Við fjölluðum fyrir nokkrum vikum um þá mynd sem okkur virtist vera að teiknast upp af hagþróun á komandi fjórðungum. Var niðurstaða okkar þá sú að útlit væri fyrir áframhaldandi kólnun hagkerfisins á seinni helmingi ársins og að hagvöxtur yrði trúlega býsna lítill. Þá fjölluðum við einnig nýlega um fremur laka byrjun á háönn ferðþjónustunnar sem er vitaskuld mikilvægur þáttur í nærhorfum fyrir hagkerfið allt.
Skemmst er frá því að segja að frá því við gáfum út þá greiningu hefur myndin um stöðu og nærhorfur í hagkerfinu breyst nokkuð. Annars vegar gefa nýjustu hagtölur nokkuð aðra mynd af stöðu ferðaþjónustu en fyrri tölur og hins vegar breytti uppfærð aðferðafræði Seðlabankans við gagnasöfnun á greiðslukortaveltu talsvert myndinni af þróun bæði neysluútgjalda heimila sem og tekna af erlendum ferðamönnum undanfarna fjórðunga. Það er því rétt að fara aftur yfir sviðið og rýna í stöðuna og horfurnar á ný með hliðsjón af þessu.
Meiri seigla í einkaneyslu en áður virtist
Lítum fyrst á kortaveltu innlendra korta. Með aukinni hlutdeild erlendra aðila í greiðslumiðlun fyrir innlend fyrirtæki undanfarin misseri varð til vaxandi skekkja í eldri gögnum Seðlabankans sem vanmátu þá aukningu sem raunverulega varð á kortaveltu innlendra aðila. Má þar nefna að áhrifin af breyttu aðferðafræðinni urðu til ríflega 34 ma.kr. hækkunar á veltu innlendra greiðslukorta á fyrri helmingi þessa árs, eða sem nemur 5% í krónum talið. Við höfum undanfarið tekið gögnum um veltu erlendra korta með miklum fyrirvara, en þessi mikla breyting á veltutölum innlendra korta kom okkur hins vegar nokkuð á óvart.