Undanfarið hefur stöðutaka viðskiptavina bankanna með krónunni hins vegar vaxið myndarlega á nýjan leik. Var hrein staða framvirkra samninga 174 ma.kr. í janúarlok, sem jafngildir 27 ma.kr. aukningu frá desemberbyrjun. Fyrirtæki og fjárfestar verja sig því aftur í auknum mæli gegn hugsanlegri styrkingu krónu, nú eða þá veðja á slíka styrkingu á komandi mánuðum.
Líkur á meðvindi með krónu aukast með tímanum
Eins og við fórum yfir í nýlegri þjóðhagsspá okkar aukast líkur á meðvindi með krónunni jafnt og þétt á komandi fjórðungum. Útlit er fyrir afar myndarlegt ferðamannasumar og -haust, loðnuvertíðin sem nú er að ljúka mun væntanlega skila meiri útflutningstekjum en útlit var fyrir í ársbyrjun, verð á sjávarafurðum er almennt hátt og talsverður vöxtur framundan bæði í útflutningi á eldisfiski og í þjónustugreinum á borð við hugverkasmíð og sérfræðiþjónustu.
Vissulega eru líka horfur á allnokkrum vexti á innflutningshliðinni næsta kastið en líklega verður slíkur vöxtur talsvert hóflegri en sá tæplega 20% vöxtur sem mældist í fyrra í magni mælt. Halli á viðskiptum með vörur og þjónustu ætti því að verða nokkru minni en í fyrra og viðskiptahallinn í heild sömuleiðis öllu hóflegri.
Líklega veltur gengisþróun krónu á komandi fjórðungum því í minni mæli en undanfarið á því hvort umtalsverður halli er á utanríkisviðskiptum og vaxandi mæli frekar á því hvort innflæði vegna fjárfestinga erlendra aðila og/eða erlendra lánveitinga til innlendrar fjárfestingar vegur upp útflæði vegna t.d. gjaldeyriskaupa lífeyrissjóðanna. Þar er vert að nefna að fjárfesting erlendra aðila í íslenskum verðbréfum er enn með minna móti og útlit er fyrir að innlendur verðbréfamarkaður tengist í meiri mæli alþjóðlegum mörkuðum, til dæmis með innleiðingu innlendra hlutabréfa í fleiri alþjóðlegar vísitölur. Þá gæti erlend fjármögnun orðið vænlegur hluti af fjármögnun fjárfestingar í til dæmis innviðum og útflutningsgreinum sem munu kalla á umtalsverða fjármögnun á komandi misserum.