Hressileg hjöðnun ársverðbólgu í ágúst

Verðbólga lækkaði meira í ágúst en vænst var. Einskiptisliðir settu svip sinn á mælinguna ásamt því að útsöluáhrif voru nokkuð mild. Reiknuð húsaleiga hækkaði hins vegar meira en við áttum von á. Útlit er fyrir hraðari hjöðnun ársverðbólgu með haustinu og að hún mælist 5,1% í árslok samkvæmt okkar spá.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,09% í ágúst samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga lækkar fyrir vikið úr 6,3% í 6,0% og verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 3,6%. Einskiptisliðir lituðu mælinguna á meðan veigamiklir undirliðir hækkuðu meira en spár gerðu ráð fyrir. Útsölulok voru nokkuð mild að þessu sinni.

Mæling Hagstofu á VNV ágústmánaðar er undir öllum birtum spám en við spáðum 0,3% hækkun VNV í mánuðinum. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu eru lækkanir matvöruverðs og háskólagjalda ásamt meiri hækkun húsnæðisliðarins en við höfðum spáð.

Húsnæðisliður vegur enn þyngst

Líkt og síðustu misseri vegur húsnæðisliðurinn þyngst til hækkunar. Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,9% (0,17% áhrif á VNV) og rafmagn og hiti hækkuðu um 3,3% (0,11% áhrif á VNV). Til samanburðar spáðum við 0,5% hækkun reiknaðrar húsaleigu (0,10% áhrif á VNV). Títtnefnd ný aðferð við útreikning kostnaðar við búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsalega) hefur hingað til leitt til þess að 12 mánaða taktur verðbólgunnar mælist mun lægri en ef haldið hefði verið áfram að nota gömlu aðferðina. Raunar stæðum við frammi fyrir um 7% ársverðbólgu ef ekki hefi verið skipt um aðferð í júní.

Túlkun hreyfingar reiknuðu húsaleigunnar síðustu mánuði getur verið snúin. Vísbendingar um spennu á leigumarkaði eru skýrar en hækkun reiknaðrar húsaleigu hefur ekki verið jafn mikil og vísbendingarnar höfðu gefið til kynna. Skýringin felst í því að vísbendingarnar er að finna í hækkunum á nýjum leigusamningum en inni í mælingu reiknaðrar húsaleigu koma hækkanir allra gildandi leigusamninga, að óhagnaðardrifnum leigusölum undanskildum. Sökum þess koma hækkanir nýrra leigusamninga hægar inn í verðbólgumælingar þar sem lítill hluta gildandi leigusamninga losnar í mánuði hverjum og nýr leigusamningur gerður. Megnið af hækkunum liðarins má því rekja til vísitölutengingar flestra leigusamninga. Hækkunin hefur samt sem áður verið mikil, um það verður ekki deilt.

Minni sveiflur milli mánaða hafa fylgt nýju aðferðinni til þessa. Við áttum þó von á því að þær yrðu enn minni en raun ber vitni. Ástæða hækkunar reiknaðrar húsaleigu í ágúst má því að öllum líkindum rekja til vísitöluhækkunar gildandi leigusamninga. Einnig kann að vera að fleiri leigusamningar sem skila sér inn í verðbólgumælinguna hafi losnað í ágúst en í flestum öðrum mánuðum.

Einskiptisliðir vega til lækkunar

Það helsta sem vegur til lækkunar í mánuðinum er 21,1% lækkun háskólagjalda (-0,14% áhrif á VNV) og 7,1% lækkun flugfargjalda til útlanda (-0,17% áhrif á VNV). Verðbreytingar skólagjalda koma venjulega til í ágúst og því um nokkurs konar einskiptisáhrif á VNV að ræða. Niðurfelling skólagjalda í nokkrum af háskólum landsins útskýra lækkunina. Í tilkynningu Hagstofu kemur einnig fram að áhrif af völdum niðurgreiðslu kostnaðar við skólamáltíðir muni koma fram í september. Munu þau leiða til nokkurrar lækkunar á grunnskólakostnaði í VNV.

Athygli vekur að matar- og drykkjarvara lækkaði um 0,5% í mánuðinum (-0,07% áhrif á VNV) en við höfðum spáð 0,5% hækkun (0,07% áhrif á VNV). Koma þar trúlega til áhrif innkomu nýrrar verslunar á matvörumarkað en þetta er fyrsta lækkun matvöru milli mánaða sem sést hefur í þrjú ár. Mögulega kann matvara að lækka enn frekar í næsta mánuði, enda hafði umrædd verslun ekki opnað þegar verðmælingar fóru fram í ágúst, og áhrif til lækkunar VNV í september því vanmetin.

Mildari áhrif útsöluloka

Einnig koma til mildari áhrif útsöluloka en við áttum von á. Sumarútsölur voru nokkuð grunnar þetta árið en lækkanir á ýmsum vörum áttu sér stað bæði í júní og júlí. Fyrir vikið áttum við von á mildari áhrifum útsöluloka. Þau reyndust þó enn mildari en við væntum þar sem föt og skór hækkuðu um 1,78% (0,06% áhrif á VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður hækkuðu um 1% (0,06% áhrif á VNV). Möguleiki er þó á að útsölulok dreifist yfir ágúst og september og því gæti viðlíka hækkun fatnaðar og skóbúnaðar sést í september ásamt lítilsháttar hækkunum húsgagna og heimilisbúnaðar. Sumarútsölur var þó að sjá í raftækjaverslunum en raftæki lækkuðu í verði um 3,74% (-0,06% áhrif á VNV).

Viðbrögð markaða

Það sem af er degi hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lækkað töluvert, sér í lagi á styttri endanum. Þriggja ára álagið hefur lækkað um 35 punkta, 25 punkta til fimm ára og tæplega 20 punkta til tíu ára samkvæmt okkar útreikningum. Það kætir eflaust peningastefnunefnd en henni hefur verið tíðrætt um að verðbólguvæntingar þurfi að koma niður áður en vaxtalækkunarferli hefst.

Nærhorfurnar

Í takt við tölur morgunsins færist bráðabirgðaspá okkar fyrir vísitölu neysluverðs næstu mánuði  aðeins niður á við. Við teljum þó skammtímaverðbólguhorfur ekki mikið breyttar. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir eftirfarandi breytingum VNV milli mánaða:

  • September - 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 5,8%)
  • Október - 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 5,4%)
  • Nóvember - 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 5,3%)

Óvissuþættir næstu misseri

Óvissuþættirnir eru enn margir. Óvissa varðandi áhrif nýrrar aðferðarfræði við útreikning á reiknaðri húsaleigu er enn nokkur og hún hefur nú aukist með mikilli hækkun þessa mánaðar ásamt meiri mánaðarsveiflum fyrstu mánuðina sem hún er í notkun en við áttum von á. Útlit er fyrir að matvara lækki aftur í næsta mánuði en við það skapast óvissa varðandi hækkun sem matvara getur þá átt inni í vetur. Rétt er þó að taka fram að matar- og drykkjarvörur höfðu hækkað töluvert mánuðina á undan. Helsta óvissan fyrir næstu fjórðunga varðar niðurfellingu olíu- og bensíngjalda um áramótin en að því gefnu að aðrir skattar sem koma í staðinn verði ekki eyrnamerktir mun VNV að öðru óbreyttu lækka hressilega í janúar.

Til þess að spá okkar gangi eftir þarf launaskrið að vera takmarkað og gengi krónu stöðugt. Ófriðaröldur á heimsvísu eru einnig stór óvissuþáttur sem fyrr, stigmögnun á þeim vettvangi gæti haft veruleg neikvæð áhrif á milliríkjaviðskipti, verðlag og hagþróun hér sem erlendis.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband