Hagvöxtur á lokafjórðungi síðasta árs var 0,6% samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Er það minnsti hagvöxtur frá því hagkerfið fór á annað borð að rétta úr kútnum á vordögum árið 2021. Samdráttur varð í einkaneyslu, fjárfestingu og útflutningi þjónustu milli ára og í raun var það að mestu leyti enn krappari samdrætti í innflutningi að þakka að vöxtur mældist á annað borð auk þess sem hóflegur vöxtur mældist í vöruútflutningi og samneyslu.
Hröð lending íslenska hagkerfisins
Mikill viðsnúningur varð í íslensku hagkerfi frá þenslu til aðlögunar á síðasta ári. Hagvöxtur á lokafjórðungi ársins var sá hægasti í tæp 3 ár og snarpur samdráttur í innflutningi er helsta ástæða þess að ekki mældist samdráttur á fjórðungnum. Horfur eru á áframhaldandi aðlögun hagkerfisins á yfirstandandi ári og benda nýlegir hagvísar til kólnunar hagkerfisins það sem af er ári.
Eins og myndin ber með sér urðu hálfgerð hamskipti á hagkerfinu innan ársins 2023. Þannig mældist hagvöxtur tæp 9% á fyrsta ársfjórðungi enda var þá þjónustuútflutningur, einkaneysla og fjárfesting enn að vaxa myndarlega. Með hverjum fjórðungi dró svo úr vextinum jafnt og þétt eftir því sem vöxtur neyslu og fjárfestingar snerist í samdrátt og verulega hægði á útflutningsvexti.
Jákvætt framlag utanríkisviðskipta
Sem fyrr sagði þá einkum þakka hagvöxtinn á lokafjórðungi síðasta árs 6% samdrætti í innflutningi sem kemur til hækkunar í þjóðhagsreikningunum. Svo snarpur hefur samdráttur innflutnings ekki verið í nærri þrjú ár og skýrist samdrátturinn bæði af hjaðnandi innlendri eftirspurn og minni aðfangaþörf útflutningsgreina.
Á hinn bóginn var útflutningur óbreyttur í magni mælt á 4. ársfjórðungi í fyrra. Er það í fyrsta sinn frá upphafsfjórðungi ársins 2021 sem ekki mælist vöxtur á útflutningshliðinni. Eins og myndin sýnir hefur þróunin í útflutningi verið snörp frá því að vaxa svo nemur tugum prósenta árin 2021-2022 yfir í stöðnun. Raunar óx vöruútflutningur um 3% á lokafjórðungi ársins en á móti vó að þjónustuútflutningur skrapp saman í fyrsta sinn frá fyrri hluta faraldurstímans. Þar eru efalítið meðal annars á ferð áhrif af jarðhræringum á Reykjanesi á ferðaþjónustuna á lokamánuðum ársins. Á heildina litið óx útflutningur um tæp 5% í fyrra en innflutningur um 1,4%. Framlag utanríkisviðskipta til vaxtar var 2,9%.
Heldur dró úr fjárfestingu í fyrra
0,6% samdráttur mældist í fjármunamyndun á síðasta ári og enn er undirliggjandi sagan hin sama um verulegan viðsnúning innan árs. Á það sér í lagi við um fjárfestingu atvinnuvega, sem vegur þyngra í þjóðhagsreikningum en fjárfesting hins opinbera og íbúðafjárfesting samanlagt. Á upphafsfjórðungi ársins óx fjármunamyndun atvinnuvega um tæp 10% í magni mælt, en á lokafjórðungi ársins var staðan orðin 15% samdráttur. Á heildina litið óx fjárfesting atvinnuvega um tæpa prósentu í fyrra.
Þróun íbúðafjárfestingar var hins vegar öfug við fjárfestingu atvinnuvega. Þar mældist tæplega 8% samdráttur í upphafi síðasta árs en á lokafjórðungi ársins var vöxturinn ríflega 9%. Er það fagnaðarefni eftir viðvarandi skort á nýbyggingum á markað misserin á undan og endurspeglast ekki síst í betra jafnvægi á íbúðamarkaði undanfarna fjórðunga eftir hraða hækkun íbúðaverðs fyrr á áratugnum. Á árinu í heild var íbúðafjárfesting nánast óbreytt frá árinu 2022.
Þriðji meginþáttur fjármunamyndunar, fjárfesting hins opinbera, dróst hins vegar saman um ríflega 6% í fyrra en sá liður er gjarnan býsna sveiflukenndur milli einstakra fjórðunga. Kemur sá samdráttur í kjölfar myndarlegs vaxtar árin á undan sem meðal annars skýrist af hagstjórnaraðgerðum hins opinbera til að lina höggið af faraldrinum á hagkerfið.
Heimilin drógu verulega úr neyslugleði
Einkaneysla er einn stærsti undirliður þjóðhagsreikninga og líkt og fyrr er getið varð viðsnúningur í henni innan síðasta árs eftir myndarlegan vöxt árin á undan. Þannig óx einkaneyslan um tæp 5% á upphafsfjórðungi síðasta árs. Á þriðja fjórðungi hafði einkaneysluvöxturinn hins vegar snúist í samdrátt og enn bætti í samdráttinn á lokafjórðungi ársins þegar hann mældist ríflega 2%. Á heildina litið óx einkaneysla um hálfa prósentu í fyrra. Að faraldursárinu 2020 slepptu hefur einkaneysla ekki vaxið hægar frá árinu 2010.
Samkvæmt frétt Hagstofunnar voru það ekki síst liðir einkaneyslunnar á borð við kaup á ökutækjum, matvöru, fatnaði og skóm og áfengi sem leiddu samdráttinn á 4. ársfjórðungi auk þess sem einkaneysluútgjöld vegna ferðalaga erlendis sýndu áframhaldandi samdrátt. Rímar það vel við hagvísa á borð við kortaveltutölur, brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll og veltutölur úr verslun á tímabilinu sem og þróun Væntingavísitölu Gallup.
Hröð lending eftir stutta en snarpa hagsveiflu
Hagvöxtur á árinu 2023 var 4,1% og er það nokkru meiri vöxtur en við höfðum áætlað. Það skýrist þó fyrst og fremst af endurmati á fyrri fjórðungum ársins og breytir ekki stóru myndinni um viðsnúning í hagkerfinu. Aðalstoð hagvaxtar í fyrra var myndarlegur vöxtur þjónustuútflutnings en auk þess skiluðu hagstæð vöruviðskipti og aukin neysla jákvæðu framlagi til vaxtar. Á móti vó samdráttur í fjármunamyndun.
Í fyrra fjölgaði vinnustundum í heild um 4,1% samkvæmt mati Hagstofu. Samkvæmt því hefur framleiðniaukning vinnuafls verið lítil sem engin og kaupmáttarvöxtur því líkast til staðið á fremur veikum grunni þótt rétt sem að túlka slíkar tölur varlega fyrir styttri tímabil.
Hagstofan endurskoðaði einnig árin á undan við birtingu þjóðhagsreikninga að þessu sinni. Voru árin 2020-2022 öll endurskoðuð til hækkunar. Þannig mældist nú 8,9% vöxtur árið 2022 í stað 7,2% í fyrri tölum, vöxturinn árið 2021 fór úr 4,5% í 5,1% og samdrátturinn 2020 er nú talinn hafa verið 6,9% í stað 7,2% samdráttar í fyrri tölum. Samkvæmt Hagstofunni munar þarna mestu um endurskoðun á atvinnuvegafjárfestingu sem talin er hafa verið töluvert vanmetin í fyrri tölum. Er rétt að hafa bak við eyrað þegar tölur síðasta árs eru skoðaðar að þær kunna einnig að verða endurskoðaðar talsvert í seinni uppfærslum líkt og raunin var um árin 202-2022 að þessu sinni.
Í þjóðhagsspá okkar sem birt var í janúarlok spáðum við því að yfirstandandi ár myndi í ýmsum skilningi verða spegilmynd af árinu 2023. Nýlegir hagvísar benda til áframhaldandi samdráttar í einkaneyslu og raunar virðist hagkerfið almennt halda áfram að kólna allhratt eftir þensluskeiðið 2021-2022. Þar sem fjárhagur fyrirtækja og heimila er almennt traustur og atvinnuástand enn býsna gott er þó ekki hægt að tala um harða lendingu. Fremur má segja að lendingin virðist ætla að verða hröð en áfallalítil.
Í kjölfarið eru svo horfur á að hagkerfið taki að sækja hægt og bítandi í sig veðrið á ný síðar á árinu. Alls spáum við tæplega 2% hagvexti í ár. Næstu tvö ár eigum við svo von á að nokkuð bæti í vöxtinn á ný þar sem hraðari aukning innlendrar eftirspurnar vegur upp hægari útflutningsvöxt og gott betur. Eins og títt er um slíkar spár bendir ekkert sérstaklega til þess um þessar mundir að verulegir umhleypingar séu framundan í hagkerfinu en reynsla síðustu ára hefur auðvitað kennt okkur að óvæntir atburðir hér sem erlendis geta heldur betur sett strik í þann reikning. Í öllu falli eru góðu heilli helstu stoðir hagkerfisins almennt sterkar og getan til að þola bæði góða tíma og slæma meiri fyrir vikið.