Hversu hratt kólnar hagkerfið 2: Framhaldsmyndin

Nýjustu hagtölur og uppfærð aðferð Seðlabankans við birtingu á kortaveltugögnum hefur breytt nokkuð myndinni af nærhorfum í hagkerfinu. Líkur á samdrætti í umsvifum ferðaþjónustunnar í ár hafa minnkað og meiri seigla virðist vera í einkaneyslu en fyrri gögn bentu til. Kólnun hagkerfisins er því líklega hægari en við væntum og útlit er fyrir hagvöxt í takti við vorspá Greiningar.



Við fjölluðum fyrir nokkrum vikum um þá mynd sem okkur virtist vera að teiknast upp af hagþróun á komandi fjórðungum. Var niðurstaða okkar þá sú að útlit væri fyrir áframhaldandi kólnun hagkerfisins á seinni helmingi ársins og að hagvöxtur yrði trúlega býsna lítill. Þá fjölluðum við einnig nýlega um fremur laka byrjun á háönn ferðþjónustunnar sem er vitaskuld mikilvægur þáttur í nærhorfum fyrir hagkerfið allt.

Skemmst er frá því að segja að frá því við gáfum út þá greiningu hefur myndin um stöðu og nærhorfur í hagkerfinu breyst nokkuð. Annars vegar gefa nýjustu hagtölur nokkuð aðra mynd af stöðu ferðaþjónustu en fyrri tölur og hins vegar breytti uppfærð aðferðafræði Seðlabankans við gagnasöfnun á greiðslukortaveltu talsvert myndinni af þróun bæði neysluútgjalda heimila sem og tekna af erlendum ferðamönnum undanfarna fjórðunga. Það er því rétt að fara aftur yfir sviðið og rýna í stöðuna og horfurnar á ný með hliðsjón af þessu.

Meiri seigla í einkaneyslu en áður virtist

Lítum fyrst á kortaveltu innlendra korta. Með aukinni hlutdeild erlendra aðila í greiðslumiðlun fyrir innlend fyrirtæki undanfarin misseri varð til vaxandi skekkja í eldri gögnum Seðlabankans sem vanmátu þá aukningu sem raunverulega varð á kortaveltu innlendra aðila. Má þar nefna að áhrifin af breyttu aðferðafræðinni urðu til ríflega 34 ma.kr. hækkunar á veltu innlendra greiðslukorta á fyrri helmingi þessa árs, eða sem nemur 5% í krónum talið. Við höfum undanfarið tekið gögnum um veltu erlendra korta með miklum fyrirvara, en þessi mikla breyting á veltutölum innlendra korta kom okkur hins vegar nokkuð á óvart.

Okkur reiknast til að samkvæmt hinum nýju tölum hafi ekki orðið samdráttur að raunvirði í kortaveltu heimila í júnímánuði heldur þvert á móti ríflega 4% vöxtur. Í júlí var vöxturinn, leiðrétt fyrir gengis- og verðlagsbreytingum, svo rúm 3%. Það er vissulega mun hægari vöxtur en fyrir nokkrum misserum síðan en er þó ekki beinlínis til marks um að heimilin séu að herða neyslubeltin verulega þessa dagana þrátt fyrir háa vexti, lítinn kaupmáttarvöxt og dvínandi væntingar almennings um horfur í efnahagslífinu. Hér þarf þó að hafa í huga að landsmönnum hefur fjölgað býsna hratt undanfarna fjórðunga. Samkvæmt tölum Þjóðskrár fjölgaði þannig íbúum samtals um 1,6% frá desemberbyrjun í fyrra fram til júlíloka í ár. Kortaveltan virðist því vera að vaxa eilítið hraðar en sem nemur fólksfjölgun um þessar mundir. Það ber einnig að hafa í huga að kortaveltutölur ná ekki að endurspegla bílakaup, en nýskráningar bifreiða til einstaklinga hafa skroppið verulega saman það sem af er ári miðað við sama tíma í fyrra.

Verður samdráttur í ferðaþjónustu í ár?

Víkur þá sögunni að ferðaþjónustunni. Við fjölluðum nýverið um þá mynd sem virtist vera að teiknast upp af lítilsháttar bakslagi í ferðaþjónustu þetta árið í ljósi gagna um ferðamannafjölda og tengda hagvísa sem sýndu samdrátt á öðrum fjórðungi ársins. Töldum við þá líklegra að ferðamenn í ár verði eitthvað færri en í fyrra fremur en þeim fjölgi milli ára.

Frá því framangreind greining kom út hefur tvennt gerst:

  • Gistináttatölur fyrir júní og tölur um brottfarir um Keflavíkurflugvöll í júlí draga upp talsvert hagfelldari mynd en gögn fyrir mánuðina á undan.
  • Fyrrnefnd endurskoðun á aðferðafræði við söfnun og úrvinnslu kortaveltugagna leiðir til þess að velta erlendra korta hér á landi mælist nú nærri 16 ma.kr. meiri á fyrri helmingi þessa árs en fyrri tölur gáfu til kynna.

Í júlí fjölgaði erlendum ferðamönnum um Keflavíkurflugvöll um hálfa prósentu frá sama tíma í fyrra. Þetta varð þrátt fyrir umtalsverða fækkun í hópi tveggja fjölmennustu þjóðanna milli ára. Þannig fækkaði Bandaríkjamönnum um tæp 13% frá júlí í fyrra og Þjóðverjum fækkaði á sama tíma um 16%. Á móti fjölgaði ferðafólki frá Kanada, Norðurlöndunum, Bretlandi og ýmsum Asíuríkjum umtalsvert.

Júlí var fyrsti mánuðurinn frá mars sl. þar sem brottfaratalning á Keflavíkurflugvelli mældi fjölgun erlendra farþega milli ára eftir krappan samdrátt í júní og hóflega fækkun í apríl og maí. Það sem af er ári hefur erlendu ferðafólki á þennan mælikvarða fjölgað um tæpa prósentu. Verður fróðlegt að sjá hvernig ágústmánuður kemur út að þessu leyti enda hefur hann verið fjölmennastur mánaða síðustu ár á þennan kvarða.

Þá leiddu gistináttatölur Hagstofunnar í ljós að þrátt fyrir 9% fækkun í brottförum erlends ferðafólks um Keflavíkurflugvöll í júní fækkaði gistinóttum þeirra hjá skráðum gististöðum einungis um 1% milli ára. Að því gefnu að ekki sé umtalsverð skekkja í gögnunum lítur því út fyrir að hver ferðamaður hafi dvalið allnokkuð lengur að jafnaði á landinu þetta árið en í júní í fyrra.

Það rímar svo nokkuð vel við uppfærð kortaveltugögn sem sýna að velta erlendra korta í júní dróst einungis saman um 2% frá júní í fyrra í krónum talið þrátt fyrir fyrrnefnda fækkun farþega um KEF. Nýbirtar kortatölur júlímánaðar slógu svo met í veltu erlendra korta í krónum talið. Nam veltan ríflega 47 ma.kr. og jókst í krónum talið um tæp 6% frá sama mánuði í fyrra.

Í sem stystu máli eru horfur um háönn ferðaþjónustunnar, sem vegur þungt í heildarumfangi ársins í greininni, öllu skárri en ætla mátti fyrir nokkrum vikum síðan. Það eru því ekki endilega meiri líkur á fækkun ferðamanna en fjölgun og trúlega verður heildarfjöldi ferðafólks í ár svipaður og í fyrra, nema haustið breyti myndinni þeim mun meira frá því sem nú virðist blasa við.

Hversu mikið hefur myndin af nærhorfum í efnahagslífinu svo breyst? Eftir sem áður benda ýmsir hagvísar til þess að hagkerfið haldi áfram að kólna það sem eftir lifir árs. Væntingar almennings til stöðu og horfa hafa minnkað og hugur þeirra til stórkaupa sömuleiðis. Það tengist ekki síst háum vöxtum sem og þrálátri verðbólgu sem verður til þess að kaupmáttur launa mun að jafnaði lítið breytast í ár.

Þá hefur orðið greinilegur viðsnúningur í ráðningaráformum fyrirtækja, vanskil eru tekin að aukast á suma mælikvarða og leiðandi hagvísir Analytica bendir til minni vaxtar á næstunni en verið hefur. Það eru því eftir sem áður teikn um að aðlögun hagkerfisins eftir myndarlegt vaxtarskeið muni halda áfram á komandi fjórðungum. Hins vegar gæti sú aðlögun orðið hægari en útlit var fyrir þegar við tókum síðast stöðuna, hagvöxtur í ár orðið í námunda við það 0,9% sem við spáðum í maí, vinnumarkaður haldist lengur fremur spenntur og þar fram eftir götunum. Þótt það séu að mörgu leyti styrkleikamerki er hin hliðin á peningnum sú að lengra virðist í að kólnun hagkerfisins ein og sér verði nægilega afgerandi til þess að kalla á lækkun stýrivaxta að öðru óbreyttu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband