Einskiptisliðir vega til lækkunar
Það helsta sem vegur til lækkunar í mánuðinum er 21,1% lækkun háskólagjalda (-0,14% áhrif á VNV) og 7,1% lækkun flugfargjalda til útlanda (-0,17% áhrif á VNV). Verðbreytingar skólagjalda koma venjulega til í ágúst og því um nokkurs konar einskiptisáhrif á VNV að ræða. Niðurfelling skólagjalda í nokkrum af háskólum landsins útskýra lækkunina. Í tilkynningu Hagstofu kemur einnig fram að áhrif af völdum niðurgreiðslu kostnaðar við skólamáltíðir muni koma fram í september. Munu þau leiða til nokkurrar lækkunar á grunnskólakostnaði í VNV.
Athygli vekur að matar- og drykkjarvara lækkaði um 0,5% í mánuðinum (-0,07% áhrif á VNV) en við höfðum spáð 0,5% hækkun (0,07% áhrif á VNV). Koma þar trúlega til áhrif innkomu nýrrar verslunar á matvörumarkað en þetta er fyrsta lækkun matvöru milli mánaða sem sést hefur í þrjú ár. Mögulega kann matvara að lækka enn frekar í næsta mánuði, enda hafði umrædd verslun ekki opnað þegar verðmælingar fóru fram í ágúst, og áhrif til lækkunar VNV í september því vanmetin.
Mildari áhrif útsöluloka
Einnig koma til mildari áhrif útsöluloka en við áttum von á. Sumarútsölur voru nokkuð grunnar þetta árið en lækkanir á ýmsum vörum áttu sér stað bæði í júní og júlí. Fyrir vikið áttum við von á mildari áhrifum útsöluloka. Þau reyndust þó enn mildari en við væntum þar sem föt og skór hækkuðu um 1,78% (0,06% áhrif á VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður hækkuðu um 1% (0,06% áhrif á VNV). Möguleiki er þó á að útsölulok dreifist yfir ágúst og september og því gæti viðlíka hækkun fatnaðar og skóbúnaðar sést í september ásamt lítilsháttar hækkunum húsgagna og heimilisbúnaðar. Sumarútsölur var þó að sjá í raftækjaverslunum en raftæki lækkuðu í verði um 3,74% (-0,06% áhrif á VNV).
Viðbrögð markaða
Það sem af er degi hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lækkað töluvert, sér í lagi á styttri endanum. Þriggja ára álagið hefur lækkað um 35 punkta, 25 punkta til fimm ára og tæplega 20 punkta til tíu ára samkvæmt okkar útreikningum. Það kætir eflaust peningastefnunefnd en henni hefur verið tíðrætt um að verðbólguvæntingar þurfi að koma niður áður en vaxtalækkunarferli hefst.
Nærhorfurnar
Í takt við tölur morgunsins færist bráðabirgðaspá okkar fyrir vísitölu neysluverðs næstu mánuði aðeins niður á við. Við teljum þó skammtímaverðbólguhorfur ekki mikið breyttar. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir eftirfarandi breytingum VNV milli mánaða:
- September - 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 5,8%)
- Október - 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 5,4%)
- Nóvember - 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 5,3%)