Eftir viðburðaríkt ár er fróðlegt að fara yfir hvers almenningur, fyrirtækjastjórnendur og fólk á fjármálamörkuðum væntir af komandi ári.
Væntingar almennings virðast hafa náð jafnvægi eftir talsverðar sveiflur á árinu. Væntingavísitala Gallup (VVG) mældist tæp 99 stig í desember, sjónarmun frá jafnvægisgildinu 100 sem markar skilin milli bjartsýni og svartsýni hjá íslenskum heimilum. Væntingar til 6 mánaða um ástandið í atvinnu- og efnahagsmálum mældust ríflega 95 stig í vísitöluútreikningi Gallup. Það þýðir að þau sem töldu að um mitt ár 2023 yrði efnahags- og atvinnuástandið lakara en núverandi staða voru heldur fleiri en hin sem bjuggust við betri tíð að hálfu ári liðnu. Eins og sést af myndinni hefur þó svartsýni á komandi tíma oft verið mun útbreiddari (þ.e. guli ferillinn fyrir neðan jafnvægisgildið) en nú.