Dýrmætt veganesti fyrir erfiða tíma
Hvað þýðir þetta svo allt saman fyrir komandi tíð?
Jú, í fyrsta lagi eru burðir hins opinbera til þess að leggjast gegn hagsveiflunni með aukinni opinberri fjárfestingu, lækkun opinberra gjalda og öðrum tiltækum ráðum verulegir eftir ráðdeild síðustu ára. Til að setja þessa stöðu í samhengi má nefna að í kynningu ríkisstjórnar á mögulegum opinberum aðgerðum í síðustu viku var talað um að fjárfestingar ríkissjóðs yrðu auknar um þriðjung á næstu þremur árum frá fyrri áætlun. Í fljótu bragði reiknast okkur til að þessi aukning gæti numið 75-80 mö.kr. Verði hún að fullu fjármögnuð með lántöku jafngildir það aukningu á skuldum ríkissjóðs upp á tæp 3% af VLF og skuldahlutfallið yrði þá svipað og það var í árslok 2018. Vitaskuld eiga aðrir þættir eins og minnkandi skatttekjur og aukin útgjöld í bótakerfið einnig eftir að hafa áhrif á stöðuna en mergur málsins er samt sá að svigrúm ríkissjóðs er umtalsvert og lánsfé með ríkisábyrgð fæst þar að auki á hagstæðari kjörum en nokkru sinni fyrr.
Hvað fyrirtækin varðar þýðir hófleg skuldsetning að mun minni hætta en ella er á því að erfiðleikar í þeim geirum sem fyrst verða fyrir áhrifum COVID-19 faraldursins leiði til almennra greiðsluerfiðleika og gjaldþrotahrinu í fyrirtækjaflórunni í heild. Af því leiðir þá einnig að stjórnvöld og fjármálakerfi eiga hægara um vik að beina úrræðum og aðstoð þangað sem þörfin er brýnust næsta kastið.
Síðast en alls ekki síst er svigrúm flestra heimila til þess að mæta tímabundnum atvinnumissi og tekjutapi umtalsvert. Þar við bætist að mun minni hætta er á því að hrein eign þeirra í íbúðarhúsnæði sínu gufi upp en var fyrir áratug síðan. Bæði hefur hlutfall verðtryggðra lána lækkað nokkuð og eins teljum við að því séu takmörk sett hvað krónan muni falla mikið á komandi vikum og mánuðum vegna þess hversu sterk erlend staða þjóðarbúsins er og gjaldeyrisvasar Seðlabankans djúpir. Verðbólguskot vegna gengisfalls verður því að öllum líkindum talsvert hóflegra og heggur minna í eignastöðu og kaupmátt almennings en var fyrir áratug síðan.
Það er orðið ljóst að íslenskt hagkerfi stendur frammi fyrir verulegri áraun og margir munu verða fyrir umtalsverðum búsifjum á komandi fjórðungum. Sá lærdómur sem dreginn var af óförum síðasta áratugar og sú ráðdeild sem heimili, fyrirtæki og hið opinbera hafa sýnt mun þó reynast okkur afar dýrmætt veganesti inn í þessa erfiðleika og að mati okkar létta róðurinn umtalsvert við að takast á við þá og koma hjólum hagkerfisins á góðan snúning á nýjan leik í kjölfarið.