Fjárfestar virðast eiga í bölvuðum vandræðum með að mynda sér skoðun á kaupum ríkasta manns heims á samfélagsmiðlinum Twitter. Frá því Elon Musk tryggði sér ríflega 9% hlut í fyrirtækinu fyrir rúmum mánuði síðan hefur hlutabréfaverð þess ítrekað sveiflast um allt að 10% innan dags og réði fréttaflutningur af enn frekari kaupum hans þar miklu.
Nú virðist þetta þó meira og minna frágengið og því sem næst allt fyrirtækið á leið í hendur Musk. Hann hefur fengið í það minnsta 18 fjársterka aðila með sér í lið og tryggt sér lánsfjármögnun með veði í hlutabréfum hans í Tesla. Við ættum því að geta snúið okkur að því að ræða hvers vegna í ósköpunum hann vill greiða 6.000 milljarða króna fyrir samfélagsmiðil sem virðist vera fyrirmunað að sýna ásættanlega arðsemi.