Hversu hratt kólnar hagkerfið?

Nýleg gögn og leiðandi hagvísar benda til þess að hagkerfið muni halda áfram að kólna á komandi fjórðungum. Væntingar almennings hafa lækkað en mælingar á væntingum fyrirtækja eru nokkuð misvísandi. Hagvöxtur verður trúlega minni í ár en við gerðum ráð fyrir í vor.


Vísbendingum um kólnun íslenska hagkerfisins hefur fjölgað nokkuð það sem af er sumri. Kólnunin um þessar mundir er af tvennum toga:

  • Útflutningur þjónustu og vöru hefur minni meðbyr en ætla mátti fyrr á árinu og horfur um útflutningsvöxt þetta árið hafa versnað.
  • Hagvísar og væntingakannanir sem birst hafa á undanförnum vikum vísa eindregnar til hjaðnandi eftirspurnarspennu innanlands en áður.

Útlit fyrir einhvern samdrátt í útflutningi

Lítum fyrst á útflutningshliðina. Við fjölluðum nýlega um horfur í ferðaþjónustu þar sem slegið hefur nokkuð í bakseglin og samdráttur milli ára virðist jafnvel líklegri en vöxtur. Breyttar horfur í þessari stærstu einstöku útflutningsgrein landsins hafa talsverð áhrif á fjölmargar efnahagsstærðir líkt og við röktum í fyrrnefndu Korni. Í vöruútflutningi liggur þegar fyrir að loðnubrestur og orkuskerðing til álvera hafði neikvæð áhrif á fyrri helmingi ársins. Þá hljóðar ráðgjöf Hafró um aflamark á næsta fiskveiði ári upp á lítilsháttar aukningu í þorskkvóta en heilt yfir sýnist okkur ráðgjöfin leiða til fremur lítilla breytinga á útflutningsverðmæti fiskafla. Líklega mun útflutningur vöru og þjónustu dragast hóflega saman í ár frá fyrra ári, en í maí spáðum við 0,4% vexti milli ára.

Hægir á kortaveltuvexti..

Þá víkur sögunni að innlendri eftirspurn þar sem fjárfesting og einkaneysla leika hvað stærst hlutverk. Nokkur seigla reyndist vera í báðum þessum liðum á fyrsta fjórðungi ársins og óx fjármunamyndun um 2,4% en einkaneysla um 0,2% milli ára. Margt bendir til þess að þessi sama seigla hafi náð fram í annan ársfjórðung. Til að mynda óx kortavelta heimila um 4,5% að raunvirði í maí og hafði þá ekki vaxið meira milli ára á þennan mælikvarða síðan í janúar í fyrra.

Í júní varð hins vegar lítilsháttar samdráttur í kortaveltunni, leiðrétt fyrir verðlags- og gengisbreytingum. Þar togaðist á annars sver tæplega 2% samdráttur í kortaveltu innanlands og hins vegar ríflega 5% aukning milli ára í veltu utan landsteinanna. Síðarnefnda talan endurspeglar væntanlega ríflega 17% fjölgun í brottförum Íslendinga um Keflavíkurflugvöll milli ára í júnímánuði, sem nærtækt er að skrifa á kaldan og votviðrasaman júnímánuð hér á landi.

..og væntingar almennings taka dýfu

Aðrir mælikvarðar benda þó eindregnar til þess að heimilin séu fremur að draga saman seglin en hitt. Þannig lækkaði væntingavísitala Gallup verulega í júnímánuði. Júnígildi hennar var 75,4 sem er lægsta mæling hennar frá október í fyrra. Í júlí lyftist brún neytenda aðeins á nýjan leik en júlígildi vísitölunnar (83,1) var þó það næstlægsta á árinu. Ársfjórðungsleg stórkaupavísitala, sem mælir fyrirhuguð kaup landsmanna á húsnæði, bifreiðum og utanlandsferðum, lækkaði einnig milli mælinga í júní. Þá skrapp nýskráning bifreiða til einstaklinga saman um tæplega 50% í mánuðinum, en krappur samdráttur í slíkum nýskráningum hefur einkennt allt þetta ár.

Tvær kannanir, ólík niðurstaða hjá fyrirtækjastjórnendum

Nýlegar mælingar á væntingum stjórnenda stærri fyrirtækja benda einnig til þess að verið sé að pakka í vörn í vaxandi mæli á þeim vettvangi. Nýlega fjölluðum við um breytt áform fyrirtækjastjórnenda um starfsmannahald í nýlegum könnunum sem benda til þess að draga muni úr eftirspurn eftir vinnuafli á komandi fjórðungum.

Þegar kemur að öðrum þáttum sem stjórnendur stærri fyrirtækja tóku afstöðu til er myndin hins vegar nokkuð misvísandi. Bjartsýni um  virðist þannig hafa aukist meðal svarenda í könnun Gallup fyrir Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins sem framkvæmd var á vordögum. Var mat stjórnendanna bæði á aðstæðum í efnahagsmálum og horfum til sex mánaða það hæsta frá fyrri árshelmingi 2022.

Annað var uppi á teningnum í könnun sem Deloitte gerði meðal fjármálastjóra í 300 stærstu fyrirtækjum landsins og er hluti af slíkri könnun fyrirtækisins og systurfyrirtækja þess meðal 13 Evrópulanda. Í fyrravor voru íslenskir fjármálastjórar mun bjartsýnni á þróun tekna, fjárfestinga og ráðninga nýrra starfsmanna en starfssystkin þeirra í öðrum Evrópulöndum. Í vor höfðu væntingar íslensku svarendanna hins vegar tekið dýfu og voru undir meðaltali Evrópulanda hvað tekjuvöxt, starfsmannahald og fjárfestingar varðaði.

Í niðurstöðum könnunarinnar kom einnig fram á vaxtastig væri stærsti áhættuþátturinn í rekstri innlendra fyrirtækja og verðbólga kæmi þar á eftir. Þá taldi fimmtungur íslenskra fjármálastjóra að fjárhagslegar horfur hefðu bannað á undanförnum 3 mánuðum samanborið við ríflega þriðjung að jafnaði hjá kollegum þeirra í Evrópu.

Þetta misræmi í svörum í könnunum tveimur er áhugavert þar sem þær virðast hafa verið gerðar um svipað leyti, þ.e. í apríl-maí. Fyrir lok 3ja ársfjórðungs birtast svo nýjar niðurstöður úr könnun Gallup meðal stjórnenda og verður forvitnilegt að sjá hvort betra samræmi verður þar við könnun Deloitte.

Leiðandi hagvísir lækkar

Síðast en ekki síst er fróðlegt að skoða samsettan leiðandi hagvísi fyrir íslenska hagkerfið sem ráðgjafarfyrirtækið Analytica heldur utan um og tekur mið af aðferðafræði OECD. Leiðandi hagvísirinn hefur lækkað jafnt og þétt undanfarin 2 ár. Í júní var gildi hagvísisins það lægsta í 3 ár. Hagvísir Analytica er byggður bæði á gögnum um innlenda eftirspurn (debetkortavelta, innflutningur, væntingavísitala Gallup) sem og útflutning (ferðamannafjöldi, aflamagn) ásamt heimsvísitölu hlutabréfa.

Eins og sjá má af myndinni fylgir vaxtartakturinn í hagkerfinu allvel eftir breytingum á leiðandi hagvísinum enda er honum ætlað að gefa vísbendingu um þróun hagkerfisins eftir 6 mánuði eða svo. Hann er því í takti við ýmsar aðrar vísbendingar um að hagkerfið fari áfram kólnandi. Góðu heilli bendir þó fátt til þess enn sem komið er að sú kólnun verði fram úr hófi og má frekar skoða hana sem leitni að betra jafnvægi í hagkerfinu eftir þenslutíma. Það er þó útlit fyrir að hagvöxtur í ár verði lítill og virðist spá okkar frá maí sl. um 0,9% vöxt vera í bjartsýnna lagi.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband