„Það er betra að vera of snemma í því en of seinn“ sagði rithöfundurinn Christopher Hitchens aðspurður hvort hann væri ekki of ungur, rétt sextugur maðurinn, til að rita endurminningar sínar.
Kannski er þetta rétta nálgunin. Við vitum svo sem aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér, betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi og þar fram eftir götunum. Hvað sjáum við til dæmis fyrir okkur þegar við verðum eldri? Langar okkur að vinna eins lengi og heilsan leyfir eða hætta fyrr og sinna áhugamálunum? Þegar við erum nógu ung til að geta haft raunveruleg áhrif á þá valkosti sem við komum til með að hafa á lífeyrisaldri er því miður ólíklegt að við höfum mikinn áhuga á að velta okkur upp úr lífeyrismálunum. En kostirnir eru þó ótvíræðir og fyrirhafnarinnar virði.
Að geta valið
Fæst okkar munu að óbreyttu geta haft nema tiltölulega fáa valkosti þegar kemur að starfslokum, enda getur verið mjög kostnaðarsamt að haga þeim með öðrum hætti en almennt er reiknað með á vinnumarkaði. Á undanförnum árum hafa verið stigin stór skref til að auka sveigjanleika hvað starfslokamál varðar. Svigrúm til lífeyristöku hefur verið aukið stórlega, boðið hefur verið upp á töku hálfs lífeyris og deilingu hans með maka og vinnustaðir bjóða margir hverjir upp á skert starfshlutfall. Allt ætti þetta að verða til þess að við getum hvert og eitt hagað okkar starfslokum eins og okkur hentar og okkur líður best með. En, svo ég endurtaki mig, þessi sveigjanleiki getur verið það kostnaðarsamur að fyrir marga er ekki raunhæft að nýta hann.