Íbúðamarkaður hefur verið á blússandi siglingu frá því skömmu eftir að faraldurinn skall á. Íbúðaverð hækkaði um nær 16% á síðasta ári eða um ríflega 10% að raunvirði. Mikil eftirspurn er enn til staðar á markaðnum og á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs hefur íbúðaverð hækkað um 3% að nafnvirði samkvæmt gögnum Hagstofu.
Mikil eftirspurn en framboð af skornum skammti
Lækkun vaxta í upphafi faraldursins varð til þess að kjör á íbúðalánum urðu hagstæðari en nokkru sinni fyrr sem hafði gífurleg áhrif á eftirspurn eftir íbúðum. Nú hafa vextir hækkað á nýjan leik og eru stýrivextir nú 2,75% eða á sama stað og fyrir faraldur. Hingað til hefur hækkun vaxta ekki haft áhrif á eftirspurnina sem er enn með mesta móti. Þó dregið hafi úr bæði veltu og fjölda kaupsamninga á undanförnum mánuðum er það líklega vegna þess að framboð er af skornum skammti fremur en vegna þess að eftirspurnarhlið markaðarins sé að róast. Sölutími íbúða er enn mjög stuttur og töluverður fjöldi íbúða seljast yfir ásettu verði. Samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun seldist um 40% allra íbúða í desember yfir ásettu verði og hefur það hlutfall aldrei verið hærra.