Eftir hægfara veikingu krónu frá miðju ári styrkist krónan um tæp 3% í seinni hluta nóvembermánaðar. Gengi krónu hefur það sem af er desembermánuði að jafnaði verið u.þ.b. 3% sterkara en það var í ársbyrjun. Gengi krónu er hins vegar enn u.þ.b. 7% veikara en það var að jafnaði á árinu 2019, áður en Kórónuveirufaraldurinn skall á. Eins og sjá má af myndinni virðist þokkalegt jafnvægi hafa verið á markaði það ár á heildina litið.
Hvað á krónan inni?
Allgott jafnvægi virðist ríkja á gjaldeyrismarkaði um þessar mundir en krónan er þó enn talsvert veikari en hún var árið fyrir faraldur. Gengisþróun krónu á faraldurstímanum er áþekk þróun annarra sambærilegra gjaldmiðla. Við teljum að krónan eigi inni styrkingu með vaxandi útflutningi á komandi misserum en framhaldið ræðst af því hvort verðbólga og launakostnaður þróast í samræmi við umheiminn.
Allgott jafnvægi virðist ríkja á gjaldeyrismarkaði þessa dagana og hafa afskipti Seðlabankans af millibankamarkaði með gjaldeyri verið fremur lítil frá miðju ári eftir talsverð umsvif á þeim markaði frá upphafi faraldurs og allt fram undir mitt ár. Raunar var nóvembermánuður sá fyrsti frá því faraldurinn skall á þar sem bankinn átti engin viðskipti á gjaldeyrismarkaði miðað við gögn á heimasíðu hans. Frá áramótum nemur hrein sala Seðlabankans á gjaldeyri úr forðanum 141 m. evra en til samanburðar var hrein sala bankans úr gjaldeyrisforðanum ríflega 830 m. evra á síðasta ári.
Krónuþróun á sér hliðstæður
Þróun krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum er ekki einsdæmi og hafa töluverðar sveiflur verið á gengi þeirra landa sem helst eru samanburðarhæf við Ísland hvað það varðar að vera fremur smá í alþjóðlegum samanburði, eiga mikið undir utanríkisviðskiptum og búa við fljótandi gjaldmiðil og sjálfstæða peningastefnu. Almennt veiktust gjaldmiðlar slíkra landa í upphafi faraldurs og var veikingin sér í lagi áberandi hjá löndum þar sem ferðaþjónusta spilar stórt hlutverk í hagkerfinu. Eins og oft vill verða í mótlæti á mörkuðum flúðu margir aðilar á gjaldeyrismarkaði í náðarfaðm öryggis og seljanleika stærstu gjaldmiðlanna þegar óvissa tengd faraldrinum magnaðist.
Eins og sjá má af myndinni hefur þróun slíkra mynta gagnvart evru verið með ýmsu móti eftir að upphaflega veikingarhrinan gekk yfir. Í grófum dráttum er krónan um þessar mundir á svipuðum slóðum og t.d. pólska slotið, ungverska forintan og S.Afríska randið gagnvart evrunni. Hér ber líka að halda til haga að evran hefur sjálf sveiflast talsvert á þessu ári gagnvart öðrum meginmyntum. Til að mynda er gengi hennar gagnvart Bandaríkjadollar nærri 8% lægra um þessar mundir en það var í ársbyrjun.
Raungengið segir mismunandi sögur
Þótt nafngengi krónu sé enn talsvert lægra en það var fyrir faraldur þarf einnig að taka tillit til þróunar verðlags og launakostnaðar í samanburði við önnur lönd þegar mat er lagt á hversu mikið krónan „eigi inni“ í styrkingu þegar eðlilegra ástand skapast á ný í utanríkisviðskiptum eftir faraldur. Þar er raunar sú óvenjulega staða uppi að aldrei slíku vant sker Ísland sig ekki úr hvað verðbólgu varðar þótt vissulega sé hún umtalsverð hér á landi. Í nóvember var verðbólga 4,8% á Íslandi. Á sama tíma mældist verðbólga 6,8% í Bandaríkjunum, 4,9% á evrusvæðinu að jafnaði og mánuði eldri tölur fyrir Bretland hljóðuðu upp á 4,2%. Raungengi á mælikvarða hlutfallslegs verðlags hefur því þróast með áþekkum hætti og nafngengið undanfarið og er enn u.þ.b. 5% undir meðaltali ársins 2019 svo dæmi sé tekið.
Nokkuð aðra sögu er hins vegar að segja af raungenginu sé tekið mið af þróun launakostnaðar hér á landi sem og í helstu viðskiptalöndum. Miðað við nýjustu tölur Seðlabankans, sem ná fram til 3. fjórðungs þessa árs, er raungengið á þann mælikvarða komið á svipaðar slóðir og það var að jafnaði árið 2019 þótt það sé vissulega enn nokkru lægra en þegar krónan var sem sterkust eftir miðjan síðasta áratug. Þar ræður mestu að laun hafa undanfarið hækkað til muna hraðar en gengur og gerist í viðskiptalöndum Íslands.
Hversu sjálfbær yrði styrking krónu?
Erfitt er að festa fingur á hvar jafnvægið liggur í gengi krónu á komandi misserum. Þar kemur tvennt til:
- Í fyrsta lagi hefur ytra jafnvægi þjóðarbúsins batnað umtalsvert frá því sem var allt fram undir síðasta áratug. Erlend staða þjóðarbúsins hefur umturnast til hins betra og námu hreinar eignir þess erlendis ríflega 41% af VLF í lok september síðastliðins. Sú þróun kallast á við umskipti í utanríkisviðskiptum þar sem viðskiptaafgangur hefur verið reglan undanfarinn áratug eða svo, en heyrði áður til undantekninga. Þessi breyting til batnaðar styður við hærra jafnvægisgengi en ella væri.
- Í öðru lagi mun þróun verðbólgu og launakostnaðar ráða miklu um hversu mikið krónan getur styrkst án þess að sigi á ógæfuhliðina í utanríkisviðskiptunum vegna lakari samkeppnisstöðu og meiri kaupmáttar Íslendinga gagnvart umheiminum en innstæða er fyrir þegar til lengdar lætur
Við teljum þó sem fyrr að þegar betur fer að ára í utanríkisviðskiptunum með upptakti í ferðaþjónustu, myndarlegri loðnuvertíð og áframhaldandi vexti í útflutningi hugverka og vara á borð við eldisfisk og ýmsar iðnaðarvörur muni krónan styrkjast. Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í september síðastliðnum áætluðum við að krónan yrði að jafnaði u.þ.b. 6% sterkari á árinu 2023 en á árinu sem nú er að renna sitt skeið. Í grófum dráttum samsvarar það því að evran muni að jafnaði kosta í kring um 140 krónur, Bandaríkjadollarinn u.þ.b. 120 krónur og breska pundið verði í námunda við 165 krónur það ár. Vart þarf þó að taka fram hversu mikilli óvissu slík spá er háð varðandi tímasetningu og stærðargráðu á gengishreyfingunni. Auk þess miðar áætlað gengi hér að framan við meðalgengi þessara gjaldmiðla á yfirstandandi ári en eins og við höfum séð undanfarið er innbyrðis gengi þeirra síður en svo greipt í stein.
Það skiptir svo sköpum um framhaldið hvort tekst að koma böndum á verðbólguna og hvort launakostnaður að teknu tilliti til framleiðnivaxtar þróast í sæmilegu samræmi við viðskiptaþjóðir okkar. Þetta tvennt hangir svo vitaskuld saman. Verði sú ekki raunin gæti styrking krónu á komandi misserum reynst skammgóður vermir og krónan í kjölfarið siglt á ný á kunnuglegar slóðir veikingarleitni sem við þekkjum allt of vel frá fyrri tíð.