mánuðina á undan. Viðsnúningurinn varð svo skýrari þegar vísitalan fyrir ágústmánuð lækkaði um 0,4% á milli mánaða í fyrsta skipti frá því í nóvember 2019. Ástæða fyrir lækkuninni var sú að sérbýli lækkuðu um 2,4% á milli mánaða en verð á fjölbýli stóð nánast í stað á sama tíma. Verð á sérbýlum er almennt sveiflukenndara þar sem færri kaupsamningar liggja að baki á hverjum tíma.