Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvernig langar þig að hafa það?

Ég veit ekki hvernig ég vil haga starfslokunum þegar þar að kemur en ég er þó handviss um eitt; ég vil vera í aðstöðu til að geta valið.


„Það er betra að vera of snemma í því en of seinn“ sagði rithöfundurinn Christopher Hitchens aðspurður hvort hann væri ekki of ungur, rétt sextugur maðurinn, til að rita endurminningar sínar.

Kannski er þetta rétta nálgunin. Við vitum svo sem aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér, betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi og þar fram eftir götunum. Hvað sjáum við til dæmis fyrir okkur þegar við verðum eldri? Langar okkur að vinna eins lengi og heilsan leyfir eða hætta fyrr og sinna áhugamálunum? Þegar við erum nógu ung til að geta haft raunveruleg áhrif á þá valkosti sem við komum til með að hafa á lífeyrisaldri er því miður ólíklegt að við höfum mikinn áhuga á að velta okkur upp úr lífeyrismálunum. En kostirnir eru þó ótvíræðir og fyrirhafnarinnar virði.

Að geta valið

Fæst okkar munu að óbreyttu geta haft nema tiltölulega fáa valkosti þegar kemur að starfslokum, enda getur verið mjög kostnaðarsamt að haga þeim með öðrum hætti en almennt er reiknað með á vinnumarkaði. Á undanförnum árum hafa verið stigin stór skref til að auka sveigjanleika hvað starfslokamál varðar. Svigrúm til lífeyristöku hefur verið aukið stórlega, boðið hefur verið upp á töku hálfs lífeyris og deilingu hans með maka og vinnustaðir bjóða margir hverjir upp á skert starfshlutfall. Allt ætti þetta að verða til þess að við getum hvert og eitt hagað okkar starfslokum eins og okkur hentar og okkur líður best með. En, svo ég endurtaki mig, þessi sveigjanleiki getur verið það kostnaðarsamur að fyrir marga er ekki raunhæft að nýta hann.

Þegar við erum nógu ung til að geta haft raunveruleg áhrif á þá valkosti sem við komum til með að hafa á lífeyrisaldri er því miður ólíklegt að við höfum mikinn áhuga á að velta okkur upp úr lífeyrismálunum.

Greiðslur úr lífeyrissjóðum hafa vissulega aukist mikið á undanförnum árum og koma til með að vaxa enn frekar en fyrir flesta er hæpið að greiðslur þaðan nægi til fjármagna mikið meira en hefðbundna daglega neyslu. Við þurfum því að kveikja á perunni fyrr á lífsleiðinni og undirbúa okkur almennilega. Ég er sjálfur sæll og glaður í minni vinnu en hef ekki nokkra minnstu hugmynd um hvernig mér mun líða eftir 20-30 ár. Ég veit ekki hvernig ég vil haga starfslokunum þegar þar að kemur en ég er þó handviss um eitt; ég vil vera í aðstöðu til að geta valið. Væri það ekki notalegt? Væti ekki yndislegt að geta minnkað við sig vinnu, hætt henni jafnvel alveg eða tekið annarri skemmtilegri sem skilar þó lægri tekjum í vasann, ef mig langar það á þeim tíma? Að geta búið hluta ársins erlendis, sinnt áhugamálum og fjölskyldu, ferðast, notið menningar og lífsins almennt? Ég vil geta valið, en til þess þarf ég að koma mér í þá stöðu.

Byrjum snemma

Vissulega er ég hér að tala um lúxus sem langt í frá allir geta nýtt sér. Fjárhagsstaða fólks er misjöfn og í mörgum tilvikum verður ekkert svigrúm til þess að byggja upp varasjóð. Ég tel mig þó vita að fjölmargir hefðu gott af því að hugsa með þessum hætti sem í dag ætla, meðvitað eða ekki, að treysta að fullu á lífeyrissjóðinn og eftir atvikum Tryggingastofnun að lokinni starfsævi. Á þeim liðlega 300 erindum sem ég hef haldið um lífeyrismál hef ég veitt því athygli að langflestir gesta kynna sér málin í fyrsta skipti rétt þegar komið er að starfslokum. Endrum og sinnum rekst ég þó á skælbrosandi fólk sem ákvað á sínum tíma að undirbúa sig með þeim hætti sem ég nefndi að framan. Í sumum tilvikum ætlar fólk sér að hætta snemma að vinna, öðrum stundum skal jafnvel fjármagna sveigjanleg starfslok eða skert starfshlutfall en í öllum tilvikum er sömu söguna að segja, það eru allir lifandis fengnir því að hafa staðið í þessu og geta í dag valið.

Að setja sér þá reglu að kaupa aldrei neitt og borga síðar þýðir að við getum greitt okkur sjálfum vexti í stað þess að leka mánaðarlega dýrmætu sparifé til annarra.

Það er lykilatriði að byrja snemma. Því fyrr sem við hefjumst handa, því ódýrara verður það. Viðbótarlífeyrissparnaður er sennilega hagkvæmasta leiðin og sannarlega getur munað um hann. Frjáls sparnaður til viðbótar getur þó einnig verið nauðsynlegur og til að ákvarða sparnaðarfjárhæð er gagnlegt að leita aðstoðar þar til gerðrar reiknivélar. Það segir sig sjálft að til þess að sparnaður gangi sem best er mikilvægt að forðast öll neyslulán eins og heitan eldinn. Að setja sér þá reglu að kaupa aldrei neitt og borga síðar þýðir að við getum greitt okkur sjálfum vexti í stað þess að leka mánaðarlega dýrmætu sparifé til annarra. Rétt eins og hvað annan sparnað varðar er best að hann sé sjálfvirkur og mánaðarlegur, þannig höldum við þetta út.

Ég ætla nú seint að halda því fram að sá tími sem þið verjið í töfraheim lífeyrismálanna láti ykkur gleyma Covid og sé besta skemmtunin í bænum en er ekki tilvalin áskorun, nú í upphafi árs, að slá til og gera sjálfum ykkur greiða sem þið verðið ævinlega þakklát fyrir?

Greinin birtist fyrst í Innherja

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Hafa samband