Vísbendingum um kólnun íslenska hagkerfisins hefur fjölgað nokkuð það sem af er sumri. Kólnunin um þessar mundir er af tvennum toga:
- Útflutningur þjónustu og vöru hefur minni meðbyr en ætla mátti fyrr á árinu og horfur um útflutningsvöxt þetta árið hafa versnað.
- Hagvísar og væntingakannanir sem birst hafa á undanförnum vikum vísa eindregnar til hjaðnandi eftirspurnarspennu innanlands en áður.
Útlit fyrir einhvern samdrátt í útflutningi
Lítum fyrst á útflutningshliðina. Við fjölluðum nýlega um horfur í ferðaþjónustu þar sem slegið hefur nokkuð í bakseglin og samdráttur milli ára virðist jafnvel líklegri en vöxtur. Breyttar horfur í þessari stærstu einstöku útflutningsgrein landsins hafa talsverð áhrif á fjölmargar efnahagsstærðir líkt og við röktum í fyrrnefndu Korni. Í vöruútflutningi liggur þegar fyrir að loðnubrestur og orkuskerðing til álvera hafði neikvæð áhrif á fyrri helmingi ársins. Þá hljóðar ráðgjöf Hafró um aflamark á næsta fiskveiði ári upp á lítilsháttar aukningu í þorskkvóta en heilt yfir sýnist okkur ráðgjöfin leiða til fremur lítilla breytinga á útflutningsverðmæti fiskafla. Líklega mun útflutningur vöru og þjónustu dragast hóflega saman í ár frá fyrra ári, en í maí spáðum við 0,4% vexti milli ára.